Cruise hættir að borga meðlag

Tom Cruise er ekki í sambandi við dóttur sína.
Tom Cruise er ekki í sambandi við dóttur sína. AFP

Suri Cruise er orðin átján ára og samkvæmt ákvæðum skilnaðar Tom Cruise og Katie Holmes þá þarf Cruise ekki lengur að borga meðlag upp á 400 þúsund dollara á ári eða 56 milljónir króna. Hann mun þó koma til með að greiða skólagjöld fyrir hana en hún stefnir á háskólanám. Þetta kemur fram í umfjöllun Daily Mail.

Ekkert samband hefur verið á milli feðginanna síðan árið 2013 og er sambandsleysið talið vera vegna Vísindakirkjunnar sem Cruise er meðlimur í.

Suri er búsett í New York hjá móður sinni og er sögð hafa mikinn áhuga á tísku og ætlar sér í nám í faginu.

„Suri er að sækja um í ýmsum skólum. Katie vill að hún sé áfram í New York svo að þær geti verið nærri hvor annarri. Katie er afar stolt af dótturinni en verndar hana mjög,“ segir heimildarmaður.

„Suri er að fullorðnast og er mjög gáfuð ung kona. Hún á trygga vini og veit hvert hún er að fara í lífinu.“

Sjálf hefur Holmes talað fallega um dóttur sína í viðtölum. „Hún er afar sterkur persónuleiki. Hún ákveður eitthvað og vinnur hörðum höndum að því markmiði. Hún nær markmiðinu og finnur sér svo eitthvað annað viðfangsefni til þess að ná tökum á. Hún er mjög einbeitt og dugleg,“ sagði Holmes í viðtali við InStyle árið 2020.

Mæðgurnar Katie Holmes og Suri Cruise.
Mæðgurnar Katie Holmes og Suri Cruise. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert