Bollywood-stjarna látin

Sridevi Kapoor.
Sridevi Kapoor. AFP

Indverska leikkonan Sridevi Kapoor er látin, 54 ára að aldri. Hún var stórstjarna í Bollywood og lék í yfir 150 kvikmyndinum á ferli sem spannaði tæpa fimm áratugi. Fjölskylda hennar segir að hún hafi látist af völdum hjartaáfalls í Dubai þar sem hún var viðstödd brúðkaup hjá ættingjum sínum.

Sridevi naut gríðarlegra vinsælda. Fram kemur á vef BBC, að hún hafi haft mikið aðdráttarafl og verið talin ein af fáum indverskum leikkonum sem gat dregið fjölmenni í kvikmyndahús og skilað miklum tekjum án þess að þurfa frægan karlleikara sér við hlið. 

Hún hóf að leika í kvikmyndum fjögurra ára gömul. 

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, segir í færslu á Twitter að hann sé miður sín vegna andláts Sridevi. Ram Nath Kovind, forseti Indlands, tók í svipaðan streng þegar hann sagðist vera í áfalli yfir tíðindunum. 

Hún var m.a. þekkt fyrir hlutverk sín í Mr. India, ChaalBaaz, Sadma og Chandni, en sjá má brot úr þeirri síðastnefndu hér fyrir neðan.

mbl.is