Píkan er vöðvi sem slær eins og hjartað

„Undir stjórn Charlotte Bøving leikstjóra skapar leikhópurinn röð smámynda sem …
„Undir stjórn Charlotte Bøving leikstjóra skapar leikhópurinn röð smámynda sem birtast eins og litríkir flugeldar sem springa út hver á fætur öðrum áhorfendum til mikillar ánægju,“ segir m.a. í leikdómni um Ahhh ... úr smiðju RaTaTam. Ljósmynd/Saga Sig.

Ahhh ... Ástin er að halda jafnvægi nei fokk ástin er að detta er allt í senn meinfyndin, ögrandi, harmræn og ósæmileg, en síðast en ekki síst hjartastyrkjandi sýning – enda gerir það okkur aðeins gott að fá vænan skammt af húmor, losta og ást á nöprum vetrarkvöldum,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í niðurlagi á leikdómi sínum um nýjustu uppfærslu leikhópsins RaTaTam í leikstjórn Charlotte Bøving sem byggir á textum eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur. 

„Mikil gróska einkennir sjálfstæðu leikhópana um þessar mundir, en það sem af er ári hafa margar skemmtilegustu, kraftmestu og áhrifaríkustu sýningarnar verið úr þeirra smiðju. Um liðna helgi bættist nýjasta uppfærsla leikhópsins RaTaTam í Tjarnarbíói þar í hópinn. Sýningin nefnist Ahhh ... og hefur undirtitilinn „Ástin er að halda jafnvægi nei fokk ástin er að detta“. Fyrir rúmu ári vann leikhópurinn verkið Suss! sem byggðist á reynslusögum þolenda, gerenda og aðstandenda um heimilisofbeldi, en að þessu sinni er það ástin í öllu sínu veldi sem ræður för og leitar hópurinn fanga í ljóðum og smásögum Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur sem birst hafa í átta bókum skáldkonunnar á 25 ára tímabili frá 1989 til 2014.

Elísabet er sannkölluð þjóðargersemi sem snertir við lesendum með einlægni sinni. Hún lýsir því hvernig er að fuðra upp af ást og hversu hún skammast sín fyrir að verða auðveldlega skotin í öllum sem hún hittir auk þess sem lostinn fær sinn skerf með tilheyrandi stunum og líkamsvessum. En ástin á líka sínar skuggahliðar sem tengjast stjórnsemi, þráhyggju, ofbeldi, skömm, höfnun og sorg. Elísabet kemur svo fallega orðum að því hvernig við brynjum okkur til að komast hjá sársauka sem aftur leiðir til þess að við hleypum engum að okkur með tilheyrandi tómleika. Hún lýsir ójafnvæginu sem getur skapast þegar manneskja gefur svo mikið að hún gefur vitlaust og endar með holu innan í sér – tóm í hjartanu.

Texti Elísabetar er allt í senn fallegur, fyndinn og erótískur – en fyrst og fremst ávallt ljóðrænn og frumlegur. Elísabet er eins og hirðfíflið sem leyfist að segja jafnvel hrikalega óviðeigandi hluti sem fær okkur ýmist til að roðna eða skellihlæja – en henni leyfist það vegna þess að allt sem hún segir er satt, hvort sem við viljum vita af því eða ekki.

Með vísan í hirðfíflið er snjallt að leikhópurinn birtist sem trúðar í svörtum hnébuxum með eldrauðar hárkollur undir svörtum pípuhöttum. Þórunn María Jónsdóttir, sem hannar bæði leikmynd og búninga, lætur leikarana halda buxunum uppi með nokkrum axlaböndum sem minnir okkur á hvernig við getum verið flækt í tilfinningar okkar. Rauði liturinn, sem kallast bæði á við ást og bræði, er allsráðandi í sýningunni og birtist jafnt í gólfteppinu sem leikið er á og loftháum silkiströngum sem nýtast ekki aðeins til að klifra og róla í, heldur má flækja ströngunum saman og búa til tré sem minnir jafnvel á æðakerfið sem umvefur hjartað – þennan hnefastóra vöðva sem við eignum tilfinningar okkar,“ segir í leikdómnum og áfram er haldið. 

„Eðli málsins samkvæmt býður efniviðurinn ekki upp á eina línulega frásögn heldur margar litlar myndir. Umgjörð sýningarinnar er kabarett eða sirkus þar sem við hittum fyrir fimleikafólk, dverg, skeggjaða konu og sirkusstjóra að ógleymdum trúðunum. Undir stjórn Charlotte Bøving leikstjóra skapar leikhópurinn röð smámynda sem birtast eins og litríkir flugeldar sem springa út hver á fætur öðrum áhorfendum til mikillar ánægju. Leikarnir fjórir bresta í söng þegar minnst varir og kyrja eins og möntru setningar á borð við „Píkan er vöðvi sem slær eins og hjartað“, leika á hin ýmsu hljóðfæri, stíga dansspor úr smiðju Hildar Magnúsdóttur og detta áreynslulaust inn í ljóða- og textaflutning sem fléttast saman í eina dásamlega og töfrandi heild,“ segir m.a. í leikdómnum sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes