Sex landsliðsmenn sakaðir um brot

Kynferðisbrot innan KSÍ | 13. október 2021

Sex landsliðsmenn sakaðir um brot

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, gat ekki valið alla þá leikmenn sem hann hafði hug á að velja í landsliðshóp sinn fyrir nýafstaðna leiki gegn Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM.

Sex landsliðsmenn sakaðir um brot

Kynferðisbrot innan KSÍ | 13. október 2021

Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen gátu ekki valið …
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen gátu ekki valið alla þá leikmenn sem þeir höfðu hug á að velja fyrir nýafstaðna landsleiki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, gat ekki valið alla þá leikmenn sem hann hafði hug á að velja í landsliðshóp sinn fyrir nýafstaðna leiki gegn Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM.

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, gat ekki valið alla þá leikmenn sem hann hafði hug á að velja í landsliðshóp sinn fyrir nýafstaðna leiki gegn Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM.

Þetta herma heimildir mbl.is.

Hinn 27. september barst stjórn Knattspyrnusambands Íslands tölvupóstur frá aðgerðahópnum Öfgum en innihald tölvupóstsins var flokkað sem trúnaðarmál á stjórnarfundi sambandsins sem fram fór 30. september.

Daginn eftir tilkynnti Arnar Þór svo leikmannahóp sinn fyrir leikina tvo sem fram fóru 8. og 11. október á Laugardalsvelli. Margir leikmenn, sem hafa verið lykilmenn í liðinu undanfarin ár, voru þar fjarverandi.

Tölvupóstur Öfga innihélt meðal annars nöfn á sex leikmönnum karlaliðsins og dagsetningar yfir meint ofbeldis- og kynferðisbrot þeirra samkvæmt heimildum mbl.is. Þá var landsliðsþjálfarinn einnig sakaður um að gera lítið úr meintum þolendum með orðavali sínu í samskiptum sínum við fjölmiðla.

Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson hafa ekki tekið …
Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson hafa ekki tekið þátt í síðustu leikjum íslenska karlalandsliðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki gjaldgengir í landsliðið

Aron Einar Gunnarsson, Kolbeinn Sigþórsson og Gylfi Þór Sigurðsson hafa allir verið nafngreindir í íslenskum fjölmiðlum fyrir meint brot en hinir þrír hafa ekki verið nafngreindir. Þeir hafa allir verið fastamenn í íslenska landsliðshópnum undanfarinn áratug og eiga allir að baki fjölda landsleikja fyrir A-landsliðið.

Mál landsliðsmannanna er nú til skoðunar hjá Sigurbjörgu Sigurpálsdóttur, samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Hún tók til starfa á vormánuðum eftir að mennta- og menningarmálaráðuneytið setti lög um starfið síðastliðið haust.

„Markmið samskiptaráðgjafa er að auka öryggi í íþrótta- og æskulýðsstarfi barna, ungmenna og fullorðinna,“ að því er fram kemur á heimasíðu samskiptaráðgjafa.

Ekki er ljóst hvenær niðurstaða fæst í mál landsliðsmannanna sex en á meðan málin eru til skoðunar hjá samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs eru þeir ekki gjaldgengir í íslenska landsliðið, að því er heimildir mbl.is herma.

Einhverjir þeirra gætu þó tekið þátt í lokaleikjum undankeppninnar í nóvember, gegn Rúmeníu og Norður-Makedóníu ytra, ef niðurstaða fæst á næstu vikum.

mbl.is