Drónaflug dulinn hernaður

Rússland | 18. október 2022

Drónaflug dulinn hernaður

Ståle Ulriksen, lektor við sjóherskóla Noregs, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að norsk yfirvöld hafi hegðað sér barnalega árum saman við mat á vægi olíu- og gasframleiðslu landsins í hernaðarlegu tilliti.

Drónaflug dulinn hernaður

Rússland | 18. október 2022

Roy Nordfonn, yfirliðþjálfi 131. flugsveitar í Sørreisa, er einn viðmælenda …
Roy Nordfonn, yfirliðþjálfi 131. flugsveitar í Sørreisa, er einn viðmælenda NRK um öryggismál og meintar njósnir Rússa í Noregi. Ljósmynd/Norski herinn

Ståle Ulriksen, lektor við sjóherskóla Noregs, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að norsk yfirvöld hafi hegðað sér barnalega árum saman við mat á vægi olíu- og gasframleiðslu landsins í hernaðarlegu tilliti.

Ståle Ulriksen, lektor við sjóherskóla Noregs, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að norsk yfirvöld hafi hegðað sér barnalega árum saman við mat á vægi olíu- og gasframleiðslu landsins í hernaðarlegu tilliti.

„Mér finnst algjörlega hafa vantað að viðurkennt sé hve hernaðarlega mikilvæg orkuframleiðsla Norðmanna er fyrir Evrópu, einkum olíu- og gasframleiðslan í Norðursjónum. Þessi starfsemi er skotmark þeirra ríkja sem líta á Evrópu og Vesturlönd sem keppinauta sína,“ segir Ulriksen.

Mikil umræða hefur átt sér stað í Noregi síðustu vikur um meintar njósnir Rússa við ýmis hernaðarlega mikilvæg skotmörk í og við Noreg, svo sem myndatökur og drónaflug að ógleymdu illa dulbúnu njósnaskipi, Akademik B. Petrov, sem kom ískyggilega nálægt norskum olíuvinnslupöllum í lok september.

Bendir Ulriksen á að öryggislögreglan PST, þjóðaröryggisstofnun Noregs, NSM, og leyniþjónusta norska hersins hafi ítrekað varað við umfangsmikilli njósnastarfsemi ríkja á borð við Kína, Íran og Rússland og hafi norsk stjórnvöld kosið að skella skollaeyrunum við öllum aðvörunum í þá veru.

Ståle Ulriksen lektor telur norsk yfirvöld hafa verið barnaleg í …
Ståle Ulriksen lektor telur norsk yfirvöld hafa verið barnaleg í viðhorfi sínu. Ljósmynd/Norski sjóherskólinn

Mette Skak er danskur Rússlandssérfræðingur við Háskólann í Árósum. Hún segir danska ríkisútvarpinu DR að ákveðið mynstur sé nú að koma í ljós. „Ég kýs að kalla þetta blandaðan hernað (d. hybridkrig), það er að segja dulinn hernað sem hefur það markmið að skapa ótta, maður veit ekki hver stendur að baki honum,“ segir Skak við DR.

Síðustu vikuna hafa alls sex rússneskir ríkisborgarar verið handteknir í Noregi fyrir háttsemi sem brýtur í bága við norska löggjöf. Fjórir voru handteknir á þriðjudag fyrir viku við að mynda staði sem undirlagðir eru ljósmyndabanni, sá fimmti var tekinn á leið út úr landinu með tvo dróna og fjölda stafrænna geymslueininga og sá sjötti var gripinn við myndatökur við flugvöllinn í Tromsø.

Ulriksen lektor telur þó þjóðaröryggismál í Noregi hafa verið tekin fastari tökum upp á síðkastið. „Ég var ánægður með frammistöðu [Emilie Enger Mehl] dómsmálaráðherra á blaðamannafundinum,“ segir hann og vísar í blaðamannafund í gær þar sem ráðherra hvatti almenning til að vera á varðbergi og tilkynna um grunsamlega háttsemi eins og mbl.is greindi frá í gær.

Roy Nordfonn, yfirliðþjálfi 131. flugsveitar við Gumpedalen-herstöðina í Sørreisa, vill ekki staðfesta við NRK að fleiri drónar hafi sést í nágrenni stöðvarinnar upp á síðkastið en þar hafa óboðnir gestir að ofan sést reglulega síðustu sjö árin.

„Allt í einu geta allir átt dróna á meðan reglusetning hins opinbera um þessi tæki er langt á eftir þróuninni,“ segir Nordfonn og hefur þar lög að mæla. Nú er svo komið að 500.000 Norðmenn, um tíundi hluti þjóðarinnar, eiga dróna, einn eða fleiri.

„Þessi tæki eru notuð hvort tveggja í einkaerindum og við störf og mér er það til efs að allir þekki gildandi reglur um notkun þeirra,“ segir Nordfonn.

Karen-Anna Eggen, rannsakandi við Rannsóknarstofnun varnarmála, Institutt for forsvarsstudier, segir nýlega drónaumferð hreinlega vera svar við stríðinu í Úkraínu. „Rússum sækist þetta stríð treglega, þess vegna hafa þeir þörf fyrir að senda frá sér skýr skilaboð og skapa ótta í vestrænum stuðningsríkjum Úkraínu,“ segir Eggen við NRK.

Karen-Anna Eggen segir Rússa hafa þörf fyrir að senda skýr …
Karen-Anna Eggen segir Rússa hafa þörf fyrir að senda skýr skilaboð vegna þess hve illa þeim sækist stríðsreksturinn í Úkraínu. Ljósmynd/Norski herinn

Bætir hún því við að Rússum sé mikilvægt nú um stundir að skapa ótta samhliða því sem þeir kortleggi hernaðarlega mikilvæga staði, til dæmis í Noregi. „Það er þeim mikilvægt til að undirbúa hugsanleg stríð framtíðarinnar. Við eigum ekki lengur frið gagnvart Rússum, viðsjár eru vaktar með þeim og okkur,“ segir rannsakandinn.

NRK

NRKII (allar nýlegar fréttir af drónaflugi)

NRKIII (óboðnir gestir í Sørreisa)

DR

mbl.is