Eldhúsin taka allt of mikið pláss

Heimili | 25. maí 2024

Eldhúsin taka allt of mikið pláss

Elsa Ævarsdóttir er innanhússarkitekt að mennt en hún er nýflutt heim eftir að hafa búið erlendis um langa hríð. Hún hefur unnið að ýmsum verkefnum og fylgst vel með hönnunarheiminum. Morgunblaðið ræddi við hana um strauma og stefnur í hönnun ásamt því að spyrja hana út í skemmtilegt verkefni sem var á HönnunarMars og kallast Híbýlaauður.

Eldhúsin taka allt of mikið pláss

Heimili | 25. maí 2024

Elsa Ævarsdóttir arkitekt segir að eldhús séu oft allt of …
Elsa Ævarsdóttir arkitekt segir að eldhús séu oft allt of stór og passi ekki inn í rýmin sem þau eru sett inn í.

Elsa Ævarsdóttir er innanhússarkitekt að mennt en hún er nýflutt heim eftir að hafa búið erlendis um langa hríð. Hún hefur unnið að ýmsum verkefnum og fylgst vel með hönnunarheiminum. Morgunblaðið ræddi við hana um strauma og stefnur í hönnun ásamt því að spyrja hana út í skemmtilegt verkefni sem var á HönnunarMars og kallast Híbýlaauður.

Elsa Ævarsdóttir er innanhússarkitekt að mennt en hún er nýflutt heim eftir að hafa búið erlendis um langa hríð. Hún hefur unnið að ýmsum verkefnum og fylgst vel með hönnunarheiminum. Morgunblaðið ræddi við hana um strauma og stefnur í hönnun ásamt því að spyrja hana út í skemmtilegt verkefni sem var á HönnunarMars og kallast Híbýlaauður.

Hvaðan ertu og hvar lærðirðu?

„Ég er Reykvíkingur en hef um árabil búið og starfað erlendis. Ég er nýflutt aftur til Íslands eftir 16 ára dvöl í Sjanghaí, Singapúr og Berlín. Á námsárunum bjó ég einnig erlendis og er með háskólapróf í innanhússarkitektúr frá Þýskalandi. Eftir námið rak ég í áratug eigin teiknistofu í Reykjavík og hef skrifað um hönnunartengd málefni og staðið að bókaútgáfu.“

Elsa segir að áhuginn á hönnun og fagurfræði hafi alltaf fylgt sér og bætir við að hún hafi rekið vefverslun með vandaða muni í Kína. „Síðustu ár hefur áhugi minn einkum beinst að rannsóknum og ritstörfum í tengslum við hönnun og arkitektúr, meðal annars innan hópsins Híbýlaauðs.“

Hvað er Híbýlaauður og hvernig kom verkefnið til?

„Híbýlaauður er þverfaglegur rannsóknarhópur þar sem húsnæðismálin eru til skoðunar á breiðum grundvelli. Hugmyndina að samstarfinu á Anna María Bogadóttir, arkitekt og rithöfundur, sem hefur kallað til liðs við sig sérfræðinga á sviði arkitektúrs, hönnunar, verkfræði og hagfræði. Fjölbreyttir kaflar um húsnæðismál í bókinni Húsakostur og híbýlaprýði frá 1929 urðu kveikjan að verkefninu. Híbýlaauður vill hreyfa við umræðunni í dag og stefnt er að útgáfu bókar innan tíðar. Í stað þess að tala um fermetrafjölda og fjölda íbúða viljum við koma íbúanum að, líðan hans og upplifun í daglegu lífi.“

Hér má sjá eldhús frá Boffi þar sem helluborðið og …
Hér má sjá eldhús frá Boffi þar sem helluborðið og borðplatan mynda eina heild.

Við þurfum að kaupa minna

Elsa segir að þetta sé til dæmis gert með því að leggja áherslu á íbúann í samhengi við dagsbirtu og samverurými, endurgerð og endurhönnun mannvirkja og opinberan húsnæðisstuðning.

„Það sem við erum að byggja í dag mótar lífsumgjörð næstu kynslóða sem í auknum mæli munu búa saman í fjölbýlishúsum, því þarf að huga vel að samveru, gróðri, leik og lífi og við viljum koma þessum áherslum á dagskrá. Þar sem eldhúseyjan hefur orðið eins konar tákngervingur samveru og samtals í seinni tíð buðum við gestum og gangandi til samtals við eyjuna í Hafnarhúsinu á HönnunarMars. Það tókst vel og það er augljóst að fólk hefur mikinn áhuga á öllu sem snýr að umhverfi og híbýlum en hefur einnig áhyggjur af þróuninni.“

Boffi þykir gott í að búa til falleg eldhús. Óeldhúsleg …
Boffi þykir gott í að búa til falleg eldhús. Óeldhúsleg eldhús eru móðins núna eins og sá má á þessari mynd er þetta meira eins og hótel en heimili. Ljósmynd/Boffi

Hvernig sjáum við sjálfbærni blandast tískunni í innanhússhönnun?

„Líkt og í fatatískunni tengist tíðarandinn í innanhússhönnun áherslum á borð við endurnýtingu og endurgerð, langan líftíma, vistvæn efni, sjálfbærni og umhverfisáhrif. Segja má að það sé í tísku að þekkja góða hönnun og kunna að meta þau verðmæti sem til eru, nýta þau og hugsa hlutina upp á nýtt. Við þurfum að kaupa minna en það þýðir ekki að lífið verði leiðinlegra heldur felst í því áskorun um hvernig við viljum taka næstu skref,“ segir hún og bætir við að tískan hafi sveiflast hratt síðustu áratugi en á sama tíma hafi þekking á hönnun aukist. Það sé mikilvægt að læra að sjá verðmæti í því sem þegar hefur verið gert og meta notagildi eldri hluta og hugmynda áður en þeim sé rutt í burtu.

Eru einhverjir ákveðnir litir og litasamsetningar sem við sjáum koma inn á næstunni og þá hvaða?

„Spár um litatísku og markaðssetning nýrra lita er skemmtilegur hluti af tilverunni. Kröfur um umhverfisvænni framleiðslu eiga við um málningu eins og allt annað en annars sýnist mér nýjasta litatískan sækja innblástur til litagleði 9. áratugarins en þó með mildara yfirbragði. Við verðum flest fyrir áhrifum af tískunni og margir hafa gaman af því að breyta til. Það er tiltölulega einfalt að gera það með litum. Aðrir lifa sáttir við sitt og það rímar ágætlega við kröfur um sjálfbærni.

Það er umhverfisvænt að vera nægjusamur og mörgum finnst híbýli sem endurspegla upprunalegan tíðaranda áhugaverð. Stöðnun er þó aldrei skemmtileg og það er einnig mikilvægt að huga vel að viðhaldi á heimilinu. Hér á landi er hefð fyrir veglegum innréttingum og það er mikilvægt að þeim sé vel við haldið. Það er ekkert að því að aðlaga hlutina nýjum tímum og skipta um liti en ósjálfbært að henda verðmætum.“ Elsa segir svo og að fólk hafi lært að meta gildi þess að gera upp gömul timburhús, það sama eigi að gilda um vel útfærð innri rými og vandaðar innréttingar.

Hér má sjá líkan af Kleppsveginum sem Elsa og félagar …
Hér má sjá líkan af Kleppsveginum sem Elsa og félagar hennar sýndu á HönnunarMars. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Memphis-húsgögn og krómuð áferð

Eru einhver sérstök húsgögn áberandi um þessar mundir?

„Eins og oft togar tískan okkur á nýja staði og nú eru fjölbreytt form og litir að verða meira áberandi, þetta á líka við þegar kemur að húsgögnum. Eftir sem áður gildir að hafa gæðin í forgrunni og kaupa hluti sem endast og eldast fallega. Það er engu logið um að tískan snýst í hringi og nú eru til dæmis Memphis-húsgögn og krómuð áferð að verða vinsæl á ný. Þeir sem fjárfestu í slíkri hönnun á sínum tíma geta fagnað því!“

Hefur einhver ný hugmyndafræði verið að koma inn varðandi innanhússhönnun og eru einhverjir sérstakir hönnuðir vinsælir?

„Tími frægra stjörnuhönnuða er liðinn og tími þverfaglegrar nálgunar hafinn. Byggingar og hið manngerða umhverfi hefur mikil áhrif á hvernig okkur líður og það er mikilvægt að við hönnun sé velferð fólks höfð að leiðarljósi. Nýjar rannsóknir á ólíkum sviðum þurfa að hafa meiri áhrif á hvernig við byggjum og hvernig við komum okkur fyrir. Dæmi um slíkt eru rannsóknir á sviði umhverfissálfræði, vísindalegar mælingar á ljósvist og tilraunir með ný og vistvæn byggingarefni,“ segir hún.

Hvað með lýsingu og ljós, hvaða helstu áherslur, breytingar og nýjungar er að finna þar?

„Þegar talað er um ljós í híbýlum ætti dagsbirtan ætíð að vera í aðalhlutverki. Ég hef áhyggjur af því að í nýjum fjölbýlishúsum sé of mikið um gluggalaus rými. Gluggalausir gangar í sameign þar sem aðkoma að íbúðum minnir á hótel, baðherbergi án glugga og eldhús langt frá náttúrulegri birtu sjást of oft í nýjum byggingum.

Við erum eftirbátar nágrannalandanna þegar kemur að ljósvistarmælingum í nýbyggingum. Það er brýnt að bæta úr því og rannsóknir innan Híbýlaauðshópsins sýna að mikilvægt er að koma slíkum reglum inn í byggingarreglugerðina til að tryggja betri gæði allra íbúða.

Þar sem dagsbirtu nýtur ekki við, og á dimmum vetrarmánuðum, er að sjálfsögðu einnig mikilvægt að huga að góðri almennri lýsingu. Fallegir lampar eru góð leið til að búa til heimilislega stemmingu og snúrulausir hleðslulampar eru vinsælir. Um slíka lampa er þó deilt, það þekki ég frá Þýskalandi, og bent á að vörur með hleðslubatteríi séu ekki umhverfisvænar til lengri tíma litið.“

Híbýlaauður hvatti til umhugsunar og umræðu með því að setja …
Híbýlaauður hvatti til umhugsunar og umræðu með því að setja slagorð á skilti. Frá vinstri, Snæfríð Þorsteins, Ásgeir Brynjar Torfason, Anna María Bogadóttir, Hólmfríður Jónsdóttir, Elsa Ævarsdóttir, Hrefna Björg Þorsteinsdóttir, Ásta Logadóttir og Hildur Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Eldhús eða sýningarsalur?

Hvað með hjartað í húsinu, eldhúsið, eru einhverjar nýjungar þar?

„Nýjungar í eldhúshönnun snúast mikið um yfirborð og tækjakost. Framhliðin er í forgrunni og hlutir sem minna á matargerð eru smám saman að verða ósýnilegir. Lokaðir tækjaskápar eru vinsælir og glænýtt dæmi frá ítalska framleiðandanum Boffi er keramikhelluborð sem rennur saman við samlita keramikborðplötu.“ Elsa segir auk þess að sú þróun að hægt sé að kaupa alls konar framhliðar óháð innvolsinu segi sína sögu en það geti líka talist kostur því að þannig megi fríska upp á eldri innréttingar án þess að henda öllu út.

„Hér áður fyrr var fókusinn á vinnuhagræði en nú þykir eftirsóknarverðast að yfirbragð eldhússins minni sem minnst á vinnustað. Stundum virka eldhúsin eins og sýningarbásar og spyrja má hvort þau henti íslensku fjölskyldulífi. Í Asíu, þar sem húshjálp er á heimilum þeirra efnameiri, þóttu slík eldhús vel við hæfi. Þá er eldhúsið tvískipt, það sem sést og er til sýnis er samkvæmt nýjustu tísku, utan sjónlínu er eldhús húshjálparinnar.“

En hvað með þróun eldhússins, skyldi hún vera í takt við rannsóknir Híbýlaauðs?

„Af kynningarefni framleiðenda mætti draga þá ályktun að eldhús stæðu almennt í risavöxnu opnu rými þar sem pláss er fyrir stóra eyju. Í raun eru flest eldhús mun smærri í sniðum og fermetrafjöldinn takmarkaður. Þar sem mest er byggt af fjölbýlishúsum um þessar mundir finnst mér áhugavert að skoða þróun eldhússins í því samhengi. Þá er það staðsetningin sem skiptir mestu máli.

Tilfærsla eldhússins úr sérstöku herbergi yfir í alrýmið fylgir þróun samfélagsins, þar er samverustaður íbúanna, eldhús, borðstofa og stofa. Eyjur eru góð söluvara og áherslan á þær er stundum slík að í alrýminu verður lítið pláss eftir fyrir borðstofu og stofu. Á sama tíma má segja að með tilkomu alrýmisins hafi þrengt verulega að eldhúsinu. Alltof oft stendur eldhúsinnréttingin innarlega í íbúðinni, langt frá glugga, eða liggur jafnvel meðfram gangvegi, eins og um hótelíbúð væri að ræða. Það má því segja að með tilkomu alrýmisins hafi smám saman orðið þrengra um samveruna.“

Sameiginleg rými í kjarnasamfélögum

„Erlendis hafa einnig orðið breytingar í þá átt að íbúðir minnka en samhliða hafa þróast hugmyndir um sameiginleg rými og kjarnasamfélög (e. co-housing). Fyrir suma hljómar það eins og líf á stúdentagörðum þar sem algengt er að komið sé upp alls kyns sameiginlegri aðstöðu. Mörg þekkjum við líka sameiginleg rými úr eldri blokkum hérlendis en kannski má frekar sjá þetta fyrir sér eins og hótel. Í erlendum stórborgum sækist fólk í auknum mæli eftir að búa í fjölbýli þar sem boðið er upp á ýmsa þjónustu innanhúss, svo sem líkamsrækt, sameiginleg eldhús og aðstöðu til að taka á móti gestum.

Sameiginleg svæði utandyra skipta líka miklu máli og þótt bílarnir séu komnir í bílakjallarann er mikilvægt að huga að skjóli og sólbjörtu mannlífi á milli húsanna. Nú þegar verið er að þétta byggðina hér á landi væri óskandi að slíkar hugmyndir fengju hljómgrunn,“ segir Elsa að lokum.

mbl.is