Skálmöld spilar á afmælishátíð CCP

CCP fagnar tíu ára afmæli tölvuleiksins EVE Online á hinni árlegu EVE Fanfest hátíð sem fram fer í Hörpu dagana 24.-27. apríl. Hátíðinni lýkur með tónleikum Skálmaldar, Retro Stefson, DJ Margeirs og plötusnúðarins Z-Trip.

Uppselt er á Fanfest hátíðina, en líkt og síðustu ár verða sérstakir aðgöngumiðar í boði á tónleikadagskrána – og hefst miðasala á þá á morgun, miðvikudaginn 17. apríl kl. 10:00.

Líkt og undanfarin lýkur hátíðinni með stórtónleikum, sem gengið hafa undir nafninu Party at the Top of the World, þar sem hátíðargestir skemmta sér fram eftir nóttu við dúndrandi rokk og danstakta.  Fram koma; Skálmöld, Retro Stefson, DJ Margeir og ameríski plötusnúðurinn og listamaðurinn Z-Trip sem sem stundum er kallaður guðfaðir “mash-up” hreyfingarinnar, segir í tilkynningu frá CCP.

 Z-Trip hefur unnið til fjölda verðlauna og komið fram og unnið með listamönnum á borð við Rolling Stones, M.I.A., Daft Punk, LL Cool J og Beck. Tónleikar með kappanum eru mikið sjónarspil þar sem hann blandar saman margvíslegum tónlistarstílum og straumum, á sviði sem sérstaklega verður byggt fyrir hann í Hörpunni. Z-Trip var síðasti maður á svið á Grammy-verðlaunahátíðinni í febrúar og nú verður hann lokaatriðið á Fanfest 2013. Meira hér og hér.

 Skálmöld hefur verið að vinna sér fylgi utan landsteinana og er vel þekkt meðal spilara EVE Online leiksins eftir að lag sveitarinnar „Árás” var notað í kynningarstiklu á síðustu Fanfest-hátíð. Retro Stefson er án efa ein skemmtilegasta tónleikasveit landsins og DJ Margeir hefur komið fram á Fanfest-hátíðinni í áraraðir.

Miðasala hefst miðvikudaginn 17. apríl klukkan 10:00 og fer miðasala fram í Hörpu, á Midi.is og Harpa.is.

Árleg hátíð CCP í Reykjavík

Frá árinu 2004 hefur CCP haldið árlega Fanfest-hátíð sína í Reykjavíkurborg. Viðburðurinn hefur vaxið ár frá ári og fer í ár fram í öllum rýmum Hörpu. Dagskrá Fanfest er fjölbreytt og samanstendur m.a. af sýningum, fyrirlestrum og óvæntum uppákomum sem eiga engan sinn líkan. CCP fagnar tíu ára afmæli EVE Online á Fanfest í ár. Fjöldi erlendra gesta sækir hátíðina heim; spilarar leiksins, blaðamenn og starfsmenn tölvuleikja- og afþreyingariðnaðarins.

Fanfest
Z-Trip 
Retro Stefson 
Skálmöld  
EVE Online 

CCP 

mbl.is