„Þögnin er ærandi“

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, fer ekki í neinar …
Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, fer ekki í neinar grafgötur með að bæjarbúar eru orðnir langþreyttir á seinagangi og ærandi þögn. Ljósmynd/Aðsend

„Maður upplifir að það nenna færri að hlusta á okkur, róðurinn þyngist bara og þögnin er ærandi,“ segir Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, í samtali við mbl.is og kveður Grindvíkinga langþreytta á tíðindaleysi í þeirra málefnum, ekki síst hvað Fasteignafélagið Þórkötlu áhrærir í tengslum við kaup Grindvíkinga á nýjum eignum. Mótmælafundur hefur verið boðaður á Austurvelli á morgun.

Forsetinn telur þann raunveruleika sem nú blasi við sveitungum hennar hálfóraunverulegan miðað við þau lífsgæði og velmegun sem þessi rótgróni útgerðarbær hefur búið við. „Fyrst vorum við hetjurnar að hafa lent í þessu en nú er maður hræddur um að við séum að fara úr hetjum í hyski og að við séum að verða einhverjir þurfalingar á þjóðinni,“ segir Ásrún sem er grunnskólakennari í bænum og sat áður í stjórnunarstöðu í sínum skóla.

Erfiður dagur hjá kennaranum

„Við erum fólk sem vinnur og borgar fyrir sig, við viljum geta staðið á okkar fótum og keypt húsnæði. Það var erfiður dagur hjá mér í dag þegar ákveðið var að skólahald í safnskólum yrði ekki næsta skólaár né skólahald í Grindavík. Einhverjir telja að með þessari ákvörun okkar séum við að skella í lás en ákvörðunin byggir fyrst og fremst á farsæld barna en við erum líka að reka sveitarfélag og óvissan með íbúafjölda og tekjustofna mikil. Grindavík var vel stöndugt sveitarfélag og við þurfum að horfa til þess að keyra okkur ekki í þrot og því fylgja erfiðar ákvarðanir,“ heldur Ásrún áfram en hún er borinn og barnfæddur Grindvíkingur.

„Það er auðvitað hörmung að heyra af þessum manni,“ segir hún og vísar til Grindvíkings sem mbl.is ræddi við í gær og sagði farir sínar ekki sléttar eftir að hafa misst af fasteign sem hann hugðist kaupa í Sandgerði þegar seljandi hækkaði verðið fyrirvaralaust um fimm milljónir. En það dæmi er ekkert einsdæmi og um það er Ásrúnu og bæjarstjórn Grindavíkur kunnugt.

„Já, við vitum um fleiri dæmi. Við erum að horfa á að fasteignasalar selja kannski eign og segja svo „heyrðu viltu ekki bara græða, viltu ekki bara selja eignina aftur og fá fimm milljónir í gróða?“, nú er verið að hvetja fólk til þess að fara þessa leið,“ segir Ásrún.

Og þið hafið áreiðanlega vitneskju um þessi tilfelli?

„Já, við höfum hana og svo stendur fólkið í neyðinni og áfallinu,“ svarar hún án hiks.

„Grindvíkingar eru að berjast um sömu eignirnar en það er mín skoðun að ríkið hefði mátt stíga inn í þetta ástand varðandi þennan húsnæðismarkað. „Seðlabankastjóri talaði um húsnæðismarkaðinn og áhrifin þegar Grindvíkingar komu inn á útþaninn markaðinn en það hefur áhrif á alla þjóðina,“ segir Ásrún.

Eitthvað verður að gerast

Bæjarstjórnin á fund með fulltrúum Fasteignafélagsins Þórkötlu á föstudaginn. „Maður upplifir ærandi þögn á meðan fólk er að missa af eignum sem það hefur fest sér með tilboðum. Bara það að fá að heyra eitthvað, til dæmis bara „við tókum tíu kaupsamninga í dag“ eða „þetta frestast um viku“, bara að fólk sé látið vita með einhverjum hætti hver staðan sé,“ heldur hún áfram.

Upplýsingarnar þurfi einfaldlega að berast hraðar og vera áreiðanlegar. „Það verður eitthvað að fara að gerast í þessum málum. Mér fannst hljómurinn í Þórkötlu góður í byrjun, það var meira að segja verið að tala um að við gætum leigt húsin okkar ef ástandið í bænum yrði þannig. En þetta hefur ekki farið vel af stað og þetta gengur ekki svona, nú verður eitthvað að gerast, það er spurning hvort við séum of þakklát og of þolinmóð,“ segir Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert