Lífseigur sjónvarpskarakter

Frasier Crane ásamt genginu sínu meðan leikurinn stóð sem hæst …
Frasier Crane ásamt genginu sínu meðan leikurinn stóð sem hæst á tíunda áratugnum. NBC

Staðfest var á dögunum að hinir feikivinsælu gamanþættir Frasier komi til með að snúa aftur á skjáinn innan tíðar. Kelsey Grammer verður sem fyrr í titilhlutverkinu en fátt annað liggur fyrir.

„Eftir að hafa varið tuttugu árum af mínu skapandi lífi hjá Paramount, bæði við að leika í og framleiða sjónvarpsþætti, langar mig að bjóða Paramount+ velkomið inn í heim streymisins. Ég get ekki beðið eftir að deila með ykkur næsta kaflanum í áframhaldandi vegferð dr. Frasiers Cranes.“

Þannig komst bandaríski leikarinn og framleiðandinn Kelsey Grammer að orði á dögunum þegar upplýst var að þráðurinn yrði tekinn upp í hinum geysivinsælu gamanþáttum Frasier. Það er líklega tímanna tákn að nýju þættirnir verða sýndir á streymisveitunni Paramount+ en ekki hinni gamalgrónu sjónvarpsstöð NBC, eins og upprunalegu seríurnar ellefu sem gerðar voru frá 1993 til 2004.

Ekki verður sagt að tilkynningin hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti en Grammer hefur unnið leynt og ljóst að því á allra seinustu árum að endurvekja Frasier. Eins hafa leikkonurnar Jane Leeves og Peri Gilpin lýst áhuga sínum á því að snúa aftur en þær léku aðalkvenpersónurnar, Daphne og Roz.

Kelsey Grammer og David Hyde Pierce með Emmy-verðlaunin fyrir leik …
Kelsey Grammer og David Hyde Pierce með Emmy-verðlaunin fyrir leik sinn í Frasier. AFP


Ekkert liggur þó fyrir á þessari stundu um það hvort þær snúi aftur né heldur David Hyde Pierce, sem lék Niles, yngri bróður Frasiers. Heimildir herma þó að haft hafi verið samband við hann. Einn úr upprunalega teyminu mætir þó örugglega ekki aftur en John Mahoney, sem lék Marty, föður Frasiers, lést árið 2018. Ólíklegt verður að teljast að nýr leikari verði ráðinn í hans stað. Hundurinn Eddie er einnig horfinn til feðra sinna.

Ekki hefur verið staðfest hvenær Frasier mun birtast aftur á skjánum en það verður væntanlega ekki fyrr en á næsta ári enda er Grammer upptekinn um þessar mundir við að leika í nýjum gamanþáttum úr smiðju Chris Lloyds og Vali Chandrasekarans sem gerðu Modern Family. Þeir hafa enn ekki hlotið nafn en meðal annarra leikara má nefna Alec Baldwin.

Leysti vanda hlustenda

Varla þarf að kynna Frasier fyrir þeim sem þetta lesa en sálfræðingurinn knái stýrði vinsælum útvarpsþætti í Seattle, þegar við skildum við hann, þar sem okkar maður spjallaði við hlustendur og leysti vanda þeirra. Hann bjó lengst af með föður sínum og breskum sjúkraþjálfara hans, Daphne Moon. Bróðirinn Niles, sem einnig er sálfræðingur, var eins og grár köttur á heimilinu og herti sig loksins upp og játaði ást sína á Daphne eftir áralanga aðdáun í laumi. Faðir þeirra, alþýðumaðurinn Marty, fylgdist sposkur með klaufalegri framgöngu hinna snobbuðu og listhneigðu sona sinna sem kippti svona hressilega í móðurkynið. Hann lét þó bröltið í þeim og eftir atvikum bullið í léttu rúmi liggja enda vissi hann sem var að drengirnir hans væru þegar á reyndi réttsýnir og með hjarta úr gulli. Roz Doyle var svo útsendingastjórinn og nánasti samstarfsmaður Frasiers í útvarpinu.

Frasier kom fyrst fram í Staupasteini 1984.
Frasier kom fyrst fram í Staupasteini 1984. NBC


Átján ár eru langur tími og spennandi verður að sjá hver staðan verður á Frasier og hans nánasta föruneyti en kappinn ætti að vera kominn á sjötugsaldurinn. Er hann ennþá einn? Eru Niles og Daphne ennþá hjón? Hvernig leggur Frasier út af væringunum í bandarísku þjóðfélagi og valdatíð Donalds Trumps? Og hvað finnst honum um Barack Obama, ef út í það er farið, hann var ekki tekinn við embætti forseta þegar Frasier hvarf af sjónarsviðinu. Slapp kappinn við kórónuveiruna? Já, margs er að spyrja.

Nánar er fjallað um Frasier í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en karakterinn kom fyrst fram í öðrum gamanþætti Staupasteini árið 1984. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert uppfullur af hugmyndum og fleiri streyma að þér úr öllum áttum. Forðastu margmenni og settu mörk í félagslífinu.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert uppfullur af hugmyndum og fleiri streyma að þér úr öllum áttum. Forðastu margmenni og settu mörk í félagslífinu.