Ofbeldi og slæmar aðstæður

Áskell og Viktor nutu þess að leika í kvikmyndinni Berdreymi.
Áskell og Viktor nutu þess að leika í kvikmyndinni Berdreymi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sýningar hefjast í dag á kvikmyndinni Berdreymi sem Guðmundur Arnar Guðmundsson skrifaði handritið að og leikstýrði. Guðmundur vakti mikla og verðskuldaða athygli og fjölda verðlauna fyrir fyrstu kvikmynd sína í fullri lengd, Hjartastein, sem frumsýnd var í byrjun árs 2017 en í henni fóru börn og unglingar með helstu hlutverk, líkt og í Berdreymi.

Í Berdreymi segir af unglingspiltinum Adda sem á skyggna móður og ofbeldishneigða vini, Konna og Sigga, sem hafa sína djöfla að draga. Vinirnir þrír vingast við Balla sem er fórnarlamb eineltis og býr við slæmar heimilisaðstæður. Ofbeldisfull hegðun drengjanna leiðir þá á hættulegar brautir og þegar líður á myndina gerist Addi berdreyminn, líkt og móðir hans. Með hlutverk Adda fer Birgir Dagur Bjarkason, Áskell Einar Pálmason leikur Balla, Viktor Benóný Benediktsson leikur Konna og Snorri Rafn Frímannsson leikur Sigga. Blaðamaður ræddi við þá Áskel og Viktor um þeirra ólíku hlutverk í myndinni, annars vegar drenginn sem verður fyrir einelti, Balla, og hins vegar mesta fantinn í vinahópnum, Konna.

Átta mánaða undirbúningur

Félagarnir eru spurðir að því af hverju þeir hafi sóst eftir því að leika í myndinni og segir Viktor að hann hafi alltaf langað til að verða leikari en hann hefur áður leikið í kvikmynd, Víti í Vestmannaeyjum. Hann segist hafa verið að bíða eftir öðru hlutverki í kvikmynd þegar auglýstar voru leikprufur fyrir Berdreymi. „Ég bara stökk á það,“ segir Viktor en Áskell var hins vegar algjörlega óreyndur og segir móður sína hafa bent honum á auglýsinguna. „Ég fór í prufur og það fór allt geggjað vel,“ segir Áskell sem er að klára Hagaskóla en Viktor er á leiklistarbraut í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

Líkt og aðrir ungir leikarar myndarinnar voru þeir Áskell og Viktor undirbúnir fyrir tökur með reglulegri þjálfun og leiklistarkennslu yfir sex mánaða tímabil áður en tökur hófust og kynntist leikarahópurinn vel á þeim tíma. Þegar að tökum kom voru því allir vel undirbúnir, góðir vinir og andrúmsloftið gott á tökustað, að sögn Áskels.

Guðmundur fór yfir einstök atriði handritsins með hinum ungu leikurum og slagsmálaatriði voru einnig æfð með Jóni Viðari Arnþórssyni sem séð hefur um slík atriði í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta. „Það var mjög skemmtilegt, alltaf gaman að fá Jón Viðar í heimsókn, hann kunni allt og fékk meira að segja að sparka í okkur,“ segir Viktor kíminn og Áskell tekur undir það. Tekið skal fram að engum varð meint af þeim æfingum.

Birgir Dagur Bjarkason og Viktor Benóný Benediktsson í Berdreymi.
Birgir Dagur Bjarkason og Viktor Benóný Benediktsson í Berdreymi. mbl.is

Læra að meta góða vináttu

Áskell og Viktor eru beðnir um að lýsa persónum sínum í myndinni og Áskell byrjar. „Balli er eineltisfórnarlamb og á mjög erfitt heima fyrir. Hann kynnist strák sem tekur hann inn í hóp af villingum og þeir læra að meta góða vináttu,“ segir hann. Viktor leikur Konna sem kallaður er „dýrið“ í myndinni og það ekki að ástæðulausu. „Hann á líka sína sögu og lendir í alls kyns vandræðum sem hann þarf svo sjálfur að leysa úr. Hann er ekki mikið að leita sér hjálpar, finnst gaman að gera þetta sjálfur og er í þessum vinahópi sem tekur Balla inn,“ segir Viktor. Konni er sá sem leiðir hópinn og þá oft með ofbeldisfullri hegðun.

