„Hljómurinn einstaklega flottur“

Sigríður Ósk Kristjánsdóttir.
Sigríður Ósk Kristjánsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kona í síðum, rauðum kjól með um áttatíu karla prúðbúna í svart og hvítt í bakgrunni. Kertaljós í hverjum kima. Hallgrímskirkja í allri sinni dýrð. Hversu jólaleg getur stemningin orðið mörgum dögum áður en hátíð ljóss og friðar gengur í garð? Mögulegt svar væri sú stund þegar Karlakór Reykjavíkur hefur upp raust sína og konan í rauða kjólnum syngur „Ave Maria“, „Ó helga nótt“ og önnur sígild jólalög í áðurnefndri kirkju. Sú stund rennur upp á árlegum aðventutónleikum Karlakórs Reykjavíkur kl. 17 á laugardaginn kemur, 8. desember. Tónleikarnir verða endurteknir kl. 17 og 20, sunnudaginn 9. desember. Þetta er 25. árið í röð sem Karlakór Reykjavíkur heldur sína árlegu aðventutónleika og var hann fyrstur kóra hér á landi til að taka upp þá hefð.

Konan í rauða kjólnum er Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran, aðalgestur kórsins þetta árið. Hún hefur sungið fjölmörg óperuhlutverk hér heima og erlendis og fengist við fjölbreyttar efnisskrár í áranna rás, allt frá lágstemmdum ljóðasöng til umfangsmikilla óratóría.

Karlakór Reykjavíkur á aðventutónleikum í Hallgrímskirkju fyrir nokkrum árum.
Karlakór Reykjavíkur á aðventutónleikum í Hallgrímskirkju fyrir nokkrum árum. mbl.is/Golli

Trúarlegir lagatextar

„Ég hef sungið með karlakórum í ýmsum kirkjuathöfnum, en aldrei áður á svona stórum tónleikum. Það er eitthvað alveg sérstakt við karlakóra, hljómurinn er einstaklega flottur. Mér finnst mjög spennandi og jafnframt mikill heiður að vera boðið að syngja með eins glæsilegum kór og Karlakór Reykjavíkur er og hikaði auðvitað ekki við að þiggja boðið,“ segir Sigríður Ósk og leynir ekki tilhlökkun sinni. Æfingarnar hafa gengið ljómandi vel og hún kveðst þakklát fyrir að fá tækifæri til að syngja með svona samstilltum og kröftugum kór.

Að vanda verður mikið í lagt og hefur kórinn einnig kallað til fastagesti sína frá fyrri árum sér til fulltingis. Þau eru organistinn Lenka Mátéová, trompetleikararnir Eiríkur Örn Pálsson og Guðmundur Hafsteinsson og pákuleikarinn Eggert Pálsson.

Sigríður Ósk er hæstánægð með lögin sem hún syngur og þau Friðrik S. Kristinsson kórstjóri völdu í sameiningu. „Ég syng sex lög, þar af tvö „Ave Maria“, annars vegar eftir spænska tónskáldið William Gomez og hins vegar Sigvalda Kaldalóns. Hin lögin sem ég tek eru „Nóttin var sú ágæt ein“, „Ó helga nótt“, „Panis Angelicus“ og „Heims um ból“ í lokin. Flestir þekkja þessi lög, sem eru afar grípandi og falleg og gaman að syngja, “ segir Sigríður Ósk og viðurkennir að þótt „Ave Maríurnar“ séu margar fallegar og hún eigi erfitt með að gera upp á milli þeirra, haldi hún mest upp á „Ave Mariu“ hans Gomez. „Annars hrífst ég ekki aðeins af fögrum tónum og hátíðlegu umhverfi tónleikanna. Hinn sterki trúarlegi boðskapur í textum laganna höfðar sterkt til mín og tónarnir ýta undir áhrifin.“

Spurð hvort henni finnist áskorun að syngja einsöng með eins stórum kór og Karlakór Reykjavíkur segir hún svo ekki vera í sjálfu sér. Kannski er spurningin líka út í hött í ljósi þess að hún er enginn nýgræðingur í að syngja með fjölskrúðugum tónlistarhópum og standa á sviði fyrir framan fullan sal af fólki.

Í essinu sínu

Sigríður Ósk er vön að bregða sér í alls konar hlutverk þegar söngur og tónlist eru annars vegar. Á aðventutónleiknum Karlakórs Reykjavíkur er hún þó einfaldlega í hlutverki sjálfrar sín, mezzósópransöngkonunnar Sigríðar Óskar. „Ég er mikið jólabarn og nýt mín vel á þessum árstíma þegar nóg er að gera í söngnum og ég fæ að upplifa jólastemninguna með fjögurra ára dóttur minni. Síðustu tvö árin hef ég sjálf staðið fyrir jólatónleikunum Sígild jól. Um liðna helgi söng ég á jólatónleikum Kristjáns Jóhannssonar í Eldborg í Hörpu, svo það hefur verið nóg að gera hjá mér,“ segir Sigríður Ósk.

Hún hefur nokkrum sinnum sungið í Hallgrímskirkju, til dæmis í óratoríum með Mótettukórnum undir stjórn Harðar Áskelssonar og Dómkórnum undir stjórn Kára Þormars og segir hljómburðinn einstaklega góðan. „Tilhlökkunarefni að syngja þar aftur,“ segir hún.

Stærsta óperuhlutverk Sigríðar Óskar á Íslandi til þessa er Rosina í Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini í Íslensku óperunni árið 2015. Eftir jól verður hún í hlutverki Floru í La traviata eftir Verdi, einnig í uppfærslu Íslensku óperunnar. Dagskráin framundan er býsna þétt. „Ég var þó nokkurn tíma að finna út hvernig hægt er að lifa á listinni á Íslandi. Hér er ekki hægt að sækja um fast starf sem söngvari og því er maður í ýmsum verkefnum sem bjóðast eða maður vinnur að sjálfur. Auk þess hef ég kennt söng við Söngskólann í Reykjavík frá því í haust og kenni einnig krökkum á píanó. Að fá að vinna við að flytja tónlist með frábæru tónlistarfólki er mikil gjöf. Þegar áheyrendur mæta á tónleikastað eða í leikhús og vel tekst til skapast stundum töfrastundir sem lifa lengi með flytjanda og áheyrendum og gera það þess virði að vera tónlistarkona,“ segir Sigríður Ósk. Trúlega verður upplifunin á aðventutónleikum Karlakórs Reykjavíkur með þeim hætti.

Hér má heyra kórinn syngja Það aldin út er sprungið á aðventutónleikum fyrir þremur árum:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes