Hélt boð til stuðnings Barack Obama

Sarah Jessica Parker er eldheitur stuðningsmaður Bandaríkjaforseta, Baracks Obama, og til að sýna það í verki efndi leikkonan til fjáröflunarkvöldverðar á heimili sínu í New York á fimmtudagskvöld.

Forsetinn mættir sjálfur til veislunnar ásamt konu sinni Michelle Obama en meðal hinna 50 gesta mátti sjá mörg þekkt andlit úr heimi skemmtana- og tískuiðnaðarins.

Forsetakosningar í Bandaríkjunum fara fram í haust og sækist Obama eftir endurkjöri. Parker styður hann til áframhaldandi setu í Hvíta húsinu og lagði forsetanum lið með fjáröflunarkvöldverði sem kostaði 40 þúsund Bandaríkjadali fyrir manninn.

Leikkonan bauð ýmsum góðum vinum til veislunnar, þar á meðal leikkonunni Meryl Streep, Önnu Wintour, ritstýru Vogue, leikkonunni Oliviu Wilde, fatahönnuðinum Michael Kors, sjónvarpsmanninum Andy Cohen og söngstjörnunni Arethu Franklin.

Bandaríkjaforseti tók til máls í kvöldverðarboðinu og sagði að mikil vinna væri framundan. „Við þurfum að leggja hart að okkur við þessar kosningar,“ sagði hann. „Við verðum að vera ennþá öflugri en við vorum 2008.“

Forsetinn bætti við: „Ég veit að þið eruð flest hingað komin til að hitta Michelle. Ég er auðvitað fimmti í valdaröðinni í Hvíta húsinu; efst er Michelle, næst kemur tengdamóðir mín og loks dæturnar tvær og Bo,“ sagði Obama og vísaði þar til ferfætlingsins á heimilinu.

Hann bætti strax við: „Nei annars, reyndar er ég sjötti í valdaröðinni, næstur á eftir hundinum.“

mbl.is