Sendi sjálfan sig í fragtflugi heim til mömmu

Charles D. McKinley ræðir við fjölmiðla í fangelsinu í Dallas.
Charles D. McKinley ræðir við fjölmiðla í fangelsinu í Dallas. AP

Ungur Bandaríkjamaður ákvað að senda sjálfan sig í fragtflugi frá New York til móður sinnar í Dallas. Lögreglu var hins vegar ekki skemmt og á maðurinn nú ákæru yfir höfði sér.

Charles D. McKinley, sem er 25 ára gamall, er frá Dallas en býr í New York og hafði heimþrá. Hann sagði í samtali við útvarpsstöð í Dallas í gær, að vinur hans hefði sagt sér að ódýrara væri að fara í fragtflugi en venjulegu farþegaflugi.

McKinley vinnur í vörugeymslu í New York og talið er að hann hafi fengið aðstoð samstarfsmanna sinna við að koma sér fyrir í kassanum, sem var 109 sm á hæð, 91 sentímetri á breidd og 38 sentímetrar á þykkt. McKinley er 170 sentímetra hár og vegur 76,5 kg. McKinley skrifaði í farmbréf að kassinn innhéldi tölvur og annan viðkvæman varning.

Kassanum var síðan ekið frá Kennedyflugvelli í New York til New Jersey þar sem honum var komið fyrir í fragtflugvél á vegum flugfélagsins Kitty Hawk Cargo. Vélin fór frá Newark í New Jersey til Niagara Falls í New York. Þar var kassinn settur í aðra flugvél sem fór til Fort Wayne í Indiana og síðan til Dallas. Ferðin tók 15 tíma og segir McKinley að vistin hafi verið heldur daufleg. Hann gat þó opnað kassann og teygt úr sér.

Á laugardag ók starfsmaður flugfélagsins Pilot Air Freight kassanum frá flugvellinum í Dallas að heimili foreldra McKinleys í úthverfi borgarinnar. Þegar starfsmaðurinn var að bisa við kassann braust McKinley skyndilega út úr honum. Móðir McKinleys varð höggdofa en bílstjórinn hringdi í lögregluna.

„Maðurinn minn spurði: Hvað ertu að gera í þessum kassa? Hann svaraði að hann væri að koma heim," sagði móðir McKinleys í útvarpsviðtali.

Lögreglan handtók McKinley, ekki þó vegna þessa máls heldur vegna þess að hann hafði ekki sinnt kvaðningu vegna ávísanafalsmáls og umferðarlagabrota. Bandaríska alríkislögreglan íhugar hins vegar að leggja fram ákæru vegna flugferðarinnar og vill nú fá að vita hvernig laumufarþeginn komst fram hjá eftirlitskerfi á flugvöllunum án þess að sjást. Minna eftirlit er með flugfragt en farþegaflugi í Bandaríkjunum og því hafa ýmsir áhyggjur af því að hryðjuverkamenn nýti sér það.

Kassinn var í öllum tilfellum settur í upphitað fragtrými með jafnþrýstibúnaði en hann hefði eins getað lent í geymslurýmum sem eru ekki með jafnþrýstibúnaði. Segja sérfræðingar að þessi ferð McKinleys hefði því vel getað orðið hans síðasta.

Til að bæta gráu ofan á svart námu farmgjöldin 550 dölum eða nærri 45 þúsund krónum. Fyrir þá upphæð hefði hann getað keypt sér farmiða á fyrsta farrými milli New York og Dallas.

Bill Hill, saksóknari í Dallas, segist ekki sjá að McKinley hafi brotið nein lög í Texas með þessu uppátæki sínu þótt hann kunni að hafa brotið alríkislög. „En hann braut að minnsta kosti heimskulögin," sagði Hill.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur látið hlutina danka heima fyrir, en verður nú að bretta upp ermarnar og gera eitthvað. Hafðu hugfast að áhyggjur breyta engu.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur látið hlutina danka heima fyrir, en verður nú að bretta upp ermarnar og gera eitthvað. Hafðu hugfast að áhyggjur breyta engu.