„Ég vildi ekki gefast upp“

„Ég elska að fá feedback eða endurgjöf frá fólki og góð ráð. Ég gerði mikið af því þegar ég var að skrifa handritið að fá fólk sem ég treysti til að lesa yfir. Ég fékk líka erlenda handritaráðgjafa til að lesa og leiðbeina mér, vegna þess að þú veist ekki alltaf best sjálfur. Það reyndist mér alveg gríðarlega góður skóli,“ segir Tinna Hrafnsdóttir kvikmyndaleikstjóri sem á lokametrum framleiðslu sinnar fyrstu kvikmyndar, Skjálfta, ákvað að stytta hana um heilar sex mínútur. 

Gott að koma aftur að verkefnum

Kvikmyndin var því sem næst tilbúin í haust, en vegna heimsfaraldursins frestaðist frumsýningin nokkuð. „Af því að þessi blessaða frumsýning frestaðist út af Covid sýndi ég hópi fólks myndina þegar hún var alveg tilbúin og fékk ábendingar um að það gæti verið myndinni til bóta að stytta hana um nokkrar mínútur. Þegar ég ákvað að horfa á myndina með þessu fólki hafði ég ekki séð hana í nokkrar vikur og þá sá ég það, jafnvel áður en ég fékk þessar ábendingar, hvar nauðsynlegt væri að þétta.

Það er oft að fara frá verkefnunum þínum í smá tíma og koma að þeim aftur til að sjá hlutina í fersku ljósi. Ég var því sammála þessum ábendingum og stytti myndina í framhaldinu um heilar sex mínútur, sem er alveg töluvert á þessu stigi, en sé ekki eftir því. Vegna þess að það er svo ofboðslega mikilvægt að andadráttur myndarinnar og flæðið sé rétt. Það verður að hvíla á réttum stöðum, en það verður líka að keyra söguna áfram á réttum stöðum. Það eru svo margir þættir sem þurfa að smella til þess að heildarmyndin gangi upp. Flæðið, klippið, tónlistin og hljóðið verður allt að anda sem ein heild til þess að þetta geti orðið að samstilltu verki.“

Erfitt en lærdómsríkt að upplifa höfnun

Tinna útskrifaðist sem leikkona fyrir tuttugu árum og hefur verið ötul að skapa sér sín eigin tækifæri innan leikhússins, en hefur hægt og rólega verið að færast úr leikhúsinu yfir í kvikmyndageirann. „Ef ég hefði farið inn í leikhúsið og endað með að vinna þar í mörg ár líkt og amma mín gerði þá hefði ég líklegast ekki farið þessa leið,“ segir Tinna og vísar þar til Herdísar Þorvaldsdóttur sem starfaði sem leikkona við Þjóðleikhúsið áratugum saman. 

„Ég trúi því að lífið leiði þig á rétta staði. Ég vil ekki loka neinum dyrum. Kannski á ég eftir að standa á sviði einhvers leikhúss í framtíðinni. En ég er ofboðslega þakklát og glöð með þann stað þar sem ég er í dag og hefði ekki viljað að neitt hefði farið öðruvísi. Það er mögnuð tilfinning, vegna þess að oft á tíðum var ofboðslega erfitt að upplifa höfnun, eins og allir leikarar upplifa. Það er erfitt á þeim tíma, en í mínu tilfelli styrkti það mig og ég fann mínar leiðir. Ég er í dag að frumsýna mína fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Ég hefði ekki viljað hafa þetta neitt öðruvísi,“ segir Tinna og rifjar upp að það hafi líka breytt sér mikið að verða móðir fyrir nokkrum árum. 

Treysti á sjálfa mig

„Stundum er liðin bein og breið og stundum eru ákveðnar áskoranir sem þú þarft að takast á við. Ég lærði með þessu að finna og átta mig á því hver ég væri sem listamaður og manneskja. Á tímabili áður en ég varð móðir var ég mjög óörugg og efaðist mikið um sjálfa mig, var lítil í mér og hrædd. Það var næstum eins og lífið væri að sýna mér að leið mín inn í listageirann væri ekki einföld og auðveld heldur velti á sjálfri mér. Ég vildi aldrei gefast upp. Það er enginn sem getur sagt þér hvort þú ert listamaður eða ekki. Ég vissi að ég væri listamaður því mig langar að segja sögur og ef einhver annar er ekki að veita mér tækifæri til þess þá skapa ég mér þau tækifæri sjálf. Með því að þurfa að treysta á sjálfa mig þá öðlaðist ég ákveðið sjálfstraust og hætti að vera upptekin af viðtökum annarra,“ segir Tinna og áréttar mikilvægi þess að fólk láti ekki aðra segja hvað þeir geta og hvað ekki. 

„Ef þú brennur fyrir hlutunum þá er alltaf leið. Þegar til kastanna kemur veltur þetta svo mikið á sjálfum þér. Sá sem raunverulega stoppar mann af er yfirleitt maður sjálfur og okkar eigin efasemdir.“

Benjamín Árni Daðason og Aníta Briem í hlutverkum sínum sem …
Benjamín Árni Daðason og Aníta Briem í hlutverkum sínum sem mæðginin Ívar og Saga í kvikmyndinni Skjálfti í leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur. Ljósmynd/ Lilja Jónsdóttir

Birtan í mesta svartnættinu

Tinna segir það hafa verið stærstur sigur lífs síns að verpa móðir, en hún háði ásamt Sveini Geirssyni, baráttu við ófrjósemi í fimm ár áður en þau eignaðust tvíbura fyrir nokkrum árum. 

„Fyrir mér var ekkert mikilvægari í lífinu en að verða móðir. Við reyndum í fimm ár og ég stóð frammi fyrir því að geta mögulega aldrei orðið móðir, sem hefði sett lífið í eitthvert mjög einkennilegt samhengi fyrir mig. Vegna þess að ég elska þetta hlutverk og er alltaf að knúsa strákana mína,“ segir Tinna og tekur fram að þrautsegjan í þeirri baráttu að verða móðir nýtist sér einnig vel þegar kemur að kvikmyndagerð þar sem meðgöngutími mynda er talin í árum en ekki mánuðum.

„Þetta kostar gríðarlega þolinmæði, blóð, svita og tár. Ef maður gefst ekki upp og hefur þrjóskuna þá tekst þetta yfirleitt á endanum. Oft verður svartnættið að einhverri stórkostlegri birtu. Ég hélt að ég myndi aldrei segja það, en það liggur við að ég sé gríðarlega þakklát fyrir að hafa þurft að berjast við þessa ófrjósemi á sínum tíma vegna þess að það gerði mig að því sem ég er í dag. Þegar þú ert búin að vinna stærsta sigurinn þá verða aðrir ósigrar svo miklu auðveldari. Þá kemur eitthvað æðruleysi, því í raunveruleikanum er það fjölskyldan og tengslin, fólkið okkar sem skiptir öllu og við lærðum það í kófinu,“ segir Tinna og bendir á að Skjálfti sé einmitt mynd um fjölskyldutengsl. 

Þetta er líka saga mín

„Ungur sonur Sögu er sá drifkraftur sem kemur henni í gegnum allt. Af því að hún er móðir og hún vill verða móðir sem getur borið ábyrgð á barninu sínu og vill reynast honum góð móðir þá nær hún að takast á við það sem hún þarf að kljást við. Og það er líka saga mín. Það er sú saga sem ég vildi segja. Ég veit að margir geta speglað sig í því. Þú þarft alltaf einhverja gulrót í erfiðleikunum. Þú þarft alltaf að sjá yfir hólinn og eygja markmiðið þar sem hlutirnir verða betri. Í mínum verkum er alltaf von.“

Viðtal við Tinnu Hrafns­dótt­ur má sjá í heild sinni í Dag­mál­um Morg­un­blaðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þú sért skipulagður sjálfur geturðu ekki ætlast til að aðrir séu eins. Vandamálin geta vel verið fyrir hendi, þótt enginn sjá þau nema þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þú sért skipulagður sjálfur geturðu ekki ætlast til að aðrir séu eins. Vandamálin geta vel verið fyrir hendi, þótt enginn sjá þau nema þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes