Brain Police undirritar samning við Eddu: Hamborgarar og hávaði

Liðsmenn Brain Police
Liðsmenn Brain Police Morgunblaðið/Halldór Kolbeins
Rokksveitin Brain Police undirritaði samning við Eddu - útgáfu hf. á Hard Rock Café í föstudagshádeginu. Hljómsveitin leikur svokallað eyðimerkurrokk í anda Queens of the Stone Age (sem áttu eitt vinsælasta lag síðasta árs, "No One Knows") og eiga að baki eina breiðskífu, eina stuttskífu og einhver lög á safnplötum.

Meðlimir Brain Police settu það sem skilyrði fyrir undirritun samningsins að útgáfan byði þeim út að borða á Hard Rock, samningsatriði sem útgáfan brást góðfúslega við.

Meðlimum Heilalöggunnar var að bætast liðsstyrkur í formi hins öfluga söngvara, Jens Ólafssonar, og líta félagarnir því björtum augum á komandi átök sem fela í sér hljóðritun á annarri breiðskífu sveitarinnar. Stefnt er á hljóðver í mars og verður platan gefin út á HITT, sem er undirmerki Eddu.