Fry greindist með krabbamein

Leikarinn Stephen Fry í apríl í fyrra.
Leikarinn Stephen Fry í apríl í fyrra. AFP

Breski leikarinn Stephen Fry hefur greint frá því að hann hafi greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli.

Hann gekkst undir aðgerð í janúar og segir hann að allt hafi gengið vel. Honum líði prýðilega núna.

Fry, sem er sextugur, tjáði sig um heilsufarsvanda sinn á Twitter.

„Mér þykir leitt að hafa ekki getað talað um þetta fyrr en hérna er ég að útskýra hvað hefur verið í gangi,“ sagði hann í myndbandi.

„Að því er ég best veit er búið að fjarlægja meinið,“ sagði hann og bætti við: „Í augnablikinu er ég í góðu formi og hamingjusamur“.

Fry, sem hefur verið kynnir Bafta-verðlaunanna undanfarin ár, varð að draga sig út úr hátíðinni í ár vegna veikindanna.

Krabbameinið uppgötvaðist í hefðbundinni flensusprautu sem hann fór í fyrir jól.

mbl.is