Næstum 140.000 látnir eftir hamfarir í Asíu

Hermenn við hreinsunarstörf á Patong strönd í Taílandi í dag.
Hermenn við hreinsunarstörf á Patong strönd í Taílandi í dag. AP

Staðfest er að næstum 140.000 manns eru látnir eftir jarðskjálfta og flóðbylgjur sem urðu í Suður-Asíu á annan dag jóla. Í Indónesíu, sem varð verst úti af völdum hamfaranna, hafa dauðsföll meira en 94.000 manna verið staðfest. Miklar björgunaraðgerðir standa yfir á hamfarasvæðunum og Sameinuðu þjóðirnar segjast vongóðar um að heimurinn muni leggja sitt af mörkum til þess að koma þeim sem lifðu hamfarirnar af til hjálpar. Meira en 1,8 milljónir manna á flóðasvæðunum þarfnast mataraðstoðar og um fimm milljónir manna misstu heimili sín í hamförunum.

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna er á leið til flóðasvæðanna þar sem hann mun skoða afleiðingar flóðbylgnanna.

SÞ segja að sennilega verði aldrei ljóst að fullu hversu margir fórust því mörg lík hafi skolast út á sjó eftir flóðin, að því er fram kemur í frétt BBC.

Á því svæði sem verst varð úti, í Aceh héraði í Indónesíu, er nú flogið reglulega til með matarbirgðir. Bandarískar, indónesískar, ástralskar og malasískar herflugvélar fljúga með matarpakka á þau svæði sem þurfa á því að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert