Nýr kafli í lífi Arons Can

Aron Can er að gefa út nýja plötu í dag.
Aron Can er að gefa út nýja plötu í dag. Ljósmynd/Anna Maggý

Nýja plata Arons Can – Andi, líf, hjarta og sál hefur verið rúm tvö ár í vinnslu og er fjórða platan hans. Hún kemur út í dag og má á plötunni finna lög sem hafa nú þegar orðið vinsæl. Eins og lagið Flýg upp sem fjallar um staðinn sem maður fer á með ástinni sinni. Sem og uppáhaldslagið hans, Blindar götur. Óvænt lag um lífið eins og það er stundum. 

„Blindar götur er lag sem varð óvænt til í hljóðverinu þegar ég og Þormóður Eiríksson sátum þar saman og ákváðum að kafa aðeins dýpra innra með okkur til að finna tónana. Við fórum af stað með því að gera bara eitthvað. Vorum alls ekki skipulagðir en síðan fæddist þetta lag eiginlega úr eins konar vonleysi. Boðskapur lagsins er bara lífið eins og það er stundum. Maður heldur alltaf áfram og veit ekkert alltaf hvert maður er að fara og mætir síðan stundum inn í blindar götur.“

Hvað er annars að frétta af þér?

„Bara allt það besta. Ég er á skemmtilegum stað þar sem ég hef nýlokið náminu mínu og var að klára plötuna mína sem ég hef gefið mér góðan tíma í. Ég hef verið minna að spila út af kórónuveirunni og haft þá meira listrænt svigrúm til að skapa tónlist og fara aðeins meira á dýptina. Ég hef verið að leyfa mér að vera ég og finna hvað mig langar að gera í stað þess að þurfa að vera að drífa mig að gera lög fyrir einhver gigg eins og maður lendir stundum í. Þannig að ég er búinn að vera að upplifa meira frelsi og hef verið að lifa lífinu eins og ég vil gera.“

Nú ertu 21 árs að aldri og mjög vinsæll á Íslandi. Hvernig er það?

„Það er bara geggjað. Ég hef bara gaman að því að gera tónlist og er mjög heppinn með það hversu vel mér er tekið hér. Að sjálfsögðu langar mig að halda áfram út í heim. Taka þessi næstu skref út í Skandinavíu. En akkúrat núna er ég að kunna að meta það að vera búinn að klára skólann og geta fókuserað alveg á það að vera tónlistarmaður. Ég er spenntur fyrir sumrinu og náinni framtíð og ætla bara að leyfa mér að kafa aðeins dýpra ofan í þennan stað.“

Hver er grunnurinn að góðu lífi? 

„Lykillinn að góðu lífi fyrir mig er að vera umkringdur góðu fólki og að eyða tíma með fjölskyldunni. Síðan hreyfi ég mig mikið og borða vel. Það skiptir máli að hugsa vel um sig og vera til staðar fyrir aðra líka. Að umkringja sig með góðu fólki er mikilvægt og að raða og flokka þegar kemur að lífsstílnum. Það eru margir sem telja að rapp-lífsstíllinn fari ekki vel með því að hreyfa sig og hugsa um sig. Það er rangt. Ég gæti aldrei verið svona lengi í hljóðverinu ef ég væri ekki að hreyfa mig og borða vel svo dæmi séu tekin. Að sofa vel er líka lykilatriði.“

Hvað ætlarðu að gera í sumar?

„Ég ætla að gera meiri tónlist. Spila á tónleikum og að ferðast bæði innanlands sem og utan landsteinanna. Ég er ekki búinn að ákveða dagsetningu á útgáfutónleikunum en þeir verða í sumar og ekki langt í að ég tilkynni um það.“

Hvað með áhrifin frá Tyrklandi á plötunni þinni? 

„Pabbi er frá Tyrklandi og förum við þangað reglulega. Ég á góðar minningar þaðan sem barn en mamma kynntist pabba þegar hún var sautján ára og fór í skiptinám til Tyrklands. Pabbi vann í plötubúð á Laugaveginum í Istanbúl og eldri systir mín bjó með þeim í Tyrklandi í þrjú ár.

Foreldrar mínir eru mikið tónlistarfólk og segja margir að það séu tyrknesk áhrif á nýju plötunni. Ég kann að meta það enda er ég mjög hrifinn af Tyrklandi þótt ég verði að segja að það er ekkert land eins og Ísland. Að fá að alast hérna upp svona frjáls, það eru mikil gæði sem erfitt er að finna annars staðar í heiminum.“

Aron segir mikilvægt að hafa gott fólk í kringum sig.
Aron segir mikilvægt að hafa gott fólk í kringum sig. Ljósmynd/Anna Maggý
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vertu óhrædd/ur við að kanna hluti og draga síðan af þeim lærdóm sem þú getur nýtt þér til framtíðar. Ekkert er eins vont og óvissan.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vertu óhrædd/ur við að kanna hluti og draga síðan af þeim lærdóm sem þú getur nýtt þér til framtíðar. Ekkert er eins vont og óvissan.