Smökkunarmatseðill fyrir þá sem vilja kynnast óperuforminu

Ása Fanney (fyrir miðju) og Guja (þriðja frá hægri) ásamt …
Ása Fanney (fyrir miðju) og Guja (þriðja frá hægri) ásamt hljómsveitinni sem leikur undir í flutningi Trouble in Tahiti. Hljómsveitin er skipuð nemendum úr LHÍ og MÍT ef undan er skilin Hrönn Þráinsdóttir kennari sem spilar á píanó og stjórnandinn Gísli Jóhann Grétarsson. mbl.is/​Hari

Mörgum þykir óperan fegurst listforma. Hún blandar allri þeirri vídd sem mannsröddin býr yfir saman við hljóðfæraleik, leikrænna tjáningu, fallegar sviðsmyndir og sögur um goð og kónga jafnt sem þræla og gleðikonur.

Verst að ekki skuli vera til á Íslandi almennilegt óperuhús og raunar leitun að þeirri höfuðborg Evrópu þar sem óperumenningin er fátæklegri – og það þrátt fyrir að margir íslenskir óperusöngvarar séu í fremstu röð í sínu fagi. Takmarkað framboð á óperuuppfærslum býr síðan til vítahring þar sem tækifærin til að smitast af óperubakteríunni eru fá sem svo veldur því að eftirspurnin eftir óperusýningum er minni en ella.

Guja Sandholt og Ása Fanney Gestsdóttir vilja breyta þessu. Þær eru listrænir stjórnendur Óperudaga í Reykjavík en um er að ræða framhald á Óperudögum í Kópavogi sem haldnir voru árið 2016: „Með hátíðinni langar okkur m.a. að gefa fleirum tækifæri á að kynnast þessu listformi og vonandi fá bakteríuna,“ segir Ása. Hún bætir við að á dagskránni séu bæði stutt og aðgengileg verk sem og lengri sýningar og framúrstefnulegri verk. „Við gerum hátíðina eins aðgengilega og hægt er með því að dreifa Óperudögum á marga staði í borginni og koma með óperurnar og ýmsa söngviðburði til fólksins. Samtals verða um það bil 30 viðburðir í boði og fáum við inni hjá mörgum menningarstofnum borgarinnar; heimsækjum grunnskóla og hjúkrunarheimili og höldum meira að segja óperuviðburð í Árbæjarlaug,“ segir Guja og bendir á að margir ókeypis viðburðir verði í boði á hátíðinni.

Óperan gerð aðgengileg

Dagskrá Óperudaga er líka ætlað að sýna hversu fjölbreytt verkefni klassískir söngvarar taka sér fyrir hendur enda syngja þeir jú ýmislegt annað en óperutónlist. Guja og Ása segja það útbreiddan misskilning að það eina sem óperuheimurinn hafi upp á að bjóða séu risastórar og langar sýningar sem útheimti stóra kóra, dýrar sviðsmyndir og heilan her af einsöngvurum. Þær segja það líka misskilning að til að njóta þess að hlusta á óperu þurfi fólk að klæðast síðkjólum og nýpressuðum jakkafötum, og jafnvel klára eins og eina dós af sterkum orkudrykk eða nokkur skot af espressó til að sofna ekki í rólegu köflunum:

„Það er svo miklu meira í boði í óperuheiminum. Þýskur vinur minn sem býr hér á Íslandi nefndi við mig hvað hann saknaði þess að njóta óperu á hversdagslegan hátt eins og hann var vanur í heimalandinu, þar sem það að skjótast á óperusýningu getur verið jafn sjálfsagt og frjálslegt og að fara í bíó – og ekkert að því að mæta á gallabuxunum,“ segir Ása.

Meðal verka á dagskrá Óperudaga í Reykjavík má nefna flutning á Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson og Trouble in Tahiti eftir Leonard Bernstein. „Verk Jóns Ásgeirssonar er fyrsta íslenska óperan og aðgengileg gamanópera sem er undir tveimur tímum að lengd. Bernstein er þekktastur fyrir söngleikina sína en hann samdi þessa óperu þegar hann var ungur maður og er hún undir klukkustund í flutningi,“ segir Guja og bætir við að Barokkbandið Brák verður með mikla flugeldasýningu á opnunarkvöldi hátíðarinnar í Fríkirkjunni þar sem fluttar verða aríur, dúettar og hljóðfæratónlist eftir Händel og fleiri snillinga barokksins. „Þeir sem vilja prófa eitthvað ævintýrakenndara gætu t.d. haft gaman af sýningu Operation Opera í Norræna húsinu þar sem verkið In the Darkness verður flutt í niðamyrkri; brúðuóperuna STÖV í Tjarnarbíói eða óperugjörninginn FREE PLAY í Hafnarhúsinu.“

Ása bendir á að upplagt sé fyrir fólk að fara á sem flesta viðburði til að kynnast óperuheiminum frá mörgum ólíkum hliðum. „Það mætti líta á dagskrána sem smökkunarmatseðil fyrir þá sem hafa ekki kynnst óperuforminu eins vel og þeir hefðu viljað og ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á þessum söngva-seðli.“

Mikli ekki hefðirnar fyrir sér

En í hvaða stellingar á fólk að setja sig þegar farið er á óperusýningu? Eru ekki alls kyns óskrifaðar reglur sem óinnvígðum hættir til að brjóta og verða að athlægi? Hvað ef fólk klappar á röngum stað og neyðist til að fara í sjálfskipaða menningarútlegð til Svalbarða?

Guja og Ása segja að það megi einmitt alls ekki gera of mikið úr hefðum óperuheimsins. „Óperan er lifandi form og á ekki að vera einhvers konar safngripur. Er gott að hafa það hugfast að óperusýningar voru popptónleikar síns tíma, og ástæðan fyrir því hve óperurnar urðu sumar langar að áhorfendur voru að skrafa saman og skemmta sér, og njóta matar og drykkjar á meðan flutningurinn stóð yfir. Í gegnum tíðina hafa mótast ákveðnar reglur, en þær eru ekki margar og ekkert sérstaklega strangar,“ segir Ása.

Ása bætir við að það þurfi helst að muna það á ljóðatónleikum að klappa ekki á milli verka þegar nokkur verk eftir sama höfundinn eru flutt í einni röð. „Að öðru leyti gilda varla aðrar reglur en þær að fólki er frjálst að klappa ef það hrífst af flutningnum, og í vöggu óperunnar á Ítalíu hrópa áhorfendur jafnvel upp yfir sig af gleði eða púa söngvarana hiklaust niður ef því er að skipta. Umfram allt ætti fólk að koma á óperusýningu með því hugarfari að njóta, láta fara vel um sig og vonandi fá gæsahúð af hrifningu.“

Það gæti kannski hjálpað að lesa sér ögn til um verkið eða tónskáldið, en Guja segir það ekki nauðsynlegt, ekkert frekar en fólk þarf að þekkja fyrri verk leikstjóra, handritshöfundar eða aðalleikara þegar horft er á kvikmynd í bíó. Ása bætir við: „Höfum það líka hugfast að þegar að er gáð reynist söguþráðurinn í óperum stundum algjör della, og er hálfgert aukaatriði, en þeim mun brýnna að hlusta af athygli á aríurnar sem oft eru þannig að það er eins og tíminn stöðvist í framvindu sögunnar og tilfinningar augnabliksins séu settar undir stækkunargler. Það er þar sem margir finna töfra óperuheimsins hvað sterkast; þegar söngvara og tónskáldi tekst að magna upp tilteknar mannlegar tilfinningar við tilteknar kringumstæður og tímanum er leyft að standa í stað á meðan.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson