Ofurhetjur eru virkilega hvetjandi fyrir aðra

Úlfar Konráð Svansson, Dagur Lárusson og Fannar Georg Gilbertsson vinna nú hörðum höndum að útgáfu á teiknimyndasögu um íslenskar ofurhetjur. Hugmyndin kviknaði þegar Dagur og Úlfar sáu myndband á samfélagsmiðlum þar sem erlendir leikarar mættu í ofurhetjubúningum sínum á sjúkrahús að gleðja langveik börn. Út frá því varð hugmyndin um Landverðina til, ofurhetjur sem gera góðverk í raunverulega lífinu og bjarga Íslandi í skáldskapar lífinu.

Bókin mun koma út í nóvember er gefin út af Ljósmynd ehf. Bókin mun bera heitið „Landverðirnir: Atlas og Avion, fyrstir Landvarðanna“ en hún segir frá ofurhetjunum Atlasi og Avion sem eru báðir gæddir ofurkröftum og nota þá í baráttu sinni gegn hinum ógnvænlega Azar og fylgdarlið hans.

„Ég og Úlfar erum búnir að vera bestu vinir í mörg ár en við kynntumst í 3.bekk þegar Úlfar flutti í Hafnarfjörðinn úr Breiðholtinu. Í gegnum árin höfum við tveir tekið þátt í ýmsum frumkvöðla verkefnum sem gengu misvel. Við lærðum alltaf eitthvað af hverju verkefni fyrir sig og það sem við lærðum af síðasta verkefni sem við vorum í er mikilvægi þess að gera eitthvað sem þú elskar eða gera eitthvað sem tengist því sem þú elskar og brennur fyrir. Það var þá þar sem við fengum hugmyndina að íslenska ofurhetjuteyminu, Landvörðunum. Við byrjuðum að skrifa og vorum komnir vel á leið þegar við áttuðum okkur á því að við vildum að bókin yrði vel myndskreytt og þá hófum við leit að einhverjum sem tæki þannig verkefni að sér. Ég ákvað að fara í næstu bókabúð og skoða hvaða listamenn væru að myndskreyta bækur hér á landi og fyrsta nafnið sem ég sá var Fannar Georg Gilbertsson. Hann var þá nýbúinn að gefa út sína eigin myndasögu (Gen-01) sem hann skrifaði og myndskreytti sjálfur og mér þótti myndirnar svo rosalega flottar að ég ákvað að senda á hann línu og úr því varð fundur sem endaði með því að hann varð hluti af okkar litla Landvarðateymi sem var frábært því að okkar mati er hann hæfileikaríkasti teiknarinn á landinu. Við notuðum síðan einnig hans teikningar í það að fá sérhannaða búninga fyrir markaðssetningu en við höfum verið í þeim búningum á samfélagsmiðlum, aðallegaTikTok, síðan í apríl,“ segir Dagur. 

Hann segir að þeir hafi kannski ekki alltaf haft áhuga á ofurhetjum en segir að áhuginn hafi vaxið með árunum. 

„Ég man eftir augnablikinu sem lét mig fá gífurlegan áhuga á ofurhetjum en það var árið 2012 þegar ég fór á fyrstu Avengers myndina í bíó. Fyrir myndina hafði ég séð kannski 2-3 ofurhetjumyndir en þessi mynd var alveg frábrugðin hinum. Mér fannst svo flott hvernig þeir létu sex mismunandi ofurhetjur með mismunandi karaktera koma saman og mynda teymi og berjast saman gegn sameiginlegum óvin þannig eftir þá mynd var í rauninni ekki aftur snúið fyrir mig. Ég horfði á allar ofurhetjumyndir sem ég gat fundið eftir þetta og síðan þá hef ég alltaf beðið spenntur eftir nýrri ofurhetjumynd í bíó. En það má segja að hugmyndin um Landverðina hafi nokkurn vegin verið mótuð með þessa mynd frá árinu 2012 í huga því fyrstu bókin mun kynna til sögunnar þá Atlas og Avion, sem eru karakterarnir sem við höfum verið að kynna á samfélagsmiðlum, en í næstu bókum koma hin til sögunnar og mun söguþráðurinn ná í gegnum allar bækurnar sem við höfum í huga, rétt eins og í Avengers myndunum,“ segir hann. 

Hvað er það besta við ofurhetjur?

„Að okkar mati er það besta við ofurhetjur það að þær skapa heim sem maður getur gleymt sér í. Við höfum heyrt ótal sögur af mismunandi fólki sem hafði verið að glíma við erfiða hluti í sínu lífi en á þeim tíma hafi myndasögur um ofurhetjur hjálpað þeim mikið. En annars tel ég að ofurhetjur beri oft góðan boðskap með sér. Ef ég tek sem dæmi Köngulóarmanninn, hans einkunnarorð eru With great power, comes great responsibilty og það er eitthvað sem hver og einn ætti að muna í dagsdaglegu lífi. Ég tel einnig að ofurhetjur hafi þann eiginleika að þær eru virkilega hvetjandi fyrir aðra. Það er oftast þannig að ofurhetjur bera grímur til þess að fela andlit sitt og í mörgum tilvikum er ástæðan sú þær vilja að fólk haldi að það geti hver sem er verið bakvið grímuna, það getur hver sem er gert gott og skipt sköpum og það er eitthvað sem við reyndum að hafa í huga þegar við sköpuðum okkar ofurhetjur.“

Í byrjun teiknuðu þeir sjálfir myndirnar en svo kom Fannar til sögunnar og er hann höfundur myndanna í bókinni. 

„Fannar teiknar myndirnar í bókina og eru myndirnar alveg eins og við vildum hafa þær þegar við byrjuðum að leitast eftir teiknara. Við semsagt byrjuðum sjálfir að teikna karakterana þegar við vorum fyrst að byrja að skrifa bókina og vissum þá nokkurn veginn hvernig við vildum að þeir litu út. Eftir fyrsta fundinn með honum Fannari gáfum við honum smá verkefni sem var einfaldlega að senda á okkur hans teikningu af tveimur karakterum útfrá okkar teikningum og lýsingum. Það sem hann sendi til baka kom okkur algjörlega í opna skjöldu, þetta var alveg eins og við höfðum séð þetta fyrir okkur og betra en það og þess vegna vissum við strax að við værum búnir að finna rétta manninn. Hann er að leggja lokahönd á myndirnar þessa daganna en hann sýnir mikið frá ferlinu á Instagram reikningi sínum Icecomics og hann er búinn að pósta nokkrum af þeim myndum sem verða í bókinni.“

Er bókin tengd áhuga ykkar á tölvuleikjum?

„Svona já og nei. Eins og ég tók fram hér fyrir ofan þá byrjaði minn áhugi á ofurhetjum algjörlega útfrá kvikmyndum. En Úlfar hefur fengið sinn áhuga meira frá öllum áttum og til dæmis tölvuleikjum en hann hafði til dæmis mjög gaman að nýjasta tölvuleiknum um Köngulóamanninn. En hann Stefán Atli sem sér um markaðsmálin okkar er að þjálfa hjá rafíþróttadeild Fylkis og hefur verið að spila mikið af tölvuleikjum í gegnum árin og því má klárlega segja að hans áhugi á tölvuleikjum og ofurhetjum tengist á einhvern hátt.“

Fyrir hverja er bókin?

„Bókin er í rauninni bara fyrir alla sem hafa áhuga á ofurhetjum. Við vitum að það er mikið af krökkum á Íslandi sem að elska ofurhetjurnar úr Marvel heiminum eins og Iron Man og Captain America og því vitum við að þessi bók og heildar sagan um Landverðina mun höfða mjög vel til þeirra. En eins og ég segi, hún er fyrir alla, svolítið eins og myndirnar hjá Marvel, litli frændi minn og ég og vinir mínir höfum allir rosalega gaman að myndunum frá Marvel og þannig tel ég að Landverðirnir: Atlas og Avion, Fyrstir Landvarðanna muni höfða til allra sem hafa áhuga á ofurhetjum,“ segir Dagur og bætir við: 

„Fólk getur síðan fundið okkur á samfélagsmiðlum á borð við facebook, Instagram og TikTok en þar eru notendanöfnin okkar landverdirofficial. Við munum koma til með að sýna mikið frá útgáfuferlinu en við stefnum á það að bókin komi út um miðjan nóvember þannig þangað til verður mikið af skemmtilegu efni á þessum miðlum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes