Eldgos eða kvikuinnskot yfirvofandi

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 13. maí 2024

Eldgos eða kvikuinnskot yfirvofandi

Öll gögn benda til þess að fljótlega muni gjósa á ný á Sundhnúkagígaröðinni. Kvika í kvikuhólfinu er komin yfir þau mörk þar sem áður hefur gosið og Veðurstofan bíður átekta. 

Eldgos eða kvikuinnskot yfirvofandi

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 13. maí 2024

„Það er margt þarna niðri sem við skiljum ekki og …
„Það er margt þarna niðri sem við skiljum ekki og svona kerfi breyta sér og geta breytt sér á óútreiknanlegan hátt.“ mbl.is/Hörður Kristleifsson

Öll gögn benda til þess að fljótlega muni gjósa á ný á Sundhnúkagígaröðinni. Kvika í kvikuhólfinu er komin yfir þau mörk þar sem áður hefur gosið og Veðurstofan bíður átekta. 

Öll gögn benda til þess að fljótlega muni gjósa á ný á Sundhnúkagígaröðinni. Kvika í kvikuhólfinu er komin yfir þau mörk þar sem áður hefur gosið og Veðurstofan bíður átekta. 

„Það bendir allt til þess að það þurfi eitthvað lítið til að þetta fari í gang. En þetta er nú samt eitthvað að láta bíða eftir sér þannig að það er bara eins og alltaf í svona – það er mikil óvissa,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlis­fræðing­ur og fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga á Veður­stofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

„En það benda öll gögn til þess að kvikuinnskot eða eldgos sé yfirvofandi í rauninni hvenær sem er.“

Dró til tíðinda fyrir helgi

Litlar breytingar hafa orðið á landrisinu frá því að síðasta eldgosi lauk. Fyrir helgi dró þó aðeins til tíðinda þegar Veðurstofan fylgdist með sömu merkjum og hafa undanfarið verið sýnileg fimmtán til þrjátíu mínútum fyrir gos. Þá voru þó engin merki um aflögun. 

„En svo bara fór það ekki í gang heldur stoppaði. Þannig að það er einhver fyrirstaða sem væntanlega veldur því að þetta er ekki komið í gang,“ segir Benedikt og bætir við að á sama tíma sé þrýstingurinn í kerfinu að aukast. 

„Við erum komin með eitthvað vel yfir 14 milljón rúmmetra af kviku í kvikuhólfið, þannig að það er komið yfir þau mörk sem hefur gosið áður í.“

Verða drastískari breytingar

En af hverju er þessi fyrirstaða á svæði sem hefur farið í gegnum þetta miklar jarðhræringar? 

„Það er margt þarna niðri sem við skiljum ekki og svona kerfi breyta sér og geta breytt sér á óútreiknanlegan hátt. Það er alveg eitt af því sem við verðum að hafa í huga, að það getur eitthvað annað gerst og á endanum þá breytir þetta sér.

Þannig að það verða einhverjar drastískari breytingar. En það benda öll gögn til þess að það gjósi aftur á Sundhnúkagígaröðinni. Skjálftavirknin er að benda á það og aflögunin líka, þannig að það er svona það sem við búumst við.“ 

mbl.is