Go plata ársins

Þórir Baldursson var heiðraður fyrir sitt framlag til tónlistar.
Þórir Baldursson var heiðraður fyrir sitt framlag til tónlistar. mbl.is/Árni Sæberg

Platan Go, sem Jón Þór Birgisson sendi frá sér á síðasta ári, var valin rokkplata ársins þegar Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í Þjóðleikhúsinu í 17. skipti í kvöld.

Athygli vakti þetta árið að enginn einn sópaði að sér verðlaunum eins og það er kallað, heldur skiptust verðlaunin jafnt á milli fjölmargra.

Heiðursverðlaunahafi þessa árs er Þórir Baldursson. Sunna Margrét, dóttir hans, og nokkrir samferðamenn hans og vinir hylltu hann með tónlistarflutningi um kvöldið.

Aðrir sem fluttu tónlist um kvöldið voru Bjartmar og Bergrisarnir, Kammerkór Suðurlands, Kalli, Samúel J. Samúelsson Big Band, Sunna Gunnlaugsdóttir og Jónas Sigurðsson. Kynnar voru þau Freyr Eyjólfsson og Erla S. Ragnarsdóttir og fóru þau á miklum kostum.

Umslag ársins var valið Pólýfónía með Apparat Organ Quartet en hönnuður þess er Sigurður Eggertsson eða Siggi Eggertsson.

Tónlistarflytjandi ársins voru þeir Ágúst Ólafsson og Gerrit Schuill sem fluttu þrjá síðustu ljóðaflokka Schubert með viku millibili á Listahátíð 2010. Rödd ársins var svo valinn Kristinn Sigmundsson, sem stendur nú á hátindi síns ferils. Bjartasta vonin er þá talinn Ari Bragi Kárason trompetleikari, einhver efnilegasti trompetleikari sem fram hefur komið um árabil.

Textahöfundur ársins var valinn Bjartmar Guðlaugsson, fyrir textana á á plötunni Skrýtin veröld þar sem Bjartmar stingur skemmtilega á ýmsum kýlum með kröftugum en ávallt skemmtilegum textum.

Tónhöfundur ársins var valin Ólöf Arnalds fyrir lög hennar á plötunni Innundir skinni. Lag ársins, „Hamingjan er hér“ á Jónas Sigurðsson en það er að finna á annarri plötu hans, hinni firnasterku Allt er eitthvað.

Tónverk ársins á Anna Þorvaldsdóttir, Hrím - fyrir hljómsveit. „Hrím er þétt ofið og afar áhrifaríkt verk, tónmálið sterkt, persónulegt og sannfærandi,“ segir í umsögn dómnefndar.

Mezzoforte fékk útflutningsverðlaun Loftbúar og hljómsveitin Dikta var valin flytjandi ársins í símakosningu meðan á útsendingu frá verðlaunahátíðinni í Sjónvarpinu stóð.

Hljómplata ársins - „Sígild og samtímatónlist“ var valin Hymnodia Sacra - Íslenskt sálmasafn frá 18. öld en flytjendur þar eru Kammerkórinn Carmina og Nordic Affect. Stjórnandi Árni Heimir Ingólfsson. Djassplata ársins er Horn eftir Jóel Pálsson en flytjendur þar eru Jóel Pálsson, vonin bjarta Ari Bragi Kárason, Eyþór Gunnarsson, Davíð Þór Jónsson og Einar Scheving.

Jónsi með bestu plötuna

Rokkhljómplötu ársins átti svo Jónsi, en fyrsta sólóplata hans, Go, kom út í apríl í fyrra. Síðasta ár var einkar gjöfult hjá Jóni Þóri Birgissyni, hann gaf út tvær plötur (tónleikaplata kom út í desember) og hann ferðaðist víða um heim með hljómsveit sinni. Þá var Go valin besta norræna plata síðasta árs.

Í umsögn dómnefndar segir: „Jónsi notar öll trikkin sem hann hefur lært á Sigur Rósar ferlinum og bætir við glitrandi perlum úr fjársjóðskistunni sinni. Útkoman er slík gersemi að það er leitun að annarri eins plötu. Reynsla og öryggi fara saman við ótrúlega næma söngtúlkun, stórfína spilamennsku og fágaða vinnslu.“


Kammerkór Suðurlands kom fram á hátíðinni.
Kammerkór Suðurlands kom fram á hátíðinni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Segðu hug þinn tæpitungulaust og þá muntu fá áheyrendur. Mundu bara að ábyrgð fylgir orði hverju og þá er þér ekkert að vanbúnaði.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Segðu hug þinn tæpitungulaust og þá muntu fá áheyrendur. Mundu bara að ábyrgð fylgir orði hverju og þá er þér ekkert að vanbúnaði.