Ætti að styðja fjárhagslega við föður sinn

Systir Meghan Markle hefur skoðanir á málefnum systur sinnar.
Systir Meghan Markle hefur skoðanir á málefnum systur sinnar. mbl.is/AFP

Það verður að teljast ólíklegt að Meghan Markle bjóði systur sinni, Samönthu Grant, í brúðkaup sitt og Harry Bretaprins í maí næstkomandi. Hálfsystir verðandi brúðarinnar heldur áfram að setja út á Meghan en Grant hefur verið dugleg að tjá sig um málefni Meghan bæði við fjölmiðla og á netinu. 

Hún fer fögrum orðum um föður þeirra  í viðtali við InTouch og segir að Meghan eigi honum margt að þakka bæði hvað varðar skólagöngu sína sem og tengsl hans við skemmtanabransann. Grant finnst eins og Meghan eigi að endurgjalda föður sínum með því að styðja við hann fjárhagslega en faðir þeirra varð gjaldþrota árið 2016. 

„Ef þú getur eytt 7,8 milljónum í kjól þá getur þú eytt 7,8 milljónum í föður þinn,“ segir Grant og á þar við rándýran Ralph & Russo-kjól sem Meghan klæddist í trúlofunarmyndatöku sinni og Harrys. 

Grant kennir móður Meghan um sambandsleysið og segir hana ráðríka og hún vilji helst búa með þeim Harry í höllinni. Mikið er rætt um hver muni leiða Meghan upp að altarinu og kemur móðir hennar þar sterklega til greina. Grant segir hins vegar að faðir þeirra sé að reyna þjálfa upp veikan fótlegg sinn svo hann geti fylgt Meghan upp að altarinu í maí. 

Kjóll Meghan Markle er systur hennar hugleikinn.
Kjóll Meghan Markle er systur hennar hugleikinn. mbl.is/AFP
mbl.is