Gerir ráð fyrir 150 samningum í næstu viku

Húsnæðismarkaðurinn | 19. apríl 2024

Gerir ráð fyrir 150 samningum í næstu viku

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra segir að settar hafi verið fram of brattar væntingar varðandi þann tímaramma sem taka átti Fasteignafélagið Þórkötlu að ganga frá kaupum á fasteignum í Grindavík.

Gerir ráð fyrir 150 samningum í næstu viku

Húsnæðismarkaðurinn | 19. apríl 2024

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra segir að settar hafi verið fram of brattar væntingar varðandi þann tímaramma sem taka átti Fasteignafélagið Þórkötlu að ganga frá kaupum á fasteignum í Grindavík.

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra segir að settar hafi verið fram of brattar væntingar varðandi þann tímaramma sem taka átti Fasteignafélagið Þórkötlu að ganga frá kaupum á fasteignum í Grindavík.

Hann segir ferlið hafa verið flóknara og tímafrekara en áætlað var, en að nú þegar undirbúningsvinna sé að klárast ættu hlutirnir að gerast hraðar og að vænta megi þess að gengið verði frá 150 kaupum í næstu viku.

Fjöldi Grindvíkinga mótmæli seinagangi við kaupin á Austurvelli í gær og í Morgunblaðinu í dag var rætt við fasteignasala sem sagði að fjöldi fasteignakaupakeðja sé nú við það að bresta þar sem fjármunir sem hafði verið lofað séu ekki að berast strax.

Frá mótmælum Grindvíkinga á Austurvelli í gær.
Frá mótmælum Grindvíkinga á Austurvelli í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Margt að gerast núna“

„Ég hef skilning á því að það sé farið að ganga á þolinmæði. Það voru held ég of brattar væntingar gefnar út, að þetta tæki skemmri tíma eða 2-4 vikur. Verkið er auðvitað fordæmalaust og stórt. Það eru um 711 sem hafa óskað eftir að selja húseignir sínar, en það er margt að gerast núna. Það hefur þurft að taka samtal við eina 18 lánveitendur sem eru með mismunandi reglur við sína samninga og allt tekur það tíma,“ sagði Sigurður Ingi við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í dag.

Hann segir að vænta megi þess að í næstu viku verði gengið frá fleiri kaupsamningum en gert var í þessari viku. „Það hafa allar hendur verið á dekki og í gær voru held ég um 115 sem höfðu fengið samþykkt sitt kauptilboð og þess er vænst að það geti verið 150 í næstu viku. Einhverjir voru komnir í gegnum kerfið áður og það er búið að greiða út í einhverjum tilfellum og mun því ganga hraðar héðan í frá.“

Sigurður Ingi gerir ráð fyrir að Fasteignafélagið Þórkatla muni klára …
Sigurður Ingi gerir ráð fyrir að Fasteignafélagið Þórkatla muni klára 150 kaupsamninga í næstu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Upplýsingagjöf hefði mátt vera betri

Sigurður Ingi tekur undir að upplýsingagjöf hafi mátt vera betri til íbúa undanfarið. „Held að við séum á ágætum stað í dag, en þurfum að gera betur í upplýsingagjöf og það er verið að vinna hratt í því.“

Spurður hvort setja eigi aukinn kraft eða mannskap í verkefnið segir hann að ekki standi á slíku, en að verkefnið taki einfaldlega langan tíma þar sem ræða hafi þurft við 18 lánveitendur og ganga frá lagalegum atriðum. Hann segist samt hafa fullan skilning á því að fólk sé að verða óþolinmótt þegar það sé í miðju kaupsamningsferli.

mbl.is