Edda Falak biðst afsökunar á missögn

Frosti Logason og Edda Falak á samsettri mynd.
Frosti Logason og Edda Falak á samsettri mynd. Ljósmynd/Samsett

Edda Falak hefur viðurkennt að hafa í viðtölum fyrir tveimur árum ekki greint rétt frá stöðu sinni gagnvart tilteknum fjármálafyrirtækjum þegar hún bjó í Danmörku og stundaði nám við Copenhagen Business School árin áður. Biðst hún afsökunar á missögninni.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Heimildarinnar vegna umfjöllunar um opið bréf Frosta Logasonar.

Fram kemur að vegna starfa hennar fyrir Heimildina hafi hvorki bakgrunnur hennar í fjármálum, nám, námsgráða, né möguleg störf haft nokkur áhrif á hlutverk hennar eða ákvarðanir því tengdar af hálfu ritstjórnar Heimildarinnar.

Einnig kemur fram í yfirlýsingunni að lögfræðingur á vegum Frosta hafi undanfarið verið í samskiptum við heimildina og lagt fram kröfur í tengslum við frásögn fyrrverandi sambýliskonu hans af skriflegum hótunum hans í hennar garð.

„Í svari við umfjöllununum um margvíslegar yfirlýsingar Frosta um Eddu skal tekið fram að á undanförnum mánuðum hefur hún mátt þola ítrekaðar tilraunir til þöggunar, þar sem hún hefur meðal annars verið dregin fyrir dómstóla vegna starfa sinna. Allt hefur þetta lagst þungt á hana,“ segir í yfirlýsingunni.

Yfirlýsingin í heild sinni:

„Yfirlýsing vegna umfjöllunar um opið bréf Frosta Logasonar

Vegna starfa og dagskrárgerðar Eddu Falak fyrir Heimildina er rétt að taka fram að bakgrunnur í fjármálum, hvorki nám, námsgráða né möguleg störf, hafði ekki nokkur áhrif á hlutverk hennar eða ákvarðanir því tengdar af hálfu ritstjórnar Heimildarinnar.

Frá því að hún hóf störf á ritstjórn Heimildarinnar hefur verið fylgt ritstjórnarstefnu og starfsreglum Heimildarinnar. Ritstjórn Heimildarinnar tryggir og ber ábyrgð á að starfsfólk ritstjórnar fylgi reglum um vinnubrögð blaðamennsku við störf sín. Hvergi hefur borið skugga þar á.

Edda hefur miðlað því til ritstjórnar að hún hafi í viðtölum fyrir tveimur árum ekki lýst með réttum hætti stöðu sinni gagnvart tilteknum fyrirtækjum á sviði fjármála þegar hún bjó í Danmörku og stundaði nám við Copenhagen Business School árin áður. Hún biðst velvirðingar á missögninni.

Ráðandi þáttur í ákvörðun forsvarsfólks Heimildarinnar um samstarf í síðasta mánuði var hins vegar auðsýndur ferill Eddu sem viðkemur því að veita þolendum rödd og rými til að deila reynslu sinni, í málum sem hafa samfélagslegt mikilvægi og sýna gjarnan fram á bresti í kerfum sem verja ættu viðkomandi. Í störfum með Heimildinni er unnið eftir verklagi sem felur meðal annars í sér að afla gagna og viðbragða, í því skyni að geta miðlað víðtækum áhrifum ofbeldis á fólk sem á sér gjarnan engan málsvara.

Vegna umfjallana hlaðvarpstjórnandans Frosta Logasonar um Eddu og opins bréfs hans til Heimildarinnar, sem hefur verið til umfjöllunar í fréttamiðlum, er rétt að taka fram að lögfræðingur á vegum Frosta hefur undanfarið verið í samskiptum við Heimildina og lagt fram kröfur í tengslum við frásögn fyrrverandi sambýliskonu hans af skriflegum hótunum hans í hennar garð, en frásögn hennar, studd gögnum, kom fram í viðtali við Eddu Falak í fyrra.

Í svari við umfjöllununum um margvíslegar yfirlýsingar Frosta um Eddu skal tekið fram að á undanförnum mánuðum hefur hún mátt þola ítrekaðar tilraunir til þöggunar, þar sem hún hefur meðal annars verið dregin fyrir dómstóla vegna starfa sinna. Allt hefur þetta lagst þungt á hana.

Annar þáttur Eddu hjá Heimildinni, sem er að fullu leyti frágenginn, er væntanlegur í komandi viku.

Fyrir hönd Heimildarinnar,

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Þórður Snær Júlíusson ritstjórar, Jón Trausti Reynisson framkvæmdastjóri og Edda Falak blaðamaður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í varnarstöðu og það er skiljanlegt. Hlustaðu á það sem aðrir hafa fram að færa og mundu að það vilja allir vera til staðar fyrir þig.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Hugrún Björnsdóttir
2
Anna Margrét Sigurðardóttir
3
Torill Thorup
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í varnarstöðu og það er skiljanlegt. Hlustaðu á það sem aðrir hafa fram að færa og mundu að það vilja allir vera til staðar fyrir þig.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Hugrún Björnsdóttir
2
Anna Margrét Sigurðardóttir
3
Torill Thorup
5
Torill Thorup