Reknir eftir fyllirí í flugvél

Tveir af yfirmönnum kanadíska fyrirtækisins Research In Motion, sem framleiðir BlackBerry- farsíma, voru reknir eftir að þeir voru með óspektir og drykkjulæti í farþegaflugvél.

Fyrirtækið sendi frá sér tilkynningu í dag og sagðist ætlast til þess að starfsmenn hegðuðu sér í samræmi við stöðu sína og fyrirtækisins. Ekki væri liðið, að starfsmenn brytu lög og ætlast væri til þess að þeir sýndu af sér virðuleika og heiðarleika við öll tækifæri.

Starfsmennirnir tveir, George Campbell, 45 ára, og Paul Alexander Wilson, 38 ára, játuðu fyrir dómi í síðustu viku að hafa brotið af sér þegar þeir voru um borð í flugvél Air Canada á leið frá Toronto í Kanada til Peking í Kína sl. mánudag.

Að sögn kanadísku riddaralögreglunnar gerðust félagarnir uppivöðslusamir eftir að þeir neyttu of mikils áfengis í flugvélinni. Þeir lentu í átökum við flugfreyjur og voru á endanum handjárnaðir við sæti sín. Flugstjórinn ákvað síðan að snúa vélinni við og lenda í Vancouver þar sem lögregla tók við tvímenningunum en aðrir farþegar þurftu að gista á hóteli um nóttina. Daginn eftir hélt vélin síðan áfram til Kína.

Þeir Campbell og Wilson fengu skilorðsbundinn fangelsisdóm og þurfa að greiða flugfélaginu nærri 72 þúsund dali, 8,6 milljónir króna, í bætur. Þá fá þeir ekki að ferðast með flugvélum Air Canada næsta árið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina