Mikill meirihluta Svía vill að Freivalds segi af sér

Laila Freivalds heimsótti Phuketeyju í Taílandi í vikunni.
Laila Freivalds heimsótti Phuketeyju í Taílandi í vikunni. AP

Mikill meirihluti Svía vill að Laila Freivalds, utanríkisráðherra Svía, segi af sér embætti vegna þess hve viðbrögð sænska utanríkisráðuneytisins við hamförunum í Asíu voru sein. Í netkönnun, sem blaðið Expressen stóð fyrir, tóku þátt rúmlega 60 þúsund manns og 76% þeirra vildu að Freivalds segði af sér.

Átján prósent vildu að ráðherrann sæti áfram og beitti sé fyrir endurbótum á starfsaðferðum ráðuneytisins, 5% töldu Freivalds standa sig vel og 1% sögðu að hún ætti að halda sínu striki.

Sænskir fjölmiðlar hafa skýrt frá því, að eftir að Freivalds fékk fréttir af hamförunum sl. sunnudag hafi hún farið í leikhús og ekki mætt til vinnu fyrr en á mánudag. Samt hafi legið fyrir að 20-30 þúsund sænskir ferðamenn voru staddir á hamfarasvæðunum.

Þúsundir tölvupósta og símtala hafa á síðustu dögum borist utanríkisráðuneytinu þar sem lýst er reiði og vonbrigðum vegna viðbragða ráðuneytisins. Freivalds viðurkenndi í gær, að ráðuneytið hefði verið heldur svifaseint.

Samkvæmt síðustu áætlun utanríkisráðuneytisins er ekki vitað um afdrif 3500 Svía í Taílandi en staðfest er að 66 Svíar létu lífið í hamförunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert