Loka að fullu á Rússland

Rússland | 29. nóvember 2023

Loka að fullu á Rússland

Finnsk stjórnvöld munu í nótt, aðfaranótt fimmtudags, loka landamærum sínum gagnvart Rússlandi að fullu og öllu fram til 13. desember. Hafa þau verið lokuð að mestu en ein landamærastöð þó opin þar sem vafamál var hvort löglegt væri að loka henni.

Loka að fullu á Rússland

Rússland | 29. nóvember 2023

Finnar loka landamærum sínum gagnvart Rússlandi að fullu og öllu …
Finnar loka landamærum sínum gagnvart Rússlandi að fullu og öllu í nótt en aðeins ein landamærastöð er þar enn opin, Raja-Jooseppi. Myndin sýnir Vaalimaa-stöðina sem hefur verið lokuð síðan Finnar lokuðu landamærunum að mestu um miðjan nóvember. AFP/Lauri Heino

Finnsk stjórnvöld munu í nótt, aðfaranótt fimmtudags, loka landamærum sínum gagnvart Rússlandi að fullu og öllu fram til 13. desember. Hafa þau verið lokuð að mestu en ein landamærastöð þó opin þar sem vafamál var hvort löglegt væri að loka henni.

Finnsk stjórnvöld munu í nótt, aðfaranótt fimmtudags, loka landamærum sínum gagnvart Rússlandi að fullu og öllu fram til 13. desember. Hafa þau verið lokuð að mestu en ein landamærastöð þó opin þar sem vafamál var hvort löglegt væri að loka henni.

Orsök lokunarinnar er harðnandi straumur pappírslausra hælisleitenda frá Rússlandi sem finnsk stjórnvöld gruna Rússana um að hleypa athugasemdalaust í gegn sín megin til að auka þrýsting á Finna. „Enginn kemst núna yfir þessi landamæri um landamærastöðvarnar,“ hafa fjölmiðlar eftir finnska innanríkisráðherranum Mari Rantanen, „málið snýst ekki um hælisleitendur eða innflytjendastjórnmál heldur er þetta spurning um þjóðaröryggi.“

Kveðst ráðherra með lokuninni vilja útrýma „ógninni“ frá Rússum og slakað verði á klónni þegar því takmarki verði náð. „Engu að síður búum við okkur undir að ástandið vari áfram og versni jafnvel,“ segir Rantanen.

Mótvægisaðgerðir vegna NATO-aðildar

Rússnesk stjórnvöld hafa enn sem komið er ekki tjáð sig um allsherjarlokunina en þegar landamærunum var lokað að hluta fyrir hálfum mánuði lét Kreml-talsmaðurinn Dmítrí Peskov þau orð falla við Moscow Times að djúpstæð óánægja ríkti yfir ákvörðun finnskra stjórnvalda sem með henni hefðu bakkað út úr hinu almennt góða sambandi ríkjanna.

Þrátt fyrir þessi orð hafa rússnesk stjórnvöld látið í veðri vaka að nágrannaríkið muni finna fyrir „mótvægisaðgerðum“ eftir að hafa gengið Atlantshafsbandalaginu NATO á hönd í vor.

Petteri Orpo forsætisráðherra, fyrir miðju, og Matti Sarasmaa, hershöfðingi og …
Petteri Orpo forsætisráðherra, fyrir miðju, og Matti Sarasmaa, hershöfðingi og yfirmaður landamæra- og strandgæslu Finnlands, hlýða á Mari Rantanen innanríkisráðherra kynna nýjustu aðgerðir Finna við landamærin. AFP/Vesa Moilanen

Landamæralokunin nú hefur ekki áhrif á þá vöruflutninga sem enn leyfast milli landanna en hælisleitendur þurfa nú að fara aðrar leiðir, þeir munu nú aðeins geta komið hælisóskum sínum á framfæri á finnskum flugvöllum og hafnarsvæðum.

Taka aðgerðir Rússa óstinnt upp

Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, segir allsherjarlokunina ekki hafa reynst nauðsynlega án nýrra aðgerða Rússa við landamærin, „og þær tökum við óstinnt upp“, segir Orpo og á við þá meintu háttsemi rússneskra stjórnvalda að drekkja finnskum landamæravörðum í pappírslausum hælisleitendum.

Níu landamærastöðvar eru á hinum 1.340 kílómetra löngu landamærum sem Finnar og Rússar deila. Stöðin við Raja-Jooseppi, sem í nótt verður lokað, er aðeins 150 kílómetra frá hinni fjölförnu landamærastöð við Storskog í Sør-Varanger í nyrsta fylki Noregs, Finnmörk. Frá Storskog eru aðeins nokkrir tugir kílómetra til rússneska bæjarins Nikel en eftir því sem norska ríkisútvarpið NRK greinir frá hefur umferð þó ekkert aukist um þá landamærastöð.

„Engin breyting hefur orðið á umferðinni um Storskog frá því Finnar tilkynntu um nýjasta útspil sitt,“ segir Einride Hals, lögregluvarðstjóri í Finnmörk, við NRK en samkvæmt norska dómsmálaráðuneytinu er fylgst grannt með öllum breytingum við landamærastöðina og fundar útlendingadeild norsku lögreglunnar daglega með lögreglunni í Finnmörk og norska ríkislögreglustjóranum um gang mála þar.

Helsinki Times

BBC

NRK

mbl.is