Sigurjón ætlar að gera bíómynd eftir bók Ármanns

Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi.
Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson hefur tryggt sér réttinn á glæpasögunni Tíbrá eftir Ármann Jakobsson sem út kom hjá Veröld á dögunum. Tíbrá er þriðja glæpasaga Ármanns og hefur hún hlotið afar góðar viðtökur, setið á metsölulistanum í Eymundsson frá fyrsta degi og fékk fjórar stjörnur í Fréttablaðinu fyrir skemmstu.

Sigurjón Sighvatsson hefur framleitt yfir 40 bíómyndir og má þar nefna Wild at Heart, sem hlaut Gullpálmann í Cannes á sínum tíma, Basquiat og Brothers, auk sjónvarpsþátta á borð við Twin Peaks og Beverly Hills 90210. Þá framleiddi hann kvikmyndina Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir metsölubók Jonas Jonasson sem og mest sóttu íslensku myndina árið 2017, Ég man þig, eftir samnefndri bók Yrsu Sigurðardóttur.

Ármann Jakobsson.
Ármann Jakobsson. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Ármann Jakobsson er prófessor í íslenskum miðaldabókmenntum við Háskóla Íslands. Hann hefur áður sent frá sér glæpasögurnar Urðarkött og Útlagamorðin, auk skáldsagna, bóka fyrir börn og ungmenni og fræðirit.

Tíbrá fjallar um fjóra unga menn sem fara saman á veiðar og eru misjafnlega vanir skotvopnum. Hvað gæti farið úrskeiðis? Eina andvökunóttina sér níræð kona, sannkallað hörkutól, mann með derhúfu bogra yfir stóru röri í nágrenni íbúðar hennar í úthverfi Reykjavíkur. Þegar hún lítur þar við á göngu síðar sér hún lík í rörinu vafið inn í teppi. 

Hér fæst rannsóknarteymið geðþekka sem lesendur þekkja úr fyrri bókum Ármanns við afar sérstakt sakamál: nestorinn Bjarni, Kristín arftaki hans, hin formfasta Margrét Krabbe og fallegi kvennabósinn Njáll. 

Tíbrá er hörkuspennandi krimmi en líka skemmtisaga um glæp; hér er á ferðinni einstaklega fyndin og mannleg saga um breyskar manneskjur og þær sem örlögin hafa leikið grátt, en ekki síður forherta afbrotamenn. 

Tíbrá er þriðja glæpasaga Ármanns Jakobssonar en þær fyrri, Útlagamorðin og Urðarköttur, hafa hlotið frábæra dóma.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er hætt við að yfirmenn þínir, foreldrar eða nánir vinir mistúlki gerðir þínar í dag. Leyfðu því að hvíla um sinn meðan undirmeðvitundin glímir við það.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er hætt við að yfirmenn þínir, foreldrar eða nánir vinir mistúlki gerðir þínar í dag. Leyfðu því að hvíla um sinn meðan undirmeðvitundin glímir við það.