Eivør aftur í kjarnann

Eivör Pálsdóttir heiðrar minningu Jóns Stefánssonar með tónleikum í dag.
Eivör Pálsdóttir heiðrar minningu Jóns Stefánssonar með tónleikum í dag. Ljósmynd/Shervin Laine

Færeyska tónlistarkonan Eivør Pálsdóttir kemur fram á tónleikum Minningarsjóðs Jóns Stefánssonar í Langholtskirkju í dag kl. 16 og eru þeir haldnir samhliða annarri úthlutun úr sjóðnum sem er ætlað að styðja ungt fólk sem er að hasla sér völl á sviði tónlistar og styrkja önnur verkefni sem stjórn sjóðsins metur að falli að hugsjónum Jóns heitins. Aðgangseyrir mun renna óskiptur í sjóðinn.


Eivør verður ein með gítarinn á tónleikunum og mun bæði flytja lög af sólóplötum sínum sem og nokkur af þeirri tólftu sem er nú í smíðum. Eivør er einmitt í stúdíói þegar blaðamaður nær tali af henni, tveimur dögum fyrir tónleika. „Ég er bara að vinna í nýju plötunni minni og klára hana þessa dagana,“ segir Eivør á lýtalausri íslensku en hún bjó hér á landi í um fimm ár og hefur margoft komið hingað eftir það til tónleikahalds og til að heimsækja vini en Jón og Ólöf Kolbrún Harðardóttir urðu örlagavaldar í sönglífi Eivarar því Ólöf Kolbrún kenndi henni söng í Söngskólanum í Reykjavík og kom Eivör margoft fram sem einsöngvari með kórum Langholtskirkju auk þess að vera fastagestur á Jólasöngvum Kórs Langholtskirkju, eins og segir á miðasöluvefnum Tix.is þar sem kaupa má miða á tónleikana.

Eivør á tónleikum Rásar 2, Tónaflóð, á menningarnótt árið 2016.
Eivør á tónleikum Rásar 2, Tónaflóð, á menningarnótt árið 2016. Eggert Jóhannesson


Ekki verið sóló lengi


„Ég eignaðist marga góða vini á Íslandi sem ég hef mikið samband við enn þá þannig að þetta er alltaf svolítið eins og að koma heim til mín, að koma til Íslands,“ segir Eivør. Um Jón heitinn segir hún að þau hafi verið rosalega góðir vinir og henni þyki því yndislegt að geta komið aftur og sungið á minningartónleikum um hann en Eivør tók líka þátt í tónleikunum sem haldnir voru í fyrra. „Ég veit að honum myndi þykja mjög vænt um þennan sjóð,“ segir hún um Jón.
–Þú kemur ein fram með gítarinn, er langt síðan þú gerðir það síðast?
„Já, ég hef ekki verið mikið að spila sóló í mörg ár, hef mest verið að túra með bandinu mínu. Núna verð ég með mjög „stripped back“ prógramm, bara nakið með gítarinn og effektana mína. Það er gaman að skipta stundum og fara í kjarnann aftur,“ svarar Eivør.


–Hvernig verður prógrammið?
„Ég ætla að spila lög af síðustu plötunum mínum; Slør, Bridges og kannski líka Room og svo ætla ég að taka nokkur ný lög líka í fyrsta skipti, ég hef aldrei spilað þau á tónleikum. Þetta er gott tækifæri til að prófa þau aðeins.“
Eivør hefur margoft sungið í Langholtskirkju þar sem hún var í kórum undir stjórn Jóns og hefur líka sungið á jólatónleikum og fleiri tónleikum í kirkjunni. Hún segir góðan anda í kirkjunni og að hljómburðurinn sé líka góður. „Það er gott andrúmsloft í henni,“ segir hún.

Hér má sjá upptöku af útgáfutónleikum Eivarar vegna plötunnar Slør:


Góð tilbreyting


Eivør samdi tónlist við sjónvarpsþættina The Last Kingdom með skoska tónskáldinu John Lunn og hlaut fyrir hana Færeysku tónlistarverðlaunin í fyrra. Þættirnir eru á Netflix og segir Eivør að hún hafi samið tónlist við átta þáttaraðir og að tónlistin hafi líka verið gefin út sérstaklega í fyrra og þá m.a. á vínil. „Það er búið að vera rosa gaman og allt öðruvísi en það sem ég hef verið að gera sjálf,“ segir hún um sjónvarpsþáttatónsmíðarnar og er spurð að því hvort slíkar tónsmíðar séu orðnar fyrirferðarmeiri í hennar listrænu sköpun en áður. „Já, ég er svolítið mikið í því að semja fyrir ýmislegt og líka í samstarfi við aðra, er stundum að syngja á alls konar „soundtracks“ og kvikmyndatónlist,“ svarar hún.
Eivør segist hafa gaman af þessari tilbreytingu og segir hún oft lítið um orð í þessari listsköpun og meira af alls konar hljóðum. „Maður tjáir sig aðeins öðruvísi en þegar maður er að semja lög,“ segir hún.

Hér má hlusta á tónlistina í sjónvarpsþáttunum:


Syngur í God of War


–Ertu með einhver sjónvarps- eða kvikmyndaverkefni á prjónunum?
„Já, ég hef verið að vinna aðeins að tónlist við teiknimyndaþætti sem eru ekki komnir enn inn á Netflix og á hverju ári fer ég til Los Angeles og sem með alls konar fólki þar. En næstu tvö árin ætla ég að reyna að einbeita mér að nýju plötunni, það verður mikið túrað með henni.“
Hvað verkefnaval varðar segist Eivør reyna að taka að sér það sem henni þyki skemmtilegt. Til dæmis hafi hún komið að tónlistinni í tölvuleiknum God of War, sungið og trommað en tölvuleikir eru orðnir æ fyrirferðarmeiri miðill fyrir frumsamda tónlist. Eivør segir að það hafi einmitt komið henni á óvart. „Ég hef aldrei verið mikið í tölvuleikjum sjálf, eiginlega ekki neitt þannig að ég hafði ekki hugmynd um hvað þetta er stórt dæmi og vel gert. Þetta er bara eins og bíómynd,“ segir hún kímin.

Hér má sjá tónlistarkonuna vinna að tónlistinni við God of War:

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes