Líklegast að gos komi upp á sama stað

Eldgos í Geldingadölum | 27. desember 2021

Líklegast að gos komi upp á sama stað

Þróunin á skjálftahrinunni á Reykjanesskaga helst sú sama og enn eru líkur á gosi á svæðinu. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir líklegast að kvika berist upp á yfirborðið á sama svæði og síðast, það er í námunda við Fagradalsfjall og Geldingadali.

Líklegast að gos komi upp á sama stað

Eldgos í Geldingadölum | 27. desember 2021

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands, segir mestar líkur …
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands, segir mestar líkur á sambærilegu gosi og í vor. Ljósmynd/Almannavarnir

Þróunin á skjálftahrinunni á Reykjanesskaga helst sú sama og enn eru líkur á gosi á svæðinu. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir líklegast að kvika berist upp á yfirborðið á sama svæði og síðast, það er í námunda við Fagradalsfjall og Geldingadali.

Þróunin á skjálftahrinunni á Reykjanesskaga helst sú sama og enn eru líkur á gosi á svæðinu. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir líklegast að kvika berist upp á yfirborðið á sama svæði og síðast, það er í námunda við Fagradalsfjall og Geldingadali.

„Það hefur ekkert breyst í þeirri sviðsmynd að ef þetta heldur áfram á sömu braut þá sé þetta sennilegast undanfari þess að gos taki sig upp að nýju. Líklegasti staðurinn er þá þarna í Fagradalsfjalli og Geldingadölum. Mælingarnar benda til þess,“ segir Magnús í samtali við mbl.is.

Hefur ekkert með kviku að gera

Hann segir aukna virkni til hliða svæðisins þar sem gaus nú í vor vera skólabókardæmi um svokallaða gikkskjálfta.

Spenna sé fyrir á svæðinu og þegar viðbótarfærsla á landi kemur ofan í spennuna eykst þrýstingurinn sem leiði til skjálfta á svæðunum við Krísuvík og í Svartsengi, norðan við Grindavík.

„Við höfum séð þetta býsna oft. Til að mynda þegar Holuhraun myndaðist, þá voru miklir skjálftar í Kverkfjöllum. Það var bara viðbótarspenna og hafði ekkert með kviku á svæðinu að gera. Sama er upp á teningnum nú.“

Líkur á öðrum ræfli en ekkert útilokað

Spurður hvort búast megi við öðrum „ræfli“, líkt og einhverjir kölluðu gosið í Geldingadölum, taki að gjósa á ný segir Magnús líkur á því en afar erfitt sé að fullyrða í þeim efnum. Atburðarásinni sé einfaldlega ekki lokið.

Hann bendir á að þegar gjósa tók í Geldingadölum hafi land sigið töluvert. Þegar því svo lauk tók land að rísa að nýju og segir hann stöðuna nú þannig að allt landsig hafi gengið til baka frá goslokum. Álíka mikil kvika hafi safnast upp og áður var og gaus upp á yfirborðið.

Kvikan sem kom upp í gosinu í Geldingadölum hafi verið „meðalmagn af því sem þekkist á skaganum“ og því megi allt eins gera ráð fyrir sambærilegri atburðarás taki að gjósa á ný. Hann ítrekar þó að ekki sé útséð með það hve lengi kvikan heldur áfram að safnast saman áður en hún brýst upp á yfirborðið.

„Kannski er hægt að segja að mestar líkur séu á sambærilegu gosi og í vor enda atburðirnir í raun sams konar. Það gæti líka gerst að þetta yrði tíu sinnum meira, það er ólíklegt en ekki útilokað. Það er náttúrlega alltaf betra að spá um framtíðina eftir að hún er orðin, þannig að spár eru á endanum bara spár. Við verðum bara að sjá hvernig þessu vindur fram.“

Vefmyndavélar mbl.is streyma beint frá svæðinu í Geldingadölum.

mbl.is