Á ystu nöf Íslands

Bergsveinn áritar nýútkomna skáldsögu sína í útgáfuteitinni í gær sem …
Bergsveinn áritar nýútkomna skáldsögu sína í útgáfuteitinni í gær sem var vel sótt og góður rómur gerður að máli rithöfundarins er hann kynnti verk sitt og ræddi um hin órjúfanlegu tengsl norrænna bókmennta. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og doktor í norrænum fræðum við Háskólann í Bergen í Noregi, kynnti síðdegis í gær í móttöku í sendiherrabústaðnum á Bygdøy í Ósló skáldsögu sína Kolbeinsey sem kom samtímis út á norsku og íslensku, en Bergsveinn ritaði jöfnum höndum norska og íslenska útgáfu sögunnar án þess að þýðendur kæmu þar að.

Kvaddi skáldið sér hljóðs og gerði grein fyrir söguþræðinum sem það kvað færa lesendur út á ystu nöf Íslands, Kolbeinsey, en sagan segir af tveimur vinum sem strjúka af geðdeild eftir að hafa rænt þaðan hjúkrunarkonu sem gerði þeim lífið þyngra. Eftir því sem þeir félagar færast fjær siðmenningunni verða spurningarnar áleitnari, áskoranirnar ískyggilegri og hjúkrunarkonan háskalegri uns engum er ljóst hver hin raunverulega bráð er.

Bergsveinn flytur ávarp sitt þar sem hann sló á létta …
Bergsveinn flytur ávarp sitt þar sem hann sló á létta strengi í kjölfar fróðlegs erindis svo sem honum er tamt, bað fólk bara að spyrja ef það vildi vita eitthvað og sagði svo einfaldlega „Eigum við ekki bara að fá okkur að borða?“ en Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra bauð til veglegrar móttöku og bókmenntakynningar í Ósló í gær. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Skemmst er að minnast samtals Bergsveins við mbl.is í maí er hann hlaut hin virtu norsku bókmenntaverðlaun Bokhandelens sakprosapris á Norsku bókmenntahátíðinni í Lillehammer, Norsk litteraturfestival, stærstu bókmenntahátíð Skandinavíu, sem einnig er kennd við hina kunnu norsku skáldkonu Sigrid Undset, Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum árið 1928, en verðlaunin hlaut Bergsveinn fyrir bók sína Maðurinn frá miðöldum, eða Mannen fra middelalderen, sem fjallar um fyrsta sagnaritara Noregs sögu, Íslendinginn og handritasafnarann Þormóð Torfason, sem Bergsveinn telur hafa fallið óverðskuldað í gleymskunnar dá.

Rithöfundurinn sló á létta strengi í ávarpi sínu í sendiherrabústaðnum í Ósló í gær í veislu Ingibjargar Davíðsdóttur sendiherra og norska bókaútgefandans Vigmostad & Bjørke. Þakkaði Bergsveinn þar lesendum sínum áhugann og ræddi um hin sterku tengsl bókmenntaþjóðanna Íslands og Noregs auk þess að gera stuttlega grein fyrir söguþræði Kolbeinseyjar. Klykkti Bergsveinn út af alkunnri kímni sinni með því að hann ætlaði sér ekki að drepa viðstadda úr leiðindum og fólk yrði bara að spyrja þyrsti það í frekari fróðleik. „Eigum við ekki bara að fá okkur að borða?“ spurði Bergsveinn að lokum og varði næstu tveimur klukkustundum í að árita bók sína fyrir viðstadda og svara spurningum þeirra svo líklega dó enginn úr leiðindum í Ósló í gær.

Ítarlegs viðtals Kristínar Heiðu Kristinsdóttur, blaðamanns á Morgunblaðinu, við Bergsvein er vænst á næstunni þar sem hann ræðir nýútkomna sögu sína, skáldskapinn og lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson