Egill spámaður og Villueyjar tilnefnd

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir og Lani Yamamoto sem tilnefnd eru fyrir íslands …
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir og Lani Yamamoto sem tilnefnd eru fyrir íslands hönd í ár.

Myndabókin Egill spámaður eftir Lani Yamamoto sem Angústúra gefur út og skáldsagan Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur sem Bókabeitan gefur út hafa verið tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020 fyrir Íslands hönd. Þetta var tilkynnt fyrr í dag. 

Yfirleitt er tilkynnt um tilnefningarnar á alþjóðlegu barna- og unglingabókasýningunni í Bologna en hætt var við hana í ár vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Á tímum einangrunar og sóttkvíar geta bókmenntirnar opnað dyr að nýjum ævintýrum og sögum,“ segir á vef Norðurlandaráðs, norden.org. 

Þar kemur fram að landsbundnar dómnefndir hafi tilnefnt samtals 14 verk til verðlaunanna í ár, en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins og verða verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Reykjavík 27. október í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 350 þúsund danskar krónur, sem samsvarar um 7,3 milljónum ísl. kr.

Frá Álandseyjum er tilnefnd skáldsagan Segraren eftir Karin Erlandsson.

Frá Danmörku eru tilnefndar myndabækurnar Ud af det blå eftir Rebeccu Bach-Lauritsen sem Anna Margrethe Kjærgaard myndlýsir og Min øjesten eftir Merete Pryds Helle sem Helle Vibeke Jensen myndlýsir.

Frá Finnlandi eru tilnefndar myndabækurnar Vi är Lajon! eftir Jens Mattsson sem Jenny Lucander myndlýsir og Sorsa Aaltonen ja lentämisen oireet eftir Veeru Salmi sem Matti Pikkujämsä myndlýsir.

Frá Færeyjum er tilnefnd myndabókin Loftar tú mær? eftir Rakel Helmsdal.

Frá Grænlandi er tilnefnd myndabókin Orpilissat nunarsuarmi kusanarnersaat eftir Juaaka Lyberth sem Maja-Lisa Kehlet myndlýsir.

Frá Noregi eru tilnefndar skáldsagan Draumar betyr ingenting eftir Ane Barmen og ljóðabókin Når er jeg gammel nok til å skyte faren min? eftir Åse Ombustvedt sem Marianne Gretteberg Engedal myndlýsir.

Frá samíska málsvæðinu er tilnefnd myndabókin Guovssu guovssahasat eftir Karen Anne Buljo sem Inga-Wiktoria Påve myndlýsir.

Frá Svíþjóð eru tilnefndar skáldsögurnar Hästpojkarna eftir Johan Ehn og Trettonde sommaren eftir Gabriellu Sköldenberg.

Einstaklega falleg og vel útfærð myndabók

Í umsögn íslensku dómnefndarinnar, sem í sitja Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Gísli Skúlason og Dagný Kristjánsdóttir, segir um Egil spámann: „Egill spámaður er hæglátur og innhverfur drengur sem er hræddur við að tjá sig því það kemur alltaf allt öfugt út úr honum og þá hlæja hin börnin að honum. Þess vegna er hann þögull og þess vegna kýs hann að vera einn. Egill sækist eftir reglufestu og gerir það sama dag eftir dag og alltaf í sömu röð. Helsta áhugamál hans er að fylgjast með sólarganginum og sjávarföllum og regluleg hrynjandi náttúrunnar veitir honum öryggiskennd. Hún er aldrei eins en lýtur alltaf sömu lögmálum.

Einn daginn brýst nýja stelpan í skólanum inn í rútínu Egils og brýtur upp reglufestuna. Þótt Agli finnist það erfitt kemst hann að því að það getur verið gaman að eiga vin og leika sér við aðra. Þekking Egils á sjávarföllunum kemur sér vel þegar óhapp verður í leik barnanna og á þannig sinn þátt í því að tengja þessi tvö börn sem þurfa bæði á vini að halda.

 Egill spámaður er einstaklega falleg og vel útfærð myndabók. Textinn er knappur og framvinda sögunnar fer að miklu leyti fram í myndunum sem hafa meira vægi í frásögninni án þess þó að segja of mikið. Litir og birta skipta miklu máli í myndunum eins og önnur hrynjandi náttúrunnar. Sagan er fámál, eins og aðalpersónan, en hún býr yfir heimspekilegri íhugun.

Orðið „spá“ á íslensku merkir að geta sagt fyrir um óorðna hluti og veðurspá þýðir að segja fyrir um veðrið framundan. Egill er „spámaður“ í þeim skilningi að hann kann reglurnar og afbrigðin en óttast hið óvænta sem hann þarfnast þó svo mjög. Stelpan brýst inn í einmanaleika hans og hann kennir henni reglufestuna og þannig bæta þau hvort annað upp.

Egill spámaður fjallar á sinn hljóðláta hátt um klassísk viðfangsefni sem flest börn geta tengt sig við og reynast mörgum erfið viðfangs, það er óöryggi og óttann við að verða að athlægi, þörf fyrir reglufestu og mikilvægi vináttu og félagsskapar. Lani Yamamoto skapar hér áhugaverða aðalpersónu með sérstakt áhugamál og náin tengsl við náttúruna sem leikur stórt hlutverk í sögunni.

Lani Yamamoto hefur búið á Íslandi í rúm tuttugu ár. Egill spámaður er hennar sjötta barnabók og var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2019 í flokki barna- og ungmennabóka og til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar. Bók hennar Stína stórasæng fékk Dimmalimmverðlaunin fyrir bestu myndskreyttu bókina og Fjöruverðlaunin, og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í flokki barna- og unglingabóka árið 2014. Bækur Lani hafa komið út víða um heim, meðal annars hjá Victoria & Albert safninu í London, og vakið verðskuldaða athygli. “

Mannkynssagan full af lygum og  glæpum

Í umsögn dómnefndar um Villueyjar segir: „Í ungmennabókinni Koparborgin (2015) sem gerist á 16. öld sagði Ragnhildur Hólmgeirsdóttir söguna af dauðamerktri borg sem plágur og spilling hafa nánast lagt í rústir. Von borgarinnar felst í börnunum en þau eru líka merkt átökunum sem átt hafa sér stað. Koparborgin var lögð fram til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2017. Villueyjar (2019) er sjálfstætt verk en gerist í sama sagnaheimi nokkrum öldum síðar. Villueyjar var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2020 og Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar.     

Villueyjar er fantasía sem segir frá Arildu, 14 ára stelpu í Norður-evrópska konungsdæminu Eylöndunum, og bróður hennar Maurice. Arilda er feimin en mjög tilfinningarík og greind stúlka. Systkinin eru munaðarlaus og búa hjá afa sínum á herragarði. Þau eru af bláfátækri aðalsætt. Á hverju hausti eru börnin send til eyjar þar sem aðeins eitt hús stendur, heimavistarskólinn þeirra. Af hverju er ekkert annað hús á eyjunni? Af hverju mega börnin ekki fara upp á heiðarnar og af hverju þagna allir þegar talað er um hina horfnu Koparborg? 

Uppi á heiðinni leynist einhver óhugnaður, eitthvað lifandi dautt og post-human, sem sækist eftir lífi Arildu og Maurice. Þegar afinn deyr kemur í ljós að systkinin eru eignalaus. Þegar hin illu öfl slasa Maurice og hann er lagður inn á sjúkrahús á Arilda engan kost annan en hverfa aftur til eyjarinnar. Hún er alein og peningalaus og getur engum treyst. Hún leggur á flótta.  

Saga Arildu er saga flóttabarna sem verða að berjast fyrir lífi sínu frá degi til dags. Allt öryggi er tímabundið. Eina skjólið sem Arildu býðst er meðal jaðarhóps þar sem hún eignast góða vini. En hópurinn reynist einnig glíma við eigin vandamál og líka vera á flótta.  

Arilda og Maurice eru börn sem hafa ekkert gert til að verðskulda ofsóknir og harðræði. Hættulegustu ofsækjendur þeirra eru lifandi dauðir, post-humans, fólk sem hatar of mikið til að geta sleppt hendi af heimi hinna lifandi. Hvað kom fyrir þau?  Börnin hafa sérstaka tengingu við það sem þau vita ekkert um og lenda í miðju átaka sem þau skilja ekki vegna þess að þögnin umlykur þann sögulega glæp, það þjóðarmorð sem ekki hefur verið gert upp heldur falið. Þegar Arilda skilur þetta ákveður hún að hætta að flýja og horfast í augu við hatrið.     

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir er sagnfræðingur að mennt og hefur verið mjög upptekin af því misrétti sem sagan þegir um. Mannkynssagan er full af lygum og  glæpum sem sigurvegararnir vilja ekki að sagt sé frá. Uppreisn gegn því getur aldrei endað á einn veg. “ 

Virðing borin fyrir lesandanum 

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta sinn árið 2013 að ósk norrænu menningarmálaráðherranna, sem höfðu um árabil viljað efla og vekja athygli á barna- og unglingabókmenntum á Norðurlöndum.

„Á Norðurlöndum njóta bæði börn og unglingar virðingar sem virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Það endurspeglast í norrænum barna- og unglingabókmenntum sem einkennast af virðingu fyrir lesandanum og heimsmynd hans, hvort sem viðfangsefnið er jarðbundin lýsing á hversdagsleikanum, tilvistarkreppa eða spennandi ævintýri í ókunnu umhverfi.

Markmið hinna fimm verðlauna Norðurlandaráðs er að auka áhuga á norrænu menningarsamfélagi og samstarfi um umhverfismál, svo og að vekja athygli á verkefnum sem skarað hafa fram úr á sviði lista eða umhverfismála,“ segir á vef Norðurlandaráðs. 

Skrifstofa hvorra tveggja bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs hefur verið til húsa í Norræna húsinu frá 2014. Náið samstarf skrifstofunnar við bókasafnið í Norræna húsinu skilar sér í því að allar tilnefndar bækur ársins eru aðgengilegar á frummálunum á bókasafninu í Norræna húsinu. Þar eru einnig aðgengilegar allar vinningsbækurnar frá upphafi. Bókasafnið í Norræna húsinu er lokað meðan samkomubannið er í gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes