Segir Brown taka æðisköst

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, á leið af ríkisstjórnarfundi.
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, á leið af ríkisstjórnarfundi. Reuters

Vefsíða Guardian í Bretlandi segir að streita vegna efnahagsvandans sé farin að hafa mikil áhrif á Gordon Brown forsætisráðherra. Vitnað er í aðstoðarmenn ráðherrans og segir einn þeirra að Brown hafi eitt sinn í bræðiskasti fleygt leysiprentara á gólfið.

 Haft er eftir fréttamanni Bloomberg-viðskiptafréttastofunnar að oft hafi heyrst sögur af því að ráðherrann hafi fleygt pennum og jafnvel heftara í aðstoðarmenn en sagan af prentaranum sé ný. Einn af heimildarmönnunum segist hafa verið varaður við ,,fljúgandi Nokia-símum" þegar hann tók við starfi á skrifstofu Browns.

Sagt er að aðstoðarmenn ráðherrans hafi lagað sig að skapsveiflum hans. Þeir hafi fundið upp aðferð sem þeir kalli ,,fréttasamlokuna" til að geta fært honum vond tíðindi. Sé þá byrjað á því að segja honum fyrst jákvæða frétt, síðan slæmu fréttina en síðan bætt við í snatri góðri frétt til að lægja öldurnar.

Aðspurður um skrif Bloomberg sagði talsmaður Browns  að hann teldi að um væri að ræða ,,óstaðfesta og heimildarlausa vitleysu sem menn gætu búist við að lesa í sunnudagsblöðum en ekki hjá viðskiptafréttastofu sem talin er virðingarverð."

 Er enn var spurt hvort fréttin væri ósönn var ítrekað að þetta væri vitleysa og nokkuð sem búast mætti við í pistlaskrifum en þetta væri ,,ekki frásögn sem ég kannast við". 

mbl.is

Bloggað um fréttina