„Maður sefur ekki á næturnar“

Húsnæðismarkaðurinn | 18. apríl 2024

„Maður sefur ekki á næturnar“

„Við Guðmundur sonur minn stöndum að þessum mótmælum, þau hjónin eru með fimm börn og allir eru á taugum yfir því hve hægt þetta gengur fyrir sig,“ segir Sverrir Árnason, íbúi í Grindavík sem stendur fyrir mótmælunum á Austurvelli sem nú eru að hefjast vegna stöðu mála í bæjarfélaginu sem orðið hefur svo illa fyrir barðinu á náttúruhamförum vetrarins.

„Maður sefur ekki á næturnar“

Húsnæðismarkaðurinn | 18. apríl 2024

Sverrir Árnason, sem stendur fyrir mótmælum sem nú eru að …
Sverrir Árnason, sem stendur fyrir mótmælum sem nú eru að hefjast á Austurvelli, kveðst vakna upp á næturnar við áhyggjur af að fasteignakaup hans gangi ekki eftir og hann er ekki einn í þeirri stöðu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við Guðmundur sonur minn stöndum að þessum mótmælum, þau hjónin eru með fimm börn og allir eru á taugum yfir því hve hægt þetta gengur fyrir sig,“ segir Sverrir Árnason, íbúi í Grindavík sem stendur fyrir mótmælunum á Austurvelli sem nú eru að hefjast vegna stöðu mála í bæjarfélaginu sem orðið hefur svo illa fyrir barðinu á náttúruhamförum vetrarins.

„Við Guðmundur sonur minn stöndum að þessum mótmælum, þau hjónin eru með fimm börn og allir eru á taugum yfir því hve hægt þetta gengur fyrir sig,“ segir Sverrir Árnason, íbúi í Grindavík sem stendur fyrir mótmælunum á Austurvelli sem nú eru að hefjast vegna stöðu mála í bæjarfélaginu sem orðið hefur svo illa fyrir barðinu á náttúruhamförum vetrarins.

Sverrir ræddi við mbl.is fyrr í dag og sakaði Fasteignafélagið Þórkötlu um að reyna að slá mótmælin niður með því að senda frá sér yfirlýsingar sem ekki standist nokkra skoðun í kjölfar harðrar gagnrýni í garð félagsins síðustu daga sem íbúar Grindavíkur hafa sett fram í fjölmiðlum vegna hægagangs sem þeir benda á að hafi veruleg neikvæð áhrif á tilraunir þeirra til að kaupa sér fasteignir annars staðar.

„Þarna hefur verið mikill skortur á upplýsingaflæði alveg síðan lögin um uppkaup ríkisins á eignum Grindvíkinga voru samþykkt í febrúar,“ bendir Sverrir á, „þá var það sett á Ísland.is að opnað yrði fyrir umsóknir innan fárra daga. Sá texti stóð óbreyttur í fjórtán daga og þá voru allir orðnir mjög pirraðir, þetta er bara eitt dæmi um hve lítið er hugsað um þetta,“ heldur hann áfram.

Sverrir og Guðmundur sonur hans standa báðir í fasteignaviðskiptum sem …
Sverrir og Guðmundur sonur hans standa báðir í fasteignaviðskiptum sem enginn veit hvernig lyktar. Ljósmynd/Aðsend

Hvað með eldra fólk?

Sjálfur er Sverrir þannig staddur að hann er í þriggja eigna íbúðakaupakeðju sem fjórir aðilar eru að, „sá sem er síðastur í þeirri keðju er búinn að vera mjög órólegur. Sjálfur vakna ég upp á næturnar við áhyggjur af að þetta bresti og það held ég að eigi við allmarga. Þetta vegur kannski þyngst hjá fjölskyldufólki með börn en kannski líka hjá eldra fólki sem hafði ef til vill hugsað sér að verja ævidögunum í skuldlausu húsnæði. Hvað gerist með það?“ spyr Sverrir.

Eins og Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, benti á í viðtali hér á vefnum í gær og fjölskyldufaðir, sem ræddi sín fasteignamál nafnlaust, sagði frá daginn áður stendur fjöldi Grindvíkinga nú í þeim döpru sporum að sitja fastir í fasteignakaupakapli sem enginn veit hvenær – eða hvort – gengur upp.

„Það er ekki það að við skiljum ekki að þetta sé flókið og ýmislegt sem þarf að leysa, en það er ekki hægt að láta okkur bíða svona lengi,“ segir Sverrir og gagnrýnir harðlega þann skort á upplýsingum sem þyngt hefur Grindvíkingum umfram flesta aðra þætti þess máls sem hér er til umræðu.

„Það er miklu betra að fá einhverjar upplýsingar sem svíða kannski í nokkra daga frekar en að vera alla daga og allar nætur í þessari óvissu. Langflestir fasteignasalar halda að sér höndum þar til þeir fá einhverja staðfestingu frá Þórkötlu. Ég er með mjög góða eiginfjárstöðu og þarf ekki að taka nema sex milljóna króna lán en það er ekki nóg. Þeir verða að hafa þetta „konkret“,“ segir Sverrir.

Aðalmálið að hreyfa við þessu

Þetta þykir honum undarlegt í ljósi þess að búið sé að samþykkja lög um kaup á húsnæði fyrir 95 prósent af brunabótamati. „Fasteignasalinn sagði við mig að ég gæti hætt við. Hætti ég við þegar ég er búinn að borga sex milljónir? Hvað verður þá um þessar sex milljónir?“ spyr Sverrir.

Ástæðan fyrir því að hann efndi til mótmælanna, sem nú eru að hefjast á Austurvelli, er einkum sú að hann finnur til með fólki eftir að hafa fylgst með stöðu mála hjá sveitungum sínum á Facebook. „Fólk er að skrifa undir kauptilboð með óvissu um hvort það gangi eftir, þessi óvissa fer hrikalega illa með fólk og það verður að gera eitthvað í þessu, hreyfa eitthvað við þessu. Ef Þórkatla hefur ekki nægan mannskap til að sinna þessu þarf bara að bæta við fólki þar,“ segir Sverrir sem býst ekki við að fylla Austurvöll af svekktum Grindvíkingum og stuðningsfólki þeirra.

„Ég vonast til að eitt, tvö, þrjú hundruð manns mæti. Aðalmálið er að hreyfa við þessu í stað þess að fá þessi endalausu svör þetta kemur eftir helgi, þetta kemur eftir helgi. Maður sefur ekki á næturnar út af þessari óvissu og ég þoli nú alveg ýmislegt,“ segir Sverrir Árnason að lokum en mótmælin hófust á Austurvelli núna klukkan 17.

mbl.is