Vissi af Þórdísi löngu áður en ástin kviknaði

Dagmál | 20. mars 2024

Vissi af Þórdísi löngu áður en ástin kviknaði

Tónlistar- og leikaraparið Júlí Heiðar Halldórsson og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir nutu nokkurra ára vinskaps hvors annars áður en þau felldu hugi og urðu ástfangin hvort af öðru. 

Vissi af Þórdísi löngu áður en ástin kviknaði

Dagmál | 20. mars 2024

Tónlistar- og leikaraparið Júlí Heiðar Halldórsson og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir nutu nokkurra ára vinskaps hvors annars áður en þau felldu hugi og urðu ástfangin hvort af öðru. 

Tónlistar- og leikaraparið Júlí Heiðar Halldórsson og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir nutu nokkurra ára vinskaps hvors annars áður en þau felldu hugi og urðu ástfangin hvort af öðru. 

Júlí Heiðar var gestur Mörtu Maríu Winkel Jónasdóttur í Dagmálum um dögunum þar sem hann ræddi meðal annars um þá óvæntu stefnu sem lífið tók þegar þau Þórdís fóru að stinga saman nefjum. Nýjasta plata hans kemur út föstudaginn 22. mars og heitir Þrjá­tíu og þrír út en þar fet­ar hann nýj­ar braut­ir. 

Kynntust í leiklistarskólanum

Miðað við orð Júlís Heiðars átti ástarsaga þeirra sér langan aðdraganda þar sem þau hafi alltaf litið á hvort annað sem vin.  

„Ég vissi af henni. Ég hafði séð hana áður niðri í Borgarleikhúsi þegar ég var þar og svo komust við inn í þetta nám,“ segir Júlí Heiðar en þau Þórdís lentu saman í bekk þegar þau stunduðu nám á leikarabraut í Listaháskóla Íslands á sínum tíma. 

„Inntökuprófið er í þremur þrepum. Þriðja þrepið er þrep þar sem að þú færð einhvern „partner“ og átt að leika senu á móti honum og hún var minn „partner“,“ segir hann og lýsir senunni:

„Þetta endar á því að ég kyrki hana. Þetta var alveg svona „brútal“ sena,“ segir Júlí sem grunaði ekki á þessari stundu að þau Þórdís ættu eftir að spila mun stærra hlutverk saman í lífinu og verða „lífspartnerar“.

Neistinn lengi að verða að loga

Júlí og Þórdís stunduðu námið saman í tvö ár eða þar til Þórdís Björk átti von á barni með þáverandi kærasta sínum. 

„Hún fer þá í bekkinn fyrir neðan og ég útskrifast. Svo líður ár og þá förum við bæði í prufur fyrir söngleikinn Vorið vaknar fyrir norðan og fáum aðalhlutverkin þar saman.“

Það var þó ekki þar sem ást þeirra kviknaði. 

„Þetta er eiginlega smá skrítið. Við vorum bara rosa góðir vinir,“ segir Júlí Heiðar sem einnig var í sambandi við barnsmóður sína á þessum tíma.

Þrátt fyrir að þau hafi leikið par í sýningunni Vorið vaknar bankaði rómantíkin ekki upp á hjá þeim fyrir alvöru fyrr en sumarið 2021 þegar þau léku saman í Leikhópnum Lottu. Þá voru þau Júlí Heiðar og Þórdís á svipuðum stað í lífinu; bæði að ná áttum eftir að hafa slitið samvistum við þáverandi maka sína. 

„Þegar það er í gangi þá erum við mjög góðir vinir,“ segir hann með áherslu. „Alveg svona extra góðir vinir.“ 

Þessi fallega saga þeirra Júlís Heiðars og Þórdísar Bjarkar er enn að skrifast og á parið til að mynda von á sínu fyrsta barni saman síðar á árinu.

Smelltu hér til að horfa á allt viðtalið við Júlí Heiðar í Dagmálum. 

mbl.is