Kynntust hjá WOW air og eru nú giftar

Brúðkaup | 14. maí 2023

Kynntust hjá WOW air og eru nú giftar

Birna Kristjánsdóttir og Guðrún Vaka Helgadóttir kynntust í febrúar árið 2018 þegar þær unnu báðar hjá flugfélaginu WOW air. Einu og hálfu ári seinna byrjuðu þær saman og eftir það gerðist allt mjög hratt. Þær giftu sig á eftirminnilegan hátt árið 2021.

Kynntust hjá WOW air og eru nú giftar

Brúðkaup | 14. maí 2023

Hjónurnar Birna Kristjánsdóttur og Guðrún Vaka Helgadóttir ásamt Agöthu P.
Hjónurnar Birna Kristjánsdóttur og Guðrún Vaka Helgadóttir ásamt Agöthu P. Ljósmynd/Elín Björg

Birna Kristjánsdóttir og Guðrún Vaka Helgadóttir kynntust í febrúar árið 2018 þegar þær unnu báðar hjá flugfélaginu WOW air. Einu og hálfu ári seinna byrjuðu þær saman og eftir það gerðist allt mjög hratt. Þær giftu sig á eftirminnilegan hátt árið 2021.

Birna Kristjánsdóttir og Guðrún Vaka Helgadóttir kynntust í febrúar árið 2018 þegar þær unnu báðar hjá flugfélaginu WOW air. Einu og hálfu ári seinna byrjuðu þær saman og eftir það gerðist allt mjög hratt. Þær giftu sig á eftirminnilegan hátt árið 2021.

Birna segir að ástin hafi kviknað sumarið eftir að WOW air féll. „Þá hittumst við í afmælisveislu hjá sameiginlegri WOW-vinkonu og það bara gerðist eitthvað. Við höfum aldrei getað útskýrt það almennilega hvernig það gerðist en það var eins og ýtt væri á einhvern takka hjá okkur báðum og við urðum skotnar. Í ágúst sama sumar vorum við formlega orðnar kærustur,“ segir Birna. „Ég segi stundum að einn lítill mömmukoss hafi orðið kveikjan að þessu öllu saman en það er samt eiginlega ekki hægt að útskýra þetta,“ segir Guðrún.

„Við höfum gert hlutina frekar hratt í rauninni. En hvernig er annað hægt þegar maður er svona viss um eitthvað og ástfanginn? Við keyptum okkur íbúð saman í janúar 2020 og vorum fluttar inn í mars og þá kom Covid svo við vorum rosalega mikið saman heima því Birna var alltaf í sóttkví út af fótboltanum,“ segir Guðrún og tekur fram að Birna hafi þá spilað knattspyrnu með meistaraflokki KR.

Öðruvísi brúðkaupsmynd á fótboltavellinum. Þegar Birna og Guðrún Vaka voru …
Öðruvísi brúðkaupsmynd á fótboltavellinum. Þegar Birna og Guðrún Vaka voru að byrja saman spilaði Birna með KR. Ljósmynd/Elín Björg

Birna sagði já

Sambúðin gekk vel svo Guðrún Vaka ákvað að biðja Birnu um jólin 2020 en þá voru þær búnar að ræða hugmyndina um að ganga í hjónaband. Birna hafði einnig gefið það út að Guðrún þyrfti að biðja hennar.

„Ég var með smá stresshnút í maganum. Hringurinn var búinn að vera í felum í töskunni minni í svolítinn tíma og ég vildi koma henni rækilega á óvart. Samt fannst mér alltaf eins og hana grunaði eitthvað,“ segir Guðrún um bónorðið. „Mig grunaði sko ekki neitt,“ skýtur Birna inn í.

„Við eyddum jólunum hjá foreldrum Birnu og opnuðum alla pakkana þar. Þegar við komum heim, seint um kvöldið, laumaði ég pakkanum með hringnum undir fallegu lindifuruna okkar og sagði: „Hei, það hefur gleymst einn pakki undir trénu.“ Þarna var Birna inni í eldhúsinu að næla sér í pítsusnúð og kókómjólk í miðnætursnarl og kemur inn í stofuna til að mótmæla þessu. Þá teygði ég mig í öskjuna með hringnum undir trénu. „Jú þessi hérna,“ sagði ég og fór á hnén. Birna sagði já,“ segir Guðrún en þær giftu sig hálfu ári seinna.

Drottinn lessi heimilið!
Drottinn lessi heimilið! Ljósmynd/Sigga Ella

Hamborgarar og heimabrugg

Það gekk vel að finna sal með stuttum fyrirvara þar sem þær ákváðu að gifta sig um verslunarmannahelgi. Dagsetningin hentaði vel og þó svo að samkomutakmarkanir hafi verið í gildi á stærri viðburði slapp brúðkaupið og enginn smitaðist í veislunni. Þær eru ánægðar með hvernig allt tókst til á brúðkaupsdaginn.

„Við erum mikið fyrir að hafa allt mjög einfalt en að það virki. Það þarf ekki alltaf að vera með allt eins og klippt út úr hönnunartímariti. Okkur finnst skemmtilegt að gera hlutina sjálfar og setja okkar stíl á þá. Við föndruðum til dæmis pappírsskreytingar heima allt sumarið með dyggri aðstoð góðrar vinkonu og fjölskyldumeðlima. Við keyptum líka alls konar skreytingar á netinu alveg hræódýrt. Salurinn átti að líta út eins og risastórt Gay Pride-partí og allt í regnbogalitum. Það eina sem við gerðum ekki sjálfar varðandi skreytingarnar var blöðruboginn sem var á sviðinu en hann kom frá Pippa Party sem reddaði líka helíumblöðrum þegar ljósaskreytingablöðrurnar sem við pöntuðum á netinu reyndust misheppnaðar.

Við nenntum ekki of stífu borðhaldi svo við pöntuðum Búllubílinn til að sjá um hamborgara og pöntuðum skúffukökur frá Myllunni í staðinn fyrir að hafa margra hæða brúðartertu. Við buðum líka upp á kvöldsnarl en það voru pítsusnúðar og kókómjólk því það var akkúrat það sem Birna var með í höndunum þegar Guðrún bar upp bónorðið. Svo pöntuðum við nóg af bjór og fengum einn vin okkar til að brugga alveg sérstakan bjór fyrir kvöldið sem sló rækilega í gegn og kláraðist strax,“ segja þær.

Boðið var upp á kökur frá Myllunni í brúðkaupinu.
Boðið var upp á kökur frá Myllunni í brúðkaupinu. Ljósmynd/Elín Björg

Dragdrottning sá um athöfnina

„Við vildum vera aðeins öðruvísi og láta dragdrottningu gefa okkur saman. Því miður, eða kannski sem betur fer, þá forfallaðist dragdrottningin sem við vorum búnar að bóka í gegnum Siðmennt og því góð ráð dýr. En við fengum meðmæli með dásamlegri drottningu, Agöthu P, sem sá um athöfnina í veislunni með þvílíkum glæsibrag. Það kom nefnilega í ljós að Ásgeir Helgi, maðurinn á bak við Agöthu P, var flugþjónn hjá WOW air og því vel kunnugur WOW-andanum. Það var því sérstakt WOW-þema í athöfninni þegar Agatha P brá sér í sérsaumað flugfreyjudress og fór með ávarp fyrir gestina. Ásgeir Helgi er líka dansari og samdi sérstakan dans fyrir okkur sem við þurftum að æfa samviskusamlega fyrir athöfnina. Við erum staðráðnar í að láta Agöthu P sjá um allar athafnir fyrir okkur hér eftir og sá hún til dæmis um athöfnina í nafnaveislu tvíburanna okkar nú fyrir stuttu.

Þar sem Agatha P var ekki með vígsluréttindi ákváðum við að fá athafnastjóra frá Siðmennt til að koma heim til okkar í hádeginu fyrir veisluna og gefa okkur formlega saman. Þar var aðeins allra nánasta fjölskylda viðstödd í dásamlegu veðri á pallinum í Kópavogsdalnum. Við keyrðum svo í burtu á afar sérstökum brúðarbíl. Bíll vinar okkar, sem við ætluðum að fá lánaðan, reyndist bilaður svo hann sá til þess að við fengjum í staðinn skærgulan Dodge Dakota sem heitir Tweety og hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn í kvartmílu,“ segja þær en Guðrún þurfti sérkennslu hjá eiganda bílsins til að keyra bílinn sem var ekki hannaður fyrir manneskju í síðkjól og hælum.

Brúðkaupsbíllinn var mjög gulur og mjög flottur.
Brúðkaupsbíllinn var mjög gulur og mjög flottur. Ljósmynd/Sigga Ella

Hvernig var veislan?

„Veislan var eitt stórt partí og heppnaðist alveg ótrúlega vel. Við mættum og gengum í gegnum allan salinn undir laginu „Let's get it on“ og Agatha P gaf okkur svo saman að öllum veislugestum viðstöddum. Vinir okkar höfðu verið sjanghæjaðir í að æfa tvö lög fyrir athöfnina og þau slógu rækilega í gegn. Fyrra lagið var Með þér eftir Bubba Morthens og seinna lagið Á puttanum eftir Þorgeir Ástvaldsson. Það var sungið í lok athafnarinnar og við það dönsuðum við sérsaminn dans og vinir okkar komu svo og tóku þátt í dansinum með okkur.

Ein af okkar betri vinkonum tók að sér veislustjórn og önnur var leikjastjóri og saman gerðu þær veisluna fulla af fjöri og skemmtilegum uppákomum. Gestum var velkomið að koma með skemmtiatriði og ræður og til dæmis bjó fjölskylda Birnu til alveg hrikalega fyndið myndband um keppnisskapið í Birnu í gegnum tíðina og tvær vinkonur okkar dönsuðu burlesque-dans fyrir okkur og svo margt fleira.

Við vorum búnar að undirbúa langan lagalista af lögum fyrir fólk að dansa við eftir að óformlega borðhaldinu var formlega lokið en veislustjórinn okkar, meistarinn sem hún er, náði að bóka DJ Dóru Júlíu í partíið þar sem hún hafði óvænt orðið laus vegna útihátíðabanns sóttvarnaryfirvalda. Mjög heppilegt fyrir okkur og hún var sko heldur betur miklu betri en Spotify-lagalisti.“

Athöfnin í veislunni. Hjónurnar giftu sig með formlegum hætti fyrr …
Athöfnin í veislunni. Hjónurnar giftu sig með formlegum hætti fyrr um daginn. Ljósmynd/Elín Björg

Ætla að endurnýja heitin á tíu ára fresti

Hver er sagan á bak við fötin ykkar?

„Þar sem veislan átti að vera svolítið óhefðbundin með heimabrugguðum bjór, mylluköku, búlluborgurum og svo framvegis þá vildum við brjóta það vel upp með því að vera algjörlega klassískar brúðir í hvítum rjómatertukjólum með slör í háum hælum. Við elskum svona andstæður. Við pöntuðum kjólana, skóna, skartið og slörin allt á netinu. Kjólarnir eru af heimasíðu sem selur notaða brúðarkjóla. Við ákváðum svo að panta okkur líka hvítan partíklæðnað og auðveldari skó svo við gætum dansað meira við gestina okkar eftir veisluna og sjáum sko ekki eftir því,“ segja þær.

Ljósmynd/Sigga Ella

Hvað stendur upp úr eftir stóra daginn?

„Hvað þetta var ótrúlega gaman og heppnaðist vel. Við erum staðráðnar í því að endurnýja heitin á tíu ára fresti til að geta haldið svona skemmtilegt partí reglulega. Og hvað við erum ótrúlega sammála. Hver hugmyndin á eftir annarri kom í undirbúningnum og það var alltaf bara „já gerum það“ og svo var það bara gert. Við erum líka sammála um að þetta hafi verið besta partí sem við höfum farið í. Þar spilar auðvitað líka inn í allt frábæra fólkið sem kom og fagnaði með okkur, sem hjálpaði okkur við undirbúninginn og gerði daginn svona góðan. Og veðrið! Þetta var eiginlega eini almennilegi sumardagurinn allt þetta sumar,“ segja hjónurnar sem bíða spenntar eftir árinu 2031, þá verður aftur haldin góð veisla.

mbl.is