Æsilegt kynlíf í þinglyftunni

Sienna Miller kynnir Anatomy of a Scandal á rauða dreglinum …
Sienna Miller kynnir Anatomy of a Scandal á rauða dreglinum í Lundúnum á dögunum. AFP/Justin TALLIS

Framhjáhald og forréttindi eru í brennidepli í Anatomy of a Scandal, nýjum dramaþáttum á efnisveitunni Netflix. Hliðarspor vinsæls bresks þingmanns dregur heldur en ekki dilk á eftir sér. 

James Whitehouse er breskur stjórnmálamaður á hraðri uppleið. Hann er huggulegur, sjarmerandi og alþýðlegur, hamingjusamlega giftur og heyrir til innsta hring sjálfs forsætisráðherrans. Framtíðin blasir við honum. Þá skriplar hann á skötu; fer að halda við aðstoðarkonu sína í þinginu. Götublöðin þefa sambandið uppi og slá því upp á forsíðu; æsilegt kynlíf í þinglyftunni og allur pakkinn. Whitehouse er knúinn til að játa syndir sínar fyrir eiginkonunni, Sophie, og korteri síðar stendur „krísu-reddari“ á vegum forsætisráðherra inni á gólfi hjá þeim. Við-þurfum-að-komast-fram-fyrir-atburðarásina-týpan. Ekkert tilfinningavæl, bara harðar, markvissar aðgerðir til að afstýra frekara tjóni. Hann hendir meira að segja í þessa línu og horfir í augun á Whitehouse: „Hvers vegna að skreppa út í hamborgara þegar þú ert með steik á borðinu heima?“ Þá er Sophie nóg boðið, dregur sig í hlé og kallar á Eyjólf. Sem menn hafa svo sem gert af minna tilefni gegnum tíðina. En alvara málsins hæfir James bónda hennar í öllu falli í höfuðstað. „Almáttugur, hvað hef ég gert?“

Eða er það svo?

Naomi Scott, Sienna Miller, Michelle Dockery og Rupert Friend eru …
Naomi Scott, Sienna Miller, Michelle Dockery og Rupert Friend eru í helstu hlutverkum í myndaflokknum. AFP/Justin TALLIS


Hvað sem því líður virðist hann ætla að krúsa í gegnum hneykslið. Frúin er særð en virðist samt ætla að fyrirgefa honum og hann vefur áskorendum sínum um fingur sér í fjölmiðlum og á þinginu. Hvað gerir öndin þegar að henni er sótt á tjörninni? Hún syndir! En þá kemur höggið – viðhaldið kærir Whitehouse til lögreglu fyrir nauðgun.

Óhætt að lesa áfram

Meira hef ég ekki séð og mun því ekki upplýsa frekar um þróun mála í dramaþáttunum Anatomy of a Scandal sem nýlega komu inn á efnisveituna Netflix. Ykkur er því óhætt að lesa áfram. Enda þótt Bretland sé sögusviðið eru þættirnir bandarískir og úr smiðju hins farsæla höfundar Davids E. Kelleys, sem meðal annars stóð að Ally McBeal, Boston Legal og Big Little Lies.

Svo raunverulegur þykir söguþráðurinn að orðrómur hefur verið á kreiki þess efnis að þættirnir byggist á sönnum atburðum. Svo er ekki. Þráðurinn er sóttur í samnefnda skáldsögu eftir breska rithöfundinn Söruh Vaughan sem kom út 2018.

„Þetta er stúdía í mannlegri hegðun og sálfræði,“ upplýsir Melissa James Gibson, sem þróaði þættina ásamt Kelley, í samtali við tímaritið Town & Country. „Samnefnari fyrir menn sem reyna að komast upp með gjörðir af þessu tagi vegna þess að þeir telja ekki að reglurnar – hvorki faglega né persónulega – eigi við um þá. Persónurnar eru skáldaðar en þrátt fyrir það er óhætt að segja að sagan skarist á köflum við raunheima.“

David E. Kelley ásamt eiginkonu sinni, leikkonunni Michelle Pfeiffer.
David E. Kelley ásamt eiginkonu sinni, leikkonunni Michelle Pfeiffer. AFP/Robyn BECK


Sjálf hefur Sarah Vaughan staðfest að bókin sé ekki byggð á raunverulegu fólki, heldur ákveðnu andrúmslofti sem margir geti án efa tengt við.

Leikstjórinn, hin breska S.J. Clarkson, segir markmiðið hafa verið að láta umhverfið virka raunverulegt og jarðbundið en ljá því um leið ákveðið aðdráttarafl. „Maður horfir á heimili þeirra og hugsar með sér: hér væri ég til í að búa. En eftir því sem sögunni vindur fram fer maður að velta fyrir sér: er það þess virði?“ spyr hún í Town & Country.

Nánar er fjallað um Anatomy of a Scandal í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og næstu verkefni Davids E. Kelleys. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ekki hafa neinar áhyggjur þó að þú sért ekki alveg með á nótunum í dag. Ekki láta aðra fara í þínar fínustu.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ekki hafa neinar áhyggjur þó að þú sért ekki alveg með á nótunum í dag. Ekki láta aðra fara í þínar fínustu.