Ritstjórar Jyllands-Posten sýknaðir í máli vegna Múhameðsteikninga

Ritstjórar Jyllands-Posten voru í dag sýknaðir í máli sem samtök …
Ritstjórar Jyllands-Posten voru í dag sýknaðir í máli sem samtök múslima í Danmörku höfðuðu vegna Múhameðsteikninganna. mbl.is/GSH

Héraðsdómur í Árósum í Danmörku hefur sýknað Carsten Juste, aðalritstjóra Jyllands-Posten, og Flemming Rose, menningarritstjóra, í máli sem sjö samtök múslima höfðuðu vegna skopteikninga sem blaðið birti af Múhameð spámanni fyrir ári.

Samtökin töldu að ritstjórar blaðsins hefðu brotið gegn dönskum hegningarlögum með því að birta myndirnar. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri hægt að útiloka að einhverjum múslinum hafi þótt að sér vegið þegar myndirnar voru birtar í blaðinu en engin ástæða væri til þess að ætla, að myndunum og grein, sem þeim fylgdi, hefði verið ætlað að gera lítið úr múslimum og trú þeirra.

Þetta var þriðja tilraun múslimasamtakanna til að fá blaðið dæmt vegna teikninganna. Samtökin kærðu blaðið upphaflega fyrir að hafa brotið gegn hegningarlagagreinum sem banna að dregið sé dár að eða smána trúarkenningar en bæði saksóknarinn í Viborg og danski ríkissaksóknarinn komust að þeirri niðurstöðu, að engin af teikningunum 12 bryti gegn þeirri lagagrein. Þá höfðuðu samtökin einkamál gegn ritstjórum Jyllands-Posten og töldu þá hafa brotið gegn lagaákvæðum um meiðyrði en því var dómstóllinn í Árósum ekki sammála.

Carsten Juste segir á fréttavef Jyllands-Posten að það hefði verið stórslys ef dómurinn hefði fallið á annan veg. „Menn geta haft sínar skoðanir á myndunum og því að blaðið birti þær en bæði ákæruvaldið og réttarkerfið hafa staðfest að blaðið hafði fullan rétt á að prenta þær. Auðvitað geta múslimasamtökin áfrýjað dómnum en ég held að öllum sé ljóst að þessi sýknudómur er sú eina niðurstaða, sem er viðunandi," segir Juste.

Kasem Ahmad, talsmaður múslimasamtakanna, segir að þau virði niðurstöðuna en skilji hana ekki og skilji ekki heldur hvers vegna múslimar í Danmörku njóti ekki betri réttarverndar. Hann segist aðspurður ekki trúa að viðbrögð við dómnum verði hörð en þó gæti hann skapað óróleika meðal múslima.

Carsten Juste, aðalritstjóri Jyllands-Posten.
Carsten Juste, aðalritstjóri Jyllands-Posten. mbl.is/GSH
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert