Hvað gæti mögulega farið úrskeiðis?

Ferðalagið verður í anda Tour de France. Mynd úr safni.
Ferðalagið verður í anda Tour de France. Mynd úr safni. Reuters

Tæplega 200 fangar munu hjóla hringinn í kringum Frakkland í næsta mánuði. Yfir 120 verðir munu fylgja þeim. Að sögn yfirvalda er þetta upphitun fyrir hina frægu Tour de France hjólreiðakeppnina.

Fangarnir, sem eru 196, verða alltaf að halda hópinn. Alls munu 124 fangaverðir og íþróttakennarar fylgja þeim. Það eru engin verðlaun fyrir fyrsta sætið því aðalatriðið er að kenna föngunum samvinnu og mikilvægi þess að leggja sig fram.

„Þetta er einskonar tilbreyting fyrir okkur. Tækifæri til að hverfa frá hinu daglega lífi í fangelsinu,“ segir einn fanganna, að því er fram kemur á fréttavef Reuters.

„Ef við högum okkur vel þá gætum við fengið að sleppa fyrr á reynslulausn,“ segir hann.

Alls munu þeir ferðast um 2.300 km leið. Ferðalagið hefst í Lille, sem er í norðurhluta landsins, 4. júní og verður komið við í 17 bæjum. Tekið skal fram að fangelsi er í þeim öllum. Þrátt fyrir það munu fangarnir gista á hótelum.

Þeir munu svo ljúka ferðalaginu í París líkt og gert í Tour de France.

„Verkefnið gengur út á það að hjálpa þessum mönnum að aðlaga sig samfélaginu með því að hlúa að gildum eins og samvinnu og auka sjálfsálit þeirra,“ segir Sylvie Marion, sem starfar hjá fangelsismálayfirvöldum.

„Við viljum kenna þeim að með þjálfun getur þú náð markmiðum þínum og hafið nýtt líf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina