Stjórnsöm stjörnuleikkona

Indverska leikkonan Freida Pinto neitar því að hún sé óhemju erfið í samstarfi. Pinto varð stjarna á einni nóttu í myndinni Slumgdog Millionaire frá árinu 2008 og hefur síðan átt mikilli velgengni að fagna í heimi kvikmyndanna.

Pinto tekur nýlega gagnrýni mjög nærri sér um að hún sé stjórnsöm og erfitt sé að vinna með henni. Í viðtali við tímaritið Flaunt kveðst hún mjög leið yfir fullyrðingum fjölmiðla sem séu ósannar og fékk það sérstaklega á hana þegar gagnrýnin barst frá heimalandi hennar, Indlandi.

„Mér var allri lokið þegar indverskt dagblað skrifaði að ég væri með stjörnustæla og það væri bókstaflega ekki hægt að vinna með mér,“ segir leikkonan.

„Fullyrt var að þetta væri ástæðan fyrir því að ég vildi ekki fljúga til Indlands og kynna myndina mína. Ég trúði ekki eigin augum, ég var á kafi við að kynna myndina í Ameríku og gat ekki sinnt öðru á meðan. Svo einfalt var það.“

Nýjasta mynd Pinto er Desert Dancer í leikstjórn Richards Raymonds, sem væntanleg er í kvikmyndahús á næsta ári. 

mbl.is