Maður sem skotinn var til bana var frá Brasilíu

Lögregla hefur verið með aðgerðir í nágrenni Stockwell brautarstöðvarinnar frá …
Lögregla hefur verið með aðgerðir í nágrenni Stockwell brautarstöðvarinnar frá því í gær. Reuters

Maðurinn, sem lögreglumenn skutu til bana á Stockwell neðanjarðarlestarstöðinni í Lundúnum í gær, var brasilískur ríkisborgari. Lundúnalögreglan staðfesti þetta í kvöld. Lundúnalögreglan sagði upphaflega að maðurinn hefði tengst rannsókn á misheppnuðum sprengjuárásum í Lundúnum á fimmtudag en í dag kom í ljós að svo var ekki. Lögreglan sagði fyrr í dag, að málið væri harmleikur.

Lögreglan sagði í stuttri yfirlýsingu í kvöld. að maðurinn hafi heitað Jean Charles de Menezes og verið 27 ára. Ítrekað var, að maðurinn hafi ekki tengst sprengingunum á fimmtudag.

Brasilískir fjölmiðlar sögðu að Menezes hefði verið rafvirki, sem fékk dvalarleyfi á Englandi og bjó þar undanfarin þrjú ár.

Sjónarvottar sögðu sumir að maðurinn, sem lögreglan skaut, hefði virst vera af asískum uppruna en aðrir að hann hefði virst vera frá Suður-Ameríku.

Lögregla fylgdi manninum eftir þegar hann fór út úr húsi í suðurhluta Lundúna en lögreglan hafði komist að því að tengsl væru á milli hússins og og sprengjuárásanna sl. fimmtudag. Lögreglumenn töldu grunsamlegt, að maðurinn klæddist þykkri yfirhöfn þótt heitt væri í veðri, og óttuðust að hann væri með sprengju innanklæða. Þegar maðurinn kom á Stockwell brautarstöðina skipuðu lögreglumenn manninum að nema staðar en hann hlýddi því ekki, stökk yfir gjaldhlið og út á brautarpall. Hann reyndi þar að fara inn í lest en hrasaði og lögreglumenn yfirbuguðu hann og óeinkennisklæddur lögreglumaður skaut hann fimm skotum.

Fram kom í kvöld, að lögregla í Bretlandi hafi tekist að tengja þá sem frömdu sprengjuárásirnar í Lundúnum 7. júlí við þá sem reyndu að fremja svipaðar árásir sl. fimmtudag. Tengingin er sögð vera útilega í Wales, sem tveir af sprengjumönnunum þann 7. júlí, tóku þátt í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert