„Tímaspursmál hvenær fyrsta eignin fer á yfir milljarð“

Heimili | 20. mars 2024

„Tímaspursmál hvenær fyrsta eignin fer á yfir milljarð“

Það vakti þó nokkra athygli í síðustu viku þegar fregnir bárust af því að einbýli við Mávanes 17 í Garðabænum hafi selst á 850.000.000 kr. Páll Pálsson, eigandi fasteignasölunnar Pálsson fasteignasala, segir einbýlið vera það langdýrasta sem selst hafi á Íslandi og telur það vera tímaspursmál hvenær fyrsta eignin muni seljast á yfir milljarð króna. 

„Tímaspursmál hvenær fyrsta eignin fer á yfir milljarð“

Heimili | 20. mars 2024

Páll Pálsson, eigandi Pálsson fasteignasölu, ræddi um stöðuna á fasteignamarkaðinum …
Páll Pálsson, eigandi Pálsson fasteignasölu, ræddi um stöðuna á fasteignamarkaðinum og söluna á dýrasta einbýli sem selst hefur á Íslandi. Samsett mynd

Það vakti þó nokkra athygli í síðustu viku þegar fregnir bárust af því að einbýli við Mávanes 17 í Garðabænum hafi selst á 850.000.000 kr. Páll Pálsson, eigandi fasteignasölunnar Pálsson fasteignasala, segir einbýlið vera það langdýrasta sem selst hafi á Íslandi og telur það vera tímaspursmál hvenær fyrsta eignin muni seljast á yfir milljarð króna. 

Það vakti þó nokkra athygli í síðustu viku þegar fregnir bárust af því að einbýli við Mávanes 17 í Garðabænum hafi selst á 850.000.000 kr. Páll Pálsson, eigandi fasteignasölunnar Pálsson fasteignasala, segir einbýlið vera það langdýrasta sem selst hafi á Íslandi og telur það vera tímaspursmál hvenær fyrsta eignin muni seljast á yfir milljarð króna. 

Eignin sem um ræðir er 759 fm að stærð og var reist árið 2012. Arkitektastofan Gláma kím hannaði húsið, en á heimasíðu stofunnar má sjá einstakar myndir af hönnuninni sem er sérlega glæsileg. 

„Efnuðum Íslendingum fer ört fjölgandi“

Páll segir fjölda eigna sem seljast á yfir 200.000.000 kr. vera að aukast mikið. „Efnuðum Íslendingum fer ört fjölgandi sem gerir það að verkum að eftirspurn eftir dýrari lúxuseignum fer vaxandi. Við erum að sjá alveg nýjar hæðir þegar kemur að verðum. Efnameiri einstaklingar upplifa að lítið sé til að dýrari, fallegum og vel hönnuðum eignum, því um leið og eftirspurnin eftir eignum með íburði er að aukast er því miður lítið til af slíkum eignum,“ segir hann. 

„Eins er eftirstríðsára kynslóðin, einstaklingar fæddir á árunum 1946 - 1964, sem eiga nærri 80% af eignum í dag, að minnka við sig, þ.e.a.s. færa sig úr stærri og dýrari eignum yfir í fjölbýli,“ bætir hann við. 

Aðspurður segir Páll markhóp dýrari eigna helst vera að horfa til fjögurra svæða á Höfuðborgarsvæðinu – Garðabæinn, og þá sérstaklega Akrahverfið, Arnarnesið og Flatirnar, Fossvoginn, Miðbæ Reykjavíkur og Seltjarnarnes.

„Markhópurinn er efnaður en á sama tíma kröfuharður á ástand og gæði. Flestir í þessum hópi sækjast eftir staðsetningunni en líka „réttu“ eigninni og þá er sérstaklega verið að horfa til hönnunar og íburði hússins. Þá gerir markhópurinn einnig kröfur um það besta í efnisvali, til dæmis gólfefnum og innréttingum,“ útskýrir Páll.

„Flestir í þessum markhópi hafa lagt mikið á sig til þess að ná langt og hefur oft ekki tíma til að standa í endurnýjun og endurbótum á eignum, nema þá með því að fá þar til gerða þjónustu. Eignir sem seljast á háu verði hafa yfirleitt einhverja sérstöðu og/eða ákveðinn „x-factor“,“ bætir hann við. 

Langdýrasta einbýli sem hefur selst

Veist þú hvort einbýlið við Mávanes 17 sé það dýrasta sem selt hefur verið á Íslandi?

„Já, og ekki bara það dýrasta heldur það langdýrasta sem hefur selst.“

Páll segir að meðalfermetraverð á Arnarnesinu hafi verið um 713.000 kr. á síðasta ári, en fermetraverðið á Mávanesi 17 var þó talsvert hærra en það, eða rúmlega 1.100.000 kr. 

„Reyndar eru ekki margar sölur og því er þetta fermetraverð hærra en á öðrum eignum sem hafa selst á Arnarnesinu en þó alls ekki fordæmalaust þegar horft er til eigna, til dæmis í Akrahverfinu. Húsið er um 760 fm og þykir einstakt þegar kemur að staðsetningu, en það stendur á sjávarlóð.

Ég geri ráð fyrir að fagurfræðin, hönnun og annað slíkt hafi verið uppá sitt besta og kaupandinn ekki sett fyrir sér að greiða 850.000.000 kr. fyrir eignina. Eignir hafa verið að sirka tvöfalda sig í verði á 10 ára fresti og kaupandinn horfir fyrst og fremst á þessa fjárfestingu sem heimili en ekki sem fjárfestingu til skemmri tíma. Svona einstakar eignir eiga með tíð og tíma eftir að hækka í verði þar sem kaupendahópurinn vex með hverju ári og framboðið mjög takmarkað. Það má eiginlega segja að svona eign sé takmörkuð auðlind sem vex í virði með tíð og tíma,“ segir hann.

Heldur þú að þetta séu tölur sem við séum að fara að sjá í auknu mæli?

„Ég spái því að við munum sjá í auknu mæli að eignir í þessum gæðaflokki séu að seljast á 600.000.000 - 800.000.000 kr. og bara tímaspursmál hvenær fyrsta eignin fer á yfir milljarð.

Flestir greiningaraðilar eru að spá hækkun á fasteignamarkaði á næstu árum, en markaðurinn hefur hækkað um sirka 10% á ári síðustu 20 ár og fátt sem bendir til þess að slík meðalhækkun til lengri tíma haldi ekki áfram.

Sjálfur spái ég 8 - 10% hækkun á fasteignaverði á þessu ári en tek það samt fram að það er mín innilega ósk að fasteignaverð hækki ekki umfram kaupmátt. Afleiðingar af hækkun fasteignaverðs er oft hærri verðbólga og kaupendur taka hærra lán.“

Páll segir að í dag sé venjulegt launafólk að fjárfesta í eignum upp í sirka 130.000.000 kr. með ágætis móti. „Milliverðin, þ.e.a.s. frá 130.000.000 - 180.000.000 kr. er örlítið þyngri. Svo erum við að horfa á markað með eignum frá 200.000.000 kr. og upp úr, en það er allt annar markhópur og þá flest fólk sem hefur efnast með einhverjum hætti. Sem stendur eru tæpar 60 eignir auglýstar á 200.000.000 kr. og yfir, en hafa ber í huga að margar af þeim eignum eru líka of hátt verðlagðar og ólíklegt að þær seljist á því verðbili,“ segir hann.

Er að færast í aukana að fólk selji fasteignir án þess að auglýsa þær?

„Sú aðferð er í raun mjög sjaldgæf og þá helst ef eign er seld á milli tengdra aðila eins og fjölskyldu eða vina. Ég upplifi ekki að eignir eru seldar í auknum mæli án auglýsinga en vissulega eiga slík viðskipti sér stað en heyrir þó til undantekninga.“

Ódýrustu eignirnar seljist mjög hratt

Spurður á hvaða verðbili flestar eignir séu að seljast um þessar mundir segir Páll nokkuð mikla eftirspurn vera eftir eignum í öllum verðflokkum, en ódýrustu eignirnar séu þó að seljast mjög hratt. „Fyrstu kaupendur eru að koma sterkir inn á markaðinn og voru þeir yfir 30% af öllum kaupendum á síðustu þremur mánuðum ársins 2023,“ segir hann.

„Svo virðist sem eftirspurn eftir nærri öllum tegundum eigna sé að aukast og samdómaálit þeirra fasteignasala sem ég þekki er að eftirspurn sé að aukast verulega, enda hefur verið hálf ósýnileg eftirspurn bæði hjá fyrstu kaupendum og hjá fólki sem er að stækka eða minnka við sig sem hefur haldið að sér höndum. Á síðustu tveimur árum hefur íbúum á Íslandi fjölgað um 20 þúsund og svo eru auðvitað um 1.200 fjölskyldur úr Grindavík sem eru að leita sér að fasteign,“ bætir hann við.

mbl.is