Sakar Þórkötlu um villandi upplýsingagjöf

Raddir Grindvíkinga | 13. maí 2024

Sakar Þórkötlu um villandi upplýsingagjöf

Elísa Haukdal Grindvíkingur gagnrýnir vinnubrögð fasteignafélagsins Þórkötlu harðlega og segir fréttaflutning þeirra af samþykktum umsóknum villandi. 

Sakar Þórkötlu um villandi upplýsingagjöf

Raddir Grindvíkinga | 13. maí 2024

Elísa Haukdal og eiginmaður hennar Þorsteinn Jónsson sjá fram á …
Elísa Haukdal og eiginmaður hennar Þorsteinn Jónsson sjá fram á flytja í kofann ef uppkaup klárast ekki fyrir lok mánaðar. Samsett mynd

Elísa Haukdal Grindvíkingur gagnrýnir vinnubrögð fasteignafélagsins Þórkötlu harðlega og segir fréttaflutning þeirra af samþykktum umsóknum villandi. 

Elísa Haukdal Grindvíkingur gagnrýnir vinnubrögð fasteignafélagsins Þórkötlu harðlega og segir fréttaflutning þeirra af samþykktum umsóknum villandi. 

Elísa er ein þeirra Grindvíkinga sem óskaði eftir því að Fasteignafélagið Þórkatla myndi kaupa fasteign hennar í Grindavík. Umsóknina sendi hún til Þórkötlu að morgni föstudagsins 8. mars og enn bíður hún eftir greiðslu vegna húsnæðisins og að skrifað verði undir kaupsamning. 

Sakar félagið um að fegra sannleikann

Eitt af því sem Elísa gagnrýnir eru tilkynningar frá félaginu um stöðu mála. Vísar hún til að mynda til síðustu tilkynningar félagsins frá 8. maí þar sem segir að 766 umsóknir hafi borist Fasteignafélaginu Þórkötlu og að meirihluti þeirra sé búinn að fá samþykki.

„Þeir eru að fegra þetta með því að segja að þeir séu búnir að samþykkja þessi uppkaup,“ segir hún og vísar jafnframt til þess að með stofnun félagsins hafi uppkaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík þegar verið samþykkt.

„Þá voru þeir búnir að samþykkja að þeir myndu kaupa húsin sama hvernig ástandið væri á þeim. Nú eru þeir að segja það sé búið að samþykkja þetta margar umsóknir, en þeir eru ekki búnir að borga okkur út og ekki búnir að láta okkur skrifa undir,“ segir Elísa og bætir við: 

„Þetta er bara yfirborðsbull. Þeir eru bara að reyna að fá fólk til að trúa því að þeir séu búnir með þetta.“ 

Svar sem engu svaraði 

Að sögn Elísu hefur hún sent tugi tölvupósta á félagið í von um að fá upplýsingar um hvenær eigi að ganga frá kaupum á húsnæði hennar. Kveðst hún einungis hafa fengið eitt svar sem hún segir litlu hafa svarað. 

„Það var bara „já við erum að vinna í þessu en við getum samt ekki sagt þér hvenær þín umsókn verður tilbúin“.“ 

Nú er svo komið að Elísa og fjölskylda hennar freista þess að festa kaup á öðru húsnæði en þurfa til þess að fá greiðslu fyrir húsnæði sitt í Grindavík, ekki bara samþykkta umsókn. 

„Það er það sem er svo villandi. Fasteignasalinn heldur að það sé löngu búið að greiða mér út af því að þetta er það sem hann les í fjölmiðlum. „Búið að afgreiða allar mars umsóknir,“ en það er ekki þannig,“ segir Elísa til að undirstrika hversu lýjandi ástandið er. 

„Við erum að afsaka okkur í bak og fyrir og reyna að útskýra þetta,“ segir hún og útskýrir hvernig þessi staða hefur hamlað kaupum hennar á annarri fasteign. 

Kofinn er fimmtán fermetrar og þar er hvorki rennandi vatn …
Kofinn er fimmtán fermetrar og þar er hvorki rennandi vatn né klósett. Fjölskyldan dvaldi þar í fimm daga í skítakulda í nóvember og óskar þess heitast að þurfa ekki að gera það aftur. Ljósmynd/Aðsend

Búin á því bæði andlega og líkamlega 

Elísa segir ástandið algjörlega óboðlegt og kveðst gjörsamlega búin á því bæði andlega og líkamlega eftir endalausa flutninga.

Hún bindur vonir við að svör frá félaginu fari að skýrast enda sér hún fram á að þurfa að flytja fimm manna fjölskylduna sína í fimmtán fermetra kofa úti í sveit þann fyrsta júní þegar núverandi leigusamningur fjölskyldunnar rennur út. Þar segir hún þó hvorki rennandi vatn né klósett. 

Þá segir hún það sama eiga við um foreldra hennar sem sjá jafnframt fram á að missa leiguhúsnæði sitt þann fyrsta júní. „Þau sjá fyrir sér að þurfa að búa í bílnum,“ segir hún og útskýrir að foreldrar hennar séu komin á efri ár og verði að komast í viðunandi húsnæði. 

mbl.is