„Heimsfaraldurshýjungurinn fékk falleinkunn“

Ljósmynd/Magnús Andersen

„Samskipti eru það fallegasta og hræðilegasta í heimi,“ segir rithöfundurinn Einar Lövdahl sem sendi nýlega frá sér sitt fyrsta skáldverk, smásagnasafnið Í miðju mannhafi. Bókin er gefin út hjá Forlaginu og kom útgáfan þannig til að Einar var annar tveggja höfunda sem báru sigur úr býtum í handritasamkeppni Forlagsins, Nýjar raddir.

Blaðamaður spjallaði við þennan unga og efnilega rithöfund á dögunum. Spurður hvert hann sækir innblástur svarar hann:

„Ég sæki innblástur í samskipti fólks, hvernig við tölum saman, hvernig við tölum ekki saman og hvernig við tölum um okkur sjálf. Þegar ég fór að pæla í þessu með tilliti til skrifa spruttu fram persónur sem eru allar að kljást við einhvers konar tómleikatilfinningu í íslenskum hversdagsleika. Ég reyni síðan að nálgast þetta efni af hlýju og hafa dálítinn húmor fyrir tilverunni.“

Sögur bókarinnar fjalla margar hverjar um karlmennsku en teygja anga sína þó í ýmsar áttir, allt frá MSN-nostalgíu og óbærilegu stefnumóti yfir í ungan mann sem sækir sér óhefðbundna skeggvaxtarmeðferð í bílskúr í Kópavogi. Einar ítrekar að allar sögurnar séu skáldskapur þótt síðastnefnda atriðið sé að vissu leyti innblásið af eigin reynslu.

„Ég hef ekki enn endað í bílskúr í Kópavogi en ég hef hins vegar velt mér upp úr eigin skeggleysi í gegnum tíðina. Mér hefur ekki alltaf þótt auðvelt að vera með slappa skeggrót á tímum þar sem alskegg er í tísku og vinir manns hafa verið að fá skeggolíu í afmælis- og jólagjöf. Þess má geta að á ritunartíma bókarinnar, í upphafi faraldursins, gerði ég hálfgerða lokatilraun hvað skeggvöxtinn varðar. Til að gera langa sögu stutta fékk heimsfaraldurshýjungurinn svokallaði falleinkunn. Ég held að þetta sé fullreynt.“

Ljósmynd/Aðsend

Semur lagatexta fyrir vinsælasta tónlistarfólk þjóðarinnar

Í miðju mannhafi er önnur bók Einars en hann skrásetti sögu Arons Einars Gunnarssonar, fyrirliða karlalandsliðsins í knattspyrnu, sem kom út 2018. Þá hefur hann einnig látið að sér kveða sem tónlistarmaður og textahöfundur og samdi til að mynda textann við nýjasta lag Helga Björns, Ekki ýkja flókið, sem og Ef ástin er hrein, eitt vinsælasta lag landsins það sem af er ári. Síðarnefnda textann samdi hann með Jóni Jónssyni sem flytur lagið ásamt GDRN. Textinn var nýlega valinn texti ársins á Sögum, verðlaunahátíð barnanna.

Ljósmynd/Þorleifur Gunnar Gíslason

„Þar komum við aftur að samskiptum fólks, textinn fjallar um mikilvægi þess að tjá sig opinskátt í ástarsambandi en ekki síður hversu mikilvægt það er að hlusta. Þannig má svo oft fyrirbyggja óþægindi, óvissu og áhyggjur. Það gildir auðvitað eins um sambönd vina, fjölskyldumeðlima og hvaðeina. Þetta er atriði sem segir sig kannski sjálft en verður svo auðveldlega undir í amstri dagsins.“

Eins og að ganga nakinn út í sundlaug

Að sögn Einars hafa viðtökur við bókinni verið vonum framar en til marks um það fór hún í endurprentun í síðustu viku sem hann segir fela í sér mikla hvatningu. „Ég hef skrifað lúmskt lengi, var til dæmis virkur bloggari á unglingsárum, en það er eitthvað öðruvísi við að gefa út skáldskap á prenti í fyrsta sinn og láta glitta í nýja hlið á sér. Þegar ég sest niður til að skrifa ratar stundum eitthvað á blað sem kemur jafnvel sjálfum mér á óvart og að deila því með öðrum er ákveðin berskjöldun. Mér líður smá eins og ég hafi gengið út í sundlaug án skýlu.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes