Sagði ríkisstjórnina óstarfhæfa og Alþingi lamað

Alþingi | 23. nóvember 2023

Sagði ríkisstjórnina óstarfhæfa og Alþingi lamað

„Ríkisstjórnin er orðin óstarfhæf vegna sundrungar, Alþingi er sem lamað fyrir vikið og þetta þarf að segja upphátt.”

Sagði ríkisstjórnina óstarfhæfa og Alþingi lamað

Alþingi | 23. nóvember 2023

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. mbl.is/Hákon

„Ríkisstjórnin er orðin óstarfhæf vegna sundrungar, Alþingi er sem lamað fyrir vikið og þetta þarf að segja upphátt.”

„Ríkisstjórnin er orðin óstarfhæf vegna sundrungar, Alþingi er sem lamað fyrir vikið og þetta þarf að segja upphátt.”

Þetta sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugssdóttir, þingmaður Viðreisnar, undir dagskrárliðnum störf þingsins á Alþingi.

Hún sagði engin frumvörp berast frá ráðherrum vegna sundrungar innan ríkisstjórnarinnar og nefndi að Alþingi hefði afgreitt tvö stjórnarfrumvörp í haust.

39 frumvörp af 109 komin

Einnig sagði hún að af þeim 109 frumvörpum sem voru boðuð af ríkisstjórninni fyrir haustið væru 39 komin til þingsins núna í lok nóvember. Þorbjörg Sigríður sagði vexti háa, verðbólgu mikla og flókna kjarasamninga framundan en ekkert í dagskrá þingsins endurspeglaði stöðuna.

Guðmundur Ingi Kristinsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Allt steindautt“

Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku undir þetta og sögðu nefndarfundi m.a. hafa fallið niður.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, sagði yfirleitt hafa verið nóg að gera í velferðarnefnd Alþingis en núna væri „allt steindautt”. Hann spurði hvort ríkisstjórnin gæti ekki komið sér saman um málin eða hvort hún væri einfaldlega búin að gefast upp.

Þá gagnrýndi Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, frestun annarrar umræðu um fjárlögin.

Vísuðu gagnrýninni á bug

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagðist sammála því að það væri „kannski ekkert ofsalega mikið af þingmálum hérna inni”.

Hann kvaðst þó lengi hafa verið þeirrar skoðunar að þingið setti iðulega of mörg mál á dagskrá. Benti hann jafnframt á að gagnrýnin væri ósanngjörn. Af 10 málum sem hann ætlaði að koma með fyrir lok október væru 8 komin inn á þing.

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðstoð við Grindvíkinga

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, vísaði gagnrýninni einnig á bug og sagði ríkisstjórnina vera að gera ýmislegt til að koma til móts við almenning. Vegna þess að verið væri að vanda sig við þau mál hefði dregist að hefja aðra umræðu um fjárlögin. Nefndi hún að ríkisstjórnin væri meðal annars að vinna hörðum höndum við að aðstoða Grindvíkinga vegna jarðhræringanna þar.

mbl.is