Ástfanginn Aron syngur um morgunkoss

Aron Hannes söng sig inn í hjörtu landsmanna í Söngvakeppni Sjónvarpsins í vor þar sem hann lenti í 3. sæti. Í sumar sendi hann frá sér lagið Sumarnótt til þess að fylgja eftir vinsældunum eftir Söngvakeppnina og var því lagi vel tekið. Nú hefur hann gefið út sitt þriðja lag, Morgunkoss.

„Ég geri þetta lag í samstarfi við þá Valla Sport, sem gerir textann, og Svein Rúnar, sem semur lagið,“ segir Aron Hannes um nýja lagið sitt, Morgunkoss. Lagið fjallar um mann sem vaknar upp eftir skyndikynni innblásin af mikilli ást, án þess að vera með nafn eða símanúmer. Lagið er á íslensku en Aron stefnir að útgáfu á því á ensku líka. Hann er sammála blaðamanni þegar hann er spurður hvort það sé ekki eftirspurn eftir góðu poppi á íslensku. „Ég t.d. er mikill aðdáandi Friðrik Dórs og hann er alltaf með frábæra texta á íslensku, lögin eru grípandi en textarnir ekki síður,“ segir Aron.

Ástin í Hollandi

Aron er með annan fótinn í Hollandi en kærastan hans er hollensk. Þau kynntust í fyrra þegar þau stunduðu nám í söng í Kaupmannahöfn. „Það er svona pæling kannski, en ekki alveg strax. Þetta er ekki nema tveir til þrír tímar í flugi þanng að þetta er ekki svo langt í burtu,“ segir Aron þegar hann er spurður hvort það standi til að flytja til Hollands á næstunni. Hann er þó alveg viss um það að hann muni ekki freista þess að taka þátt í Eurovision fyrir Hollands hönd en hann sló rækilega í gegn hér á Íslandi fyrr á árinu í Söngvakeppni Sjónvarpsins.

Útilokar ekki þátttöku á næsta ári

Þegar Aron er spurður hvort hann gæti hugsað sér að taka aftur þátt í Söngvakeppninni á næsta ári útilokar hann það ekki.

„Þetta var alveg ógeðslega gaman, þetta kom mér á kortið og maður er alveg tilbúinn að upplifa þetta aftur,“ segir Aron. Það má segja að þjóðin hafi verið tilbúin til þess að taka á móti Aroni en hann var sérstaklega vinsæll meðal ungra áhorfenda, sem biðu í röðum eftir eiginhandaráritun frá honum.

Kemur fram á jólatónleikum í desember

„Ég verð hjá henni Heru Björk í Grafarvogskirkju,“ segir Aron um dagskrána í desember en þau Aron og Hera hafa þekkst lengi. „Í fyrsta skipti sem ég fór í söngtíma var það hjá henni, þannig að við höfum þekkst lengi og eigum mjög vel saman,“ segir Aron, sem segist vera mikið jólabarn. Hann gerir ráð fyrir því að flytja einhver Bublé-jólalög og jafnvel eitthvað sem Elvis gerði frægt.

Horfðu hér á viðtal við Aron Hannes. 

 

Hér getur þú hlustað á lagið Morgunkoss.

 

 

mbl.is