Í spor drengjanna

Í myndinni kemur í ljós, þegar á líður, að hin slæma hegðun drengjanna á sér ýmsar og ólíkar ástæður sem rekja má fyrst og fremst til heimilisaðstæðna. „Þegar við vorum að leika í myndinni þurftum við að setja okkur í þessi spor, ímynda okkur að við værum að lenda í þessu. Það er mjög erfitt að leika í erfiðum senum,“ segir Áskell og að þá hafi leiklistarþjálfunin mánuðina á undan komið sér vel. „Þetta var mest bara gaman hjá okkur,“ bætir Áskell við og blaðamaður getur staðfest að báðir drengir standa sig einkar vel í hlutverkum sínum.

Ofbeldishegðun unglinga er sannarlega ekki nýtt fyrirbæri, slagsmál hafa alla tíð tíðkast og þá einkum meðal táningspilta. Með tilkomu samfélagsmiðla og YouTube hefur kastljósinu verið beint í auknum mæli að þessu samfélagsvandamáli hin síðustu ár og má í því sambandi nefna að fyrir tveimur árum sendi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu frá sér myndband þar sem hún hvatti fólk til að opna umræðuna um ofbeldi meðal unglinga sem væri orðið mjög alvarlegt vandamál á Íslandi.

Blaðamaður nefnir þetta við þá Viktor og Áskel og þeir kannast auðvitað við þetta samfélagsmein. „Það eru krakkar sem líður illa og vita ekkert hvað þeir eiga að gera með þær tilfinningar. Strákar leita í eitthvað sem lætur þeim líða betur og þeir byrja að slá frá sér og tjá þannig tilfinningar sínar. Maður kannast alveg við þetta, sér þetta og ég held að því miður þekki allir einhvern sem hefur orðið fyrir einelti. Allir ættu að geta tengt við þetta,“ segir Viktor. Áskell bætir við að unglingsárunum fylgi flóknar tilfinningar og heimilisaðstæður spili líka oft inn í sem og slæmur félagsskapur.

Einelti er ekki síður mikilvægur hluti sögunnar sem rakin er í Berdreymi og hefur einnig mikil umræða verið um slíkt ofbeldi hér á landi til fjölda ára. Viktor bendir á að ný tegund af einelti hafi nú bæst við, sú sem fram fer á netinu og samfélagsmiðlum. „Við sem samfélag þurfum einhvern veginn að læra að glíma við það,“ segir Viktor og Áskell tekur undir með honum. Nú séu ekki lengur nokkrar manneskjur sem verði vitni að einelti heldur tugir, hundruð og jafnvel þúsundir manna á netinu.

Hér má sjá stiklu fyrir Berdreymi:

Spennufall í bíósal

Berdreymi var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín 11. febrúar síðastliðinn og hlaut afar góðar viðtökur. Strákarnir voru viðstaddir frumsýninguna og segja upplifunina hafa verið rosalega. „Þetta var pínu eins og draumur, að sjá leikara eins og Leonardo Di Caprio með flössin í augunum á rauða dreglinum og svo fær maður bara að upplifa þetta sjálfur, lítill strákur frá Íslandi,“ segir Viktor og brosir.

Þeir Áskell sáu kvikmyndina í fyrsta sinn í Berlín og segir Áskell að það hafi verið mikið spennufall í bíósalnum. „Ég gat varla notið myndarinnar, ég var svo spenntur og fannst svo gaman,“ segir Áskell kíminn og Viktor tekur undir með honum og segist hafa notið myndarinnar mun betur á frumsýningu hér heima fyrr í vikunni.

Þeir Viktor og Áskell segjast hafa notið þess að leika í Berdreymi. Eitt og annað hafi vissulega tekið á en þó alltaf verið gaman á tökustað. Væru þeir þá til í að leika aftur í kvikmynd? „Já!“ svara þeir einróma og brosa yfir því hversu samstilltir þeir eru.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Jón Atli Jónasson
2
Colleen Hoover
3
Guðrún Frímannsdóttir
5
Rebekka Sif Stefánsdóttir

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hikaðu ekki við að tjá vini þínum skoðanir þínar á því sem hann leitar til þín með. Þú ert fínn einn á báti - og frábær í hóp.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Jón Atli Jónasson
2
Colleen Hoover
3
Guðrún Frímannsdóttir
5
Rebekka Sif Stefánsdóttir

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hikaðu ekki við að tjá vini þínum skoðanir þínar á því sem hann leitar til þín með. Þú ert fínn einn á báti - og frábær í hóp.