Finnskur ritstjóri rekinn eftir birtingu skopmynda af Múhameð spámanni

AP

Ritstjóri finnsks menningartímarits hefur verið sagt upp störfum eftir að hafa birt skopmyndir af Múhameð spámanni. Ritstjórinn, Jussi Vilkkuna, var látinn taka pokann sinn þegar hann neitaði í kjölfarið að fjarlægja myndirnar af vefsíðu tímaritsins Kaltio er stjórn útgáfufélagsins fór fram á það.

Stjórnarformaður Kaltio, Harri Kynnoes, segir að það hafi verið mikil mistök að birta skopmyndirnar í blaðinu og að stjórnin biðjist afsökunar á myndbirtingunni. Eins verði myndirnar fjarlægðar af vef blaðsins eins fljótt og auðið er. Vilkkuna hafði verið ritstjóri menningartímaritsins í tæp sjö ár þegar hann var rekinn. Þrjú tryggingarfélög hafa sagt upp auglýsingasamningum við Kaltio á netinu vegna birtingu skopmyndanna. Áskrifendur Kaltio eru um tvö þúsund talsins og hefur blaðið komið út í yfir 60 ár.

Ekkert stórblað í Finnlandi hefur birt skopmyndirnar tólf af Múhameð spámanni sem Jótlandspósturinn birti í september sl. En litlir hópar öfgahægrimanna hafa sett teikningarnar á vefsíður sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert