Mun Charlene prinsessa búa í höllinni?

Charlene prinsessa sneri aftur heim til Mónakó eftir tíu mánuði …
Charlene prinsessa sneri aftur heim til Mónakó eftir tíu mánuði í Suður-Afríku. Þar var hún að glíma við erfið veikindi. AFP

Mörgum þykir líklegt að Charlene prinsessa muni ekki búa í höllinni með Alberti fursta af Mónakó. Mágkona hennar Chantell Wittstock segir að ef til vill komi Charlene til með að búa í íbúð sinni skammt frá höllinni. Þar dvaldi hún áður en hún fór til Suður-Afríku og vakti það undrun margra á sínum tíma. Þeir sem búa nálægt höllinni hafa einnig staðfest að áður en hún fór hafi hún varið sífellt meiri tíma ein í íbúðinni sinni frekar en í höllinni.

Þá þykir einnig ólíklegt að hún muni hefja opinber störf strax og sagt er að hún þurfi að jafna sig betur á veikindunum sem hún hefur barist við undanfarna mánuði.

„Það er óljóst í augnablikinu. Hún mun eflaust flakka á milli staða eftir því hvar henni líður best hverju sinni,“ sagði Wittstock við Mailonline.com 

„Hún er nýkomin heim og fólk er enn að átta sig á stöðunni. Prinsessan er mjög spennt að verja tíma með börnunum og börnin eru ánægð að fá hana heim. Við sjáum til hvar hún sest að en hún verður með börnunum og eiginmanni sínum.“

Aðspurð hvenær prinsessan snúi aftur til starfa segir hún það óljóst. „Þetta gerist ekki á einni nóttu. Hún þarf að taka því rólega. Nú er hennar helsta verkefni að verja tíma með börnunum.“

Wittstock vill þó ekki ræða um stöðu hjónabands hennar. „Það er ekki mitt að segja. Það eina sem ég get sagt er að hún er snúin aftur til Mónakó og er með börnum sínum og eiginmanni.“

Fyrsta myndin af fjölskyldunni saman eftir að Charlene sneri aftur …
Fyrsta myndin af fjölskyldunni saman eftir að Charlene sneri aftur frá Suður-Afríku. Mörgum þóttu hjónin afkáraleg á myndinni. Skjáskot/Instagram

Myndir sem vöktu fleiri spurningar en svör

Charlene prinsessa sneri aftur til Mónakó á mánudag síðastliðinn. Þá hafði hún verið í Suður-Afríku í tíu mánuði. Birtar voru myndir af sameinaðri fjölskyldunni og var myndunum misjafnlega tekið. Margir drógu í efa einlægnina sem myndirnar áttu að sýna en myndirnar tók ljósmyndari á vegum hallarinnar. Þrálátur orðrómur hefur verið uppi um að hjónaband þeirra sé dauðadæmt og hafi verið frá fyrstu stundu.

Sérfræðingar í líkamstjáningu tóku eftir því að á myndunum var Charlene mikið í mun að sýna ást sína á Alberti prins. Hann virtist þó ekki svara í sömu mynt. „Hún virðist ganga of langt í að reyna að sanna eitthvað fyrir heiminum. Hún leggur mun meira á sig en eiginmaður hennar. Ef eitthvað þá virðist þetta merki um mikið óöryggi,“ segir sérfræðingur við Daily Mail.

Á þriðjudag voru fyrirsagnir franskra fjölmiðla á þessa leið: 

„Albert og Charlene saman á ný: en nákvæmlega hvar munu þau sofa?“ 

„Charlene er snúin aftur: rýfur þögnina en gleymir að minnast á eiginmann sinn.“

En seinni fyrirsögnin var vísun í myndband hennar á Instagram þar sem hún þakkaði öllum fyrir hjálpina síðustu mánuði en gleymdi að minnast á eiginmanninn.

Sagnfræðingurinn Pilippe Delorme tók undir þessar getgátur í viðtali við Madame Figaro. „Margir fengu það á tilfinninguna að hjónaband þeirra væri skipulagt. Það er satt. Albert valdi eiginkonu sem líktist móður hans Grace Kelly og Charlene þótti þessi samanburður afar óþægilegur og var ekki ánægð með hlutverkið sem hún átti að leika. Líkt og Karl Marx sagði: „Sagan endurtekur sig, fyrst sem harmsaga og síðan sem farsi.““

Margir telja að Charlene sé afar óhamingjusöm í hjónabandi sínu …
Margir telja að Charlene sé afar óhamingjusöm í hjónabandi sínu en stutt er síðan þriðja ástarbarn Alberts skaut upp kollinum en það á að hafa verið getið meðan Charlene og Albert voru byrjuð saman. AFP
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú fylgir sannfæringu þinni þessa dagana og uppskerð ríkulega. Einbeittu þér að því sem þú ert best/ur í, skipulagi.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú fylgir sannfæringu þinni þessa dagana og uppskerð ríkulega. Einbeittu þér að því sem þú ert best/ur í, skipulagi.