RIFF heima í október

Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF.
Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, lauk á sunnudag, 4. október, og var að þessu sinni hægt að leigja valdar myndir hátíðarinnar á vef RIFF sem nefndist RIFF heima, auk þess að sækja sýningar í Norræna húsinu og Bíó Paradís. Áfram verður hægt að leigja valdar myndir á RIFF heima nú í október. 

Myndirnar á leigu verða í þremur flokkum. Sá fyrsti nefnist Ísland og Evrópsku kvikmyndaverðlaunin í gegnum tíðina og myndirnar í honum verður hægt að leigja og horfa á dagana 5.-11. október. Innsýn í huga listamanns nefnist annar flokkur og hægt að leigja úr honum frá 12. október og horfa á dagana 15.-18. október. Þriðji flokkurinn er  Miðnæturhryllingur sem hægt verður að leigja frá 19. október og horfa á dagana 22.-25. október. Meðal mynda til leigu má nefna Djúpið í leikstjórn Baltasar Kormáks, Hvítur, hvítur dagur í leikstjórn Hlyns Pálmasonar, heimildarmynd um arkitektinn Alvar Aalto og heimildarmynd um kvikmyndagerðarmanninn Stanley Kubrick auk áhugaverðra hryllingsmynda. m.a. frá Rússlandi og Kóreu.

Bíóbíll sló í gegn

„Það er áskorun að halda kvikmyndahátíð á tímum sem nú en við ætluðum aldrei að leggja árar í bát og fórum nýstárlegar leiðir til að færa áhorfendum frábæra dagskrá. Með RIFF heima og Bíóbíl RIFF færðum við kvikmyndaunnendum um land allt myndirnar okkar og erum stolt af því. Bíóbíll RIFF sló í gegn en hann fór hringinn um landið, heimsótti skóla og hélt bílabíó á kvöldin. Við áttum í góðu samstarfi við forsvarsmenn menningarmála á þeim stöðum sem heimsóttir voru og þegar hefur verið óskað eftir bílnum aftur á næsta ári. Á sýningarstöðum seldum við færri miða en ella á hverja sýningu og takmörkuðum gestafjölda. Heilt yfir var aðsóknin á hátíðina góð og uppselt á sýningar á stærstu myndum hátíðarinnar eins og Nomadland og Druk. Sama er að segja um sérviðburði og Bransadagar á netinu og á staðnum gengu vonum framar. Við erum sérstaklega þakklát fyrir þær frábæru móttökur sem hátíðin hlaut í ár,“ er haft eftir Hrönn Marinósdóttur, stjórnanda RIFF, í tilkynningu.

Evrópskar myndir í aðalhlutverki

Bílabíó á Granda, eitt stærsta bílabíó sem haldið hefur verið hérlendis, var önnur nýjung sem vakti mikla lukku. Sýndar voru fjórar myndir á jafnmörgum dögum og var uppselt öll kvöldin. Hið sama er að segja um Gestaboð Babette bíó og matur sem haldið var í Norræna húsinu og sýningu á heimildarmynd um Alvar Aalto með leiðsögn um Norræna húsið á eftir

Gæðamyndir frá Evrópu voru í aðalhlutverki í ár og nærri 80% mynda frá Evrópulöndum en alls voru þær 110 myndir sem sýndar voru frá 47 löndum. Þá voru 55% leikstjóra konur í ár og er það í fyrsta sinn sem kvenkyns leikstjórar eru í meirihluta.

Það var myndin Þetta er ekki jarðarför, þetta er upprisa / This is Not a Burial, It’s a Resur-rection sem hlaut Gyllta lundann, aðalverðlaun hátíðarinnar í ár. Myndin var hluti af keppn-isflokknum Vitranir/New Visions þar sem átta myndir kepptu um verðlaunin. Myndin er í leikstjórn Lemohangs Jeremiahs Moseses, handritshöfundar, leikstjóra og listamanns frá Lesótó. Hún hlaut sérstök dómnefndarverðlaun á Sundance-kvikmyndahátíðinni. Heiðursumæli í sama flokki hlaut myndin Einmanaklettur / Piedra Sola í leikstjórn Alejandro Telémaco Tarraf.

Kúgunarsöngvar / Songs Of Repression í leikstjórn Estephan Wagner, Marianne Hougen-Moraga var valin besta myndin í flokknum Önnur framtíð. Heiðursummæli dómnefndar hlaut myndin Jörðin er blá eins og appelsína / The Earth Is Blue As An Orange í leikstjórn Irynu Tsilyk.

Átjánda RIFF-hátíðin stóð yfir frá 23. september til 5. október árið 2021.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Mikilvægar ákvarðanir bíða þín í starfi. Verkefni sem krefjast einbeitingar og úthalds liggja vel fyrir þér.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Mikilvægar ákvarðanir bíða þín í starfi. Verkefni sem krefjast einbeitingar og úthalds liggja vel fyrir þér